04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2744 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

124. mál, skipan opinberra framkvæmda

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þegar hingað er komið til umræðu frv. til l. um opinber innkaup, sem hv. Ed. hafði til meðferðar, sé ég ástæðu til að fara um það nokkrum orðum.

Það má vera að varðandi vissa þætti þessa máls sé verið að hverfa að hagkvæmari skipan en ríkt hefur í sambandi við meðferð opinberra innkaupa og opinberar framkvæmdir og er skylt að horfa á það með velvilja. Hitt tel ég umræðu vert og nauðsynlegt að ræða við 1. umr. þessa máls að í þessu frv. er á engan hátt vikið að hagsmunum innlendra framleiðenda í sambandi við undirbúning og útboð verka. Virðist vera algerlega gengið fram hjá þeirri stefnu, sem margoft hefur verið rædd hér á hv. Alþingi, að leitast við að nota opinber innkaup og opinberar framkvæmdir til að styðja við innlenda framleiðslu. Það er að vísu allsérkennilegur ferill núv. hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli því að eitt af fyrstu verkum iðnrh. þessarar hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. núv. menntmrh., var að afnema skipan sem ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens hafði komið sér saman um að koma á í sambandi við opinber innkaup, þar sem um var að ræða nefnd sem átti að fylgjast náið með þeim málum, nefnd með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, bæði atvinnurekendamegin og eins af hálfu verkalýðssamtakanna, fyrir utan fulltrúa frá ráðuneytum svo sem eðlilegt er, bæði viðskipta- og fjármálaráðuneyti. Ég minnist þess að á fyrstu dögum sem ég starfaði sem iðnrh. var mælt hér fyrir till. til þál. um opinber innkaup þar sem hvatt var til þess að taka þau mál með öðrum og fastari tökum en áður hafði verið. Ef ég man rétt var 1. flm. þeirrar till. hv. þm. Eggert Haukdal. Ég tók undir mál hans þá og ég man ekki betur en þáltill. um þetta efni hafi verið samþykkt. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens tók síðan á þessu máli og kom upp skilmerkilegu kerfi til þess að leitast við að nýta meðferð opinberra fjármuna til að styðja við innlenda framleiðslu í landinu svo sem eðlilegt og sjálfsagt er og hvarvetna er gert og það án þess að verið sé að sniðganga alþjóðlega samninga. Hér kemur hins vegar frv. frá ríkisstjórninni þar sem ekki er að finna stafkrók um þessi efni og virðist svo sem hagkvæmnimælikvarðinn eigi einn að gilda í þessum efnum og ekkert tillit sé tekið til þátta eins og þeirra möguleika sem opinber innkaupastefna felur í sér í sambandi við iðnþróun og í sambandi við framkvæmdir mála.

Hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson afnam þá skipan sem komið hafði verið á í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, eins og ég hef þegar nefnt, en hann leitaðist þó við með fyrirmælum að taka á þessu máli og bjóða opinberum stofnunum og ráðuneytum að taka visst tillit til þessara mála. Eftir því var hins vegar ekkert gengið af ríkisstjórninni. Ég spurði í fyrra hér í þinginu hæstv. núv. iðnrh. Albert Guðmundsson um það, hvað liði þessu máli, þar sem hann hafði áður fyrr, m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur, leitast við að taka á þessu máli með ákveðnum hætti. Hæstv. iðnrh., sem ég sé ekki að sé viðstaddur hér nú en æskilegt væri vissulega að væri viðstaddur þessa umræðu, hét því að taka á þessum málum. Ég veit ekki betur en hann hafi sýnt einhverja viðleitni í þá átt. En hér er um að ræða lögfestingu á skipan þessara mála og það er því mjög alvarlegt efni að mínu mati ef það á að taka á þessu með þeim hætti sem hér er að stefnt. (Forseti: Vegna þeirra tilmæla að iðnrh. yrði hér viðstaddur er það upplýst að hann hefur fjarvistarleyfi.) Ég þakka hæstv. forseta og hlýt að taka tillit til þess, en vænti þess að aðrir ráðherrar, sem hljóta að láta sig þessi mál varða fyrir utan hæstv. fjmrh., tjái sig um það efni sem ég er að vek a hér sérstaka athygli á í sambandi við þetta mál. Ég hygg raunar að ég hafi lesið það í Morgunblaðinu í dag að hæstv. ráðh. væri í förum erlendis vegna sérstakra viðræðna við Alusuisse. E.t.v. hefur hann hleypt heimdraganum í því skyni. En um það vil ég ekkert fullyrða.

