04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt þegar flutt er frv. til laga um breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, næst á eftir þeirri miklu breytingu sem gerð var á síðasta þingi, að fara nokkrum orðum um reynsluna af því kerfi sem verið hefur í gildi að undanförnu. Fyrst vil ég þó víkja að því frv. sem hæstv. ráðh. hefur mælt fyrir og taka það fram að mér sýnist að þær tillögur sem þar er að finna um lagfæringar á lagasetningunni frá í fyrravetur horfi allar til bóta þó að maður hefði getað kosið að sjá ákveðnari breytingar á vissum atriðum og sjálfsagt að athugað verði í nefnd hvort ekki er hægt að ná lengra í þeim efnum. Hæstv. ráðh. nefndi sjálfur erfiðleika sem snerta lánsrétt hjóna og afstöðuna í sambandi við rétt þeirra til lánveitingar og það er vissulega einn af þeim þáttum sem er mjög brýnt að fá fram breytingar á sem næðu lengra en gert er ráð fyrir í þessum tillögum. Ég vil lýsa ánægju með það að frá ríkisstjórninni hafa komið fram nokkrar leiðréttingar á augljósum ágöllum þessara laga sem sett voru í fyrravetur og er það út af fyrir sig þakkarvert.

Hitt er svo annað mál, sem ég ætla að víkja að hér nokkrum orðum, en það er ljóst að ef fara ætti ofan í saumana á reynslunni af löggjöfinni um húsnæðismál frá í fyrra þyrfti lengri tíma en deildin hefur til ráðstöfunar núna í dag. Ég ætla því að reyna að takmarka mig við nokkur atriði af raunar mjög mörgum.

Umræða um þessi mál hefur víða verið í gangi. Ég átti aðild að fundi sem haldinn var austur á Egilsstöðum s.l. sunnudag um þessi mál þar sem hvatt var til umræðna um húsnæðismálin af Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Framfarafélagi manna á Fljótsdalshéraði. Þar mætti framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, Sigurður E. Guðmundsson, til umræðna og upplýsti ýmislegt sem eftir var leitað í þeim efnum. Ég nefni þetta hér í upphafi vegna þess sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Jóhönnu Sigurðardóttur, um þá miklu þenslu sem verið hefði á fasteignamarkaðnum hér á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði, en þarna fyrir austan kvað við allt annan tón í þeim efnum. Þar er ekki sú reynsla sem hún rakti, vafalaust réttilega, í sínu máli varðandi verðþenslu á fasteignamarkaði hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur þvert á móti. Úti á landsbyggðinni víðast hvar blasir við gífurlegt verðfall á fasteignum á þeim tíma sem liðinn er síðan breytingarnar á húsnæðislöggjöfinni voru lögfestar í fyrra. Raunar tengist það ekki þeim breytingum heldur þeirri þróun í byggðamálum sem hefur verið í gangi nú um nokkurra ára skeið og er farin að hafa gífurleg áhrif, m.a. á húsnæðismarkaðinn á þéttbýlisstöðum víðast hvar á landsbyggðinni.

Á þessum fundi á Egilsstöðum var samþykkt stutt ályktun. Ég hef hana ekki handa á milli en vil kom henni á framfæri efnislega. Hún var á þá leið að lög um Húsnæðisstofnun ríkisins yrðu tekin til gagngerðrar endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu og meðal annars hið félagslega íbúðakerfi. Þar komu fram áhyggjur, ekki síst frá sveitarstjórnarmönnum, af reynslunni af Byggingarsjóði verkamanna og hvernig hann reynist gagnvart sveitarfélögum úti á landi. Og síðast en ekki síst var ályktað á þessum fundi þar eystra að Húsnæðisstofnun ríkisins yrði að verulegu leyti færð út á land, eða þjónusta hennar, ráðgjafarþjónusta og tækniþjónusta, og kemur það heim og saman við þær tillögur um valddreifingu sem ég er eindreginn talsmaður fyrir.

