04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

125. mál, opinber innkaup

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil biðja velvirðingar á því að hafa tekið þetta mál um opinber innkaup sérstaklega upp áður en hæstv. ráðh. mælti fyrir því, en ég var að afla mér gagna meðan hann mælti fyrir sínu máli um skipan opinberra framkvæmda, en það kemur væntanlega ekki að sök.

Hvað snertir hið fyrra mál gildir það einnig í sambandi við skipan opinberra framkvæmda að þar er auðvitað á sama hátt um að ræða mjög stórt mál sem mikið er rætt í þjóðfélaginu, þar á meðal um hagkvæmni útboða og hvernig að útboðum er staðið. Og ég vil ítreka athugasemdir af minni hálfu þar að lútandi sem hafa komið fram í umræðum í þinginu í sambandi við þau mál og snerta m.a. þróun byggðar í landinu. Þar hafa komið fram tillögur fluttar af hv. 2. þm. Austurl. og fleiri þm. sem eru væntanlega til skoðunar í þingnefnd. Ég tel nauðsynlegt að þessi mál verði í heild sinni skoðuð rækilega, bæði um skipan opinberra framkvæmda og um opinber innkaup. Hér er um svo stór mál að ræða að það er alveg nauðsynlegt að Alþingi taki á þessu. Hér er um fjölda atvinnutækifæra að tefla, ef ekki þúsundir til lengri tíma litið, og ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir þá þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar að afla sér rækilegra upplýsinga um hvernig að þessum málum er staðið hjá nágrannaþjóðum okkar. Eitt er það út af fyrir sig hvað menn setja inn í lög og binda í lögum og annað hvað menn framkvæma í ljósi mótaðrar stefnu. Ég vakti áðan athygli á því, með hversu sérkennilegum hætti núv. hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að opinberri innkaupastefnu, þar sem fyrri samþykktir hafa nánast verið gerðar að pappírsgagni einu saman og það heyrist nánast ekkert á þessi mál minnst á opinberum vettvangi.