04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

125. mál, opinber innkaup

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans, en mér fannst röksemdir hans gegn því að setja sérstakt ákvæði inn í lögin um að kaupa íslenska framleiðslu að öðru jöfnu ekki vera nógu sterk. Ég vil benda honum á að það er bæði fyrirhafnarsamt og dýrt að vera Íslendingur, að fá að vera Íslendingur og búa í þessu landi og reka sjálfstæða þjóð. Ég þarf kannske ekki einu sinni að segja honum það, fjármálaráðherranum. Hins vegar vildi ég spyrja hann að því hvort hann væri opinn fyrir því að það yrðu sett ákvæði inn í þessi lög til að styrkja íslenska framleiðslu, ekki ákvæði sem mundu binda heldur að öðru jöfnu. Í það minnsta að athuga í hvert sinn þegar keypt er hvort ekki er völ á einhverju íslensku efni sem mætti nýta áður en menn beindu sjónum að vöru sem e.t.v. er framleidd annars staðar á hnettinum, í löndum þar sem völ er á mjög ódýru vinnuafli, kannske smánarlegu ódýru vinnuafli. Ég vildi inna hann eftir þessu, hvort hann væri opinn fyrir þeirri hugmynd að það kæmi þarna inn ákvæði sem segði að hugað yrði að því að öðru jöfnu að kaupa íslenska framleiðslu þó að það væri ekki lögbundið því að vitanlega gengur þetta frv. fyrst og fremst út á það að auka hagkvæmni.