Það sem sérstaklega er ástæða til að vekja athygli á við þessa umræðu er kjarninn í þeirri skýrslu sem nú er loks komin frá félmrh., um álit milliþinganefndar um húsnæðismál sem fékk til meðferðar mörg mjög veigamikil atriði með samþykkt í félmn. þessarar deildar 21. apríl s.l., þar sem vísað var til nefndarinnar tíu atriðum sem rædd voru hér af tilefni fsp. sem ég bar fram við hæstv. ráðh. um daginn og átta atriði eru tiltekin á bls. 2 í þessari skýrslu. Þar á meðal og ekki síst það sem varðar hið félagslega íbúðakerfi, kaupleiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og leiguhúsnæði, svo eitt dæmi sé tekið af þeim mörgu sem þarna var vísað til nefndarinnar.

Hæstv. ráðh. hefur ítrekað verið spurður um gang mála í þessari nefnd þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa auðvitað haft forustu og fyrst og fremst hefur verið beðið eftir að þeir kæmu sér saman um afgreiðslu mála og stæðu Alþingi skil á tillögum sem lofað var í fyrravor að lægju fyrir í byrjun yfirstandandi þings en hafa ekki enn séð dagsins ljós í öðru formi en ef nefna skyldi það frv. sem hér er kynnt með vissum atriðum til lagfæringar. Að öðru leyti stendur hæstv. ráðh. uppi slyppur og snauður hvað snertir tillögur um það efni sem ríkisstjórnarflokkarnir skuldbundu sig til að standa Alþingi skil á og milliþinganefndinni var falið að fjalla um.

Í skýrslu milliþinganefndarinnar kemur það fram að það er fyrst undir lok júlímánaðar eða í byrjun heyanna sem nefndin kemur saman til fundar. Það er nú kannske ekki von að vel hafi gengið þegar þannig var að málum staðið af forustu í þessari nefnd að ekki var byrjað að starfa fyrr en á miðju sumri. Síðan er kjarninn í niðurstöðum nefndarinnar sá sem fram kemur á bls. 3 í skýrslunni og ég leyfi mér, herra forseti, aðeins að vitna til þar sem segir:

„Nefndarmenn voru ekki sammála um hvort rétt væri á þessu stigi málsins að gera veigamiklar breytingar á hinu nýja lánakerfi. Þegar komið var fram í janúar 1987 var ljóst að nefndin gæti ekki sameinast um heildartillögur um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Því var ákveðið að freista þess að ná samstöðu um að nefndin setti fram í nál. ýmsar ábendingar og kæmi á framfæri hugmyndum sem höfðu verið ræddar á fundum hennar. Jafnframt var ákveðið að einstakir nefndarmenn kæmu skoðunum sínum og tillögum á framfæri í sérálitum sem fylgdu nál. Líta verður á nál. þetta og þær tillögur og athugasemdir sem hér eru settar fram í ljósi þess sem að framan greinir.“

Þetta er tilvitnun í stuttan kafla í þessari skýrslu hæstv. ráðh. til Alþingis sem afrakstur af þessu nefndarstarfi. Þarna kemur fram kjarninn í niðurstöðum þessa nefndarstarfs sem margir hafa bundið miklar vonir við. Þau loforð sem gefin voru um þetta efni voru nánast skilyrði margra þeirra sem studdu þær breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem samþykktar voru undir þinglok í fyrra. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir og er ekkert leyndarmál, og það kemur kannske fram í þeirri vanstillingu sem endurspeglast í máli hv. þm. Halldórs Blöndals, sem er að finna að því að vikið skuli til þessa þinggagns, að milli stjórnarflokkanna hefur ekki verið neitt samkomulag um meginatriði þessara mála. Þar hefur viðkomandi hv. þm., Halldór Blöndal, að mér er fullkunnugt um, staðið gegn öllum breytingum sem máli skipta, alveg sérstaklega í sambandi við félagslegt íbúðakerfi, og ekki viljað hreyfa sig í þeim efnum og ekki verið samstiga flokksbróður sínum, sem átti sæti í nefndinni og kom fram með margar gagnlegar hugmyndir. En þessi hv. þm. ber öðrum fremur, að ég hygg, ábyrgð á því að þessi mál eru í þeirri stöðu eins og þau liggja fyrir hér í þinginu. Vil ég þó ekki vera að slá neinni skjaldborg um formann nefndarinnar, hv. þm. Guðmund Bjarnason, sem veitti nefndinni forustu. Hann hefur áreiðanlega ekki haft létt verk að vinna gagnvart þeirri afstöðu sem lá fyrir frá hinum stjórnarflokknum.