En hvað snertir framhald þessa máls tel ég alveg nauðsynlegt að sú þingnefnd sem á að fá þetta mál til meðferðar taki alveg sérstaklega á þessum þætti. Ég tel að hér sé um svo stórt mál að ræða fyrir íslenskan iðnað að það sé með öllu óverjandi fyrir Alþingi að láta þetta mál frá sér fara með þeim hætti sem hér er áformað og mælt er fyrir af hæstv. fjmrh.

Menn hafa stundum nefnt ákveðnar prósentur sem ætti að nota til viðmiðunar þar sem um væri að ræða að taka hagsmuni innlendra fyrirtækja fram yfir erlend fyrirtæki. Það er gert í vissum tilvikum og getur verið góðra gjalda vert. Það er þó ekki meginatriðið út af fyrir sig. Meginatriðið er að innlendir framleiðendur fái um það vitneskju hver eru áform hins opinbera hverju sinni og það með góðum fyrirvara til að geta búið sig undir þátttöku í útboðum og samkeppni við aðra aðila um þessi efni. Þessi opinbera innkaupastefna, sem ég er að mæla hér fyrir, getur verið afar þýðingarmikið tæki í sambandi við iðnþróun til lengri tíma litið. En það lítur út fyrir að hæstv. ríkisstjórn sé blind á báðum augum í þessu máli, eins og raunar í fleiri málum sem snerta innlenda framleiðslu og innlent atvinnulíf, og það er sannarlega bágt til þess að vita. Sú þáltill. sem hv. þm. Eggert Haukdal bar fram og samþykkt var hér á Alþingi á sínum tíma virðist hafa lent heldur neðarlega í handraðanum hjá hæstv. ríkisstjórn.

Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að ræða þetta mál hér mikið frekar, en vil þó benda á hve víða er pottur brotinn að því er manni virðist í sambandi við opinber innkaup og að því er varðar möguleika innlendra framleiðenda til að taka þátt í útboðum þar að lútandi og hvernig opinberar stofnanir leyfa sér að ganga þar jafnvel á undan. Ég hygg mig hafa fregnir um að t.d. í sambandi við húsgagnakaup fyrir hv. Alþingi, sem nýlega hafa farið fram, hafi innlend framleiðsla verið fyrir borð borin. Ég hygg að andmæli hafi komið fram frá innlendum húsgagnaframleiðendum í sambandi við það mál og ég sé sérstaka ástæðu til að inna eftir því hvernig að því hafi verið staðið af hálfu Alþingis og forseta Alþingis að undirbúa það mál, án þess að ég vilji fella einhverja allsherjardóma um þá niðurstöðu að óathuguðu máli. Þetta er aðeins eitt dæmi af ótal mörgum þar sem við erum í rauninni að flytja atvinnu úr landi vegna þess að menn standa ekki á verði og veita ekki innlendri framleiðslu þá möguleika til þátttöku sem skylt er. Það verður ekki gert með einhverri sýndarmennsku og síst af öllu með orðum einum. Það verður að gerast með því að framkvæmdir á vegum hins opinbera séu kynntar innlendum framleiðendum langt fram í tímann.

Þessi mál eru stórmál. Heimakaupin eru stórmál hvarvetna nema hér á Íslandi. Þar liggja þau í þagnargildi. Öll hin Norðurlöndin nota þetta sem gildan þátt í atvinnuuppbyggingu sinni og ekkert við því sagt hjá alþjóðlegum viðskiptasamböndum sem við erum bundin eins og margar fleiri þjóðir. Ég hvet því hv. Alþingi til að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og vara eindregið við því að farið verði að lögfesta þetta frv. eins og hér er upp lagt.