04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. frú Jóhanna Sigurðardóttir og Hjörleifur Guttormsson, 5. þm. Austurl., gerðu húsnæðismálin almennt að umræðuefni hér áðan. Nú liggur það á hinn bóginn fyrir að hæstv. félmrh. hefur lagt fram skýrslu um álit milliþinganefndar um húsnæðismál og hefur verið ákveðið að sú skýrsla verði sérstaklega rædd á fundi Sþ. þannig að ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stígi að víkja sérstaklega að þeim efnisatriðum sem þar koma fram, en vil einungis segja um efni þess frv. sem hér liggur fyrir að hér er um lagfæringar að ræða á þeirri lagabreytingu sem samþykkt var á s.l. vori í kjölfar febrúarsamninganna.

Ég vil vekja athygli á því að í athugasemdum við lagafrv. er villandi frásögn varðandi þau atriði sem þetta frv. felur í sér. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Í umsögn nefndarinnar kom fram að ef óhjákvæmilegt er talið að flytja nú frv. til breytinga á lögunum, þrátt fyrir litla reynslu af framkvæmd þeirra, legði nefndin áherslu á að reynt verði að hafa tillögurnar eins fáar og unnt er og leitast verði við að forðast breytingar á lögunum ef talið er fært að styðjast við reglugerðarákvæði eða jafnvel gildandi lagaákvæði. Með þessum fyrirvara lagði nefndin fram till. sínar um þau atriði sem greind eru hér að framan. Frv. þetta er í aðalatriðum í samræmi við álit nefndarinnar.“ Hér er átt við húsnæðisnefnd aðila vinnumarkaðarins, en húsnæðisnefnd ríkisstjórnarinnar fékk þessar breytingar til umsagnar og var sammála því að þetta lagafrv. yrði lagt fram en vekur athygli á nokkrum atriðum til viðbótar eins og skýrt er frá í skýrslu húsnæðisnefndarinnar. Ég vil að þetta komi fram.

Ég vil líkja vekja athygli á þeim ummælum hv. 2. landsk. þm., ég veit ekki hvort ég hef náð þeim rétt upp en ég hygg að svo sé, þegar hv. þm. sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Það má spyrja hvort það nægi ekki að fá stimpil hjá aðilum vinnumarkaðarins.“ Og skömmu síðar viðhafði hv. þm. þau orð „að engu mætti breyta efnislega“. Auðvitað felst í þessum ummælum sú skoðun hv. þm. að hann sé ósammála í verulegum atriðum því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins náðu á sínum tíma sem líka kom fram í umræðunum í vor þegar hv. þm. skrifaði ekki undir meirihlutaálitið hjá félmn., en Alþfl. einn flokka skar sig út úr. Þeir sem skrifuðu undir nál. voru Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal, Stefán Guðmundsson, Svavar Gestsson, með fyrirvara, Stefán Valgeirsson, með fyrirvara og Eggert Haukdal. Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk nál. með fyrirvara, segir í nál. með leyfi hæstv. forseta. En eins og ég sagði skilaði fulltrúi Alþfl. séráliti.

Það er ljóst að afstaða þm. Alþfl. kemur ekki á óvart nú og skal ég ekki hafa mörg orð um það en vil segja varðandi búsetuíbúðir, sem hér var vikið að áðan, að um einstök atriði í þeirri upptalningu sem félmn. benti sérstaklega á kom það fram frá fulltrúa Alþýðusambandsins að ekki hefði verið minnst á kaupleiguíbúðirnar, hvorki í sambandi við samningsgerðina milli aðila vinnumarkaðarins né hefði sú spurning komið upp þegar unnið var að samningu frv. á sínum tíma. