04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2751 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

125. mál, opinber innkaup

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég svaraði þessari spurningu í raun og veru í upphafsræðu fyrir því frv. sem hér liggur fyrir. Það var ekki gert ráð fyrir því þegar frv. var lagt fram að í því væru sérstök ákvæði sem skylduðu opinbera aðila til að kaupa af innlendum framleiðendum. Með því er ég ekki að segja að slíkar reglur eigi ekki að viðhafa og þær geti ekki verið réttlætanlegar. Þvert á móti held ég að það sé full ástæða til þess að opinberir aðilar hafi það í huga og leggi til grundvallar ákveðnar viðmiðanir í þeim efnum. Mín skoðun er hins vegar sú að þetta eigi ekki að fastbinda í þessum lögum. Það væri óskynsamlegt. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að það er nauðsynlegt að íslenskur iðnaður hafi ákveðið samkeppnisaðhald. Við megum ekki búa til þær lagareglur sem auðvelda honum að framleiða fyrir hærra verð en hann í raun og veru getur gert. Sannleikurinn er sá að íslensk iðnfyrirtæki hafa á undanförnum árum tekið gífurlegum framförum og eru stöðugt samkeppnishæfari en áður og í mörgum tilvikum miklu samkeppnishæfari en sambærileg erlend fyrirtæki. En niðurstaða mín er sem sagt sú að það sé eðlilegt að styðjast við ákveðnar meginreglur í þessu efni, en þær verða að vera sveigjanlegar og þær mega ekki vera svo bindandi að hagsmunum skattborgaranna sé fórnað fyrir þessar reglur. Ég hef því ekki talið ástæðu til að setja lagaákvæði inn í þetta frv. um opinber innkaup.