Í þessari skýrslu er, eins og minnst var á af hv. síðasta ræðumanni, vikið að þeim fjárhagsvanda sem sýnilega blasir við varðandi það kerfi sem lögfest var í fyrra og þann vaxtamun sem ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að taka á sig í sambandi við húsnæðislánin, en hann er talinn nema um 77 millj. kr. Mismunurinn sem um er að ræða á yfirstandandi ári nemur 77,2 millj. kr. ef miðað er við að lánin séu tekin á 6% vöxtum en lánuð út á 3% vöxtum að meðaltali. Þannig að það fé sem ríkissjóður veitir í ár til sjóðanna dugar til niðurgreiðslu útlánsvaxta í tæp 17 ár eins og það er orðað í þessari skýrslu.

Ég ætla ekki að fara að vitna til langra kafla í þessari samantekt og yfirliti um störf nefndarinnar, þar sem er nánast engar marktækar tillögur að finna nema í sérálitum einstakra nefndarmanna.

Hitt er ástæða til að leggja áherslu á sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan, þann mikla fjárhagslega vanda sem núverandi kerfi leiðir af sér og sem blasir við. Ég vil ítreka þá spurningu til hæstv. félmrh., og vænti að hæstv. ráðh. heyri mál mitt, hvernig hann og ríkisstjórnin hyggist bregðast við þeim vanda sem við blasir í sambandi við byggingarsjóðina og talinn er nema yfir 1,5 milljörðum kr. varðandi yfirstandandi ár, bara til þess að fullnægja þeim umsóknum sem fyrir liggja. Það var upplýst af framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins á nefndum fundi austur á Egilsstöðum að þessi óleysti fjárhagsvandi, sem nú væri til athugunar, næmi um 1,5 milljörðum kr. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi 1,7 milljarða kr. og vil ég ekki leggja mat á þann mismun sem þar kom fram. Hitt er auðvitað gífurlegt áhyggjuefni hve biðtími er þegar orðinn langur eftir afgreiðslu lána skv. þessu nýja kerfi, þannig að ef litið er til lánsumsókna í desember s.l. er komið vel fram a næsta ár þegar menn geta gert sér vonir um lánafyrirgreiðslu út úr þessu nýja húsnæðislánakerfi. Það er sannarlega mikið áhyggjuefni og yfirleitt fjárhagsstaðan eins og hún er dregin upp í þessari skýrslu milliþinganefndarinnar, þar sem greint er frá því að þarna sé verið að binda bagga sem ekki sé ljóst hvernig verði leystir til lengri tíma litið. Ætla ég út af fyrir sig ekki að gera það frekar að umræðuefni.

Það blasir sem sagt við að fjárhæðir vantar á þessu ári til að hægt sé að verða við lánsumsóknum úr byggingarsjóðunum sem komu fram á haustmánuðum. Menn hljóta að spyrja hæstv. ráðh. með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggist bregðast við þeim vanda. Í því sambandi er ástæða til að rifja upp að þau framlög sem gert hafði verið ráð fyrir af hálfu ríkisins til byggingarsjóðanna voru lækkuð. Hæstv. ráðh. svaraði því til í Tímanum, aðspurður fyrir nokkrum mánuðum, að þetta væri allt í lagi, þetta ætti ekki að saka, það væri um nægilegt fjármagn að ræða.

Ég vil svo, herra forseti, aðeins nefna það hvernig horfir úti á landsbyggðinni í sambandi við húsbyggingar og þá mynd sem þar blasir við. Í árslok 1986 lágu fyrir flokkaðar 3615 umsóknir um húsnæðislán, um eldra húsnæði og nýbyggingar. Um 60% af þessum lánsumsóknum voru frá Reykjavík og Reykjanesi og er það auðvitað ríflega sá fólksfjöldi sem býr á þessu svæði en hitt blasir líka við að lánsumsóknir hjá landshlutum eins og t.d. Norðurlandi vestra nema aðeins 3,1% af heildarfjölda umsókna. Úr mínu kjördæmi, Austurlandi, er fjöldi umsóknanna 3,8% af heildartölu fyrirliggjandi umsókna, þar af aðeins 35 umsóknir um nýbyggingar.

Vissulega segja þessar tölur engan veginn alla sögu því það kemur ekki fram, nema þá í fáum tilvikum, hvar viðkomandi ætlar að ráðstafa fjármagni því sem sótt er um til húsbygginga, því að samkvæmt lögunum eru engar skuldbindingar um það að tilgreina hvar menn hyggjast verja fjármagninu og flokkun þar að lútandi liggur enn ekki fyrir. Því er ástæða til að óttast að myndin varðandi landsbyggðina hvað snertir þróun húsnæðismálanna og nýbyggingar sé langtum hrikalegri en þær tölur segja okkur sem ég var að vitna til og liggja fyrir frá Húsnæðisstofnun í lok ársins.

Það eru sannarlega stór áhyggjuefni sem blasa við í sambandi við húsnæðislánakerfið og atriði sem er knýjandi nauðsyn að Alþingi taki á. Ég nefni í því sambandi alveg sérstaklega álit fulltrúa Alþb. í milliþinganefndinni um húsnæðismál, Guðna Jóhannessonar, og þá áherslu sem hann leggur á hinn félagslega þátt íbúðabygginga í formi húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttaríbúða. Það eru hugmyndir sem ég tek heils hugar undir og hef þegar gert hér á Alþingi og tel að þar sé á ferðinni fyrirkomulag í sambandi við félagslegt íbúðarhúsnæði sem skylt sé að taka á hér á Alþingi og setja um það skýrar reglur í lögum og reglugerðum þannig að unnt sé að útfæra þetta kerfi og fá af því reynslu.

Ég vil ekki með þessum orðum segja að búseturéttarbyggingar leysi allan vanda í þessum efnum eða að þær eigi að koma í staðinn fyrir eignarhúsnæði. Þessi form geta staðið hlið við hlið og þróast hlið við hlið. Það er hins vegar hart til þess að vita að af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu annars ríkisstjórnarflokksins hafi gersamlega verið brugðið fæti við þróun félagslegs íbúðarhúsnæðis sem er þó það sem landsbyggðin a.m.k. hlýtur að líta til alveg sérstaklega.

Ég vænti þess að í tengslum við frv. sem hæstv. ráðh. mælti fyrir, ég hef tekið efnislega undir þær breytingar sem þar liggja fyrir og vænti að þar megi ná lengra, verði farið ofan í þessi mál. Það er alveg nauðsynlegt að húsnæðismálin verði rædd og tekinn til þess nægur tími hér á Alþingi, bæði reynslan af lagasetningunni frá í fyrra og því kerfi sem þar liggur fyrir og er með vissum hætti sprungið fjárhagslega séð, og svo stórkostlegar vanefndir ríkisstjórnarinnar í sambandi við aðra þætti húsnæðismála sem skuldbindandi samþykktir voru gerðar um af stjórnarflokkunum í apríl s.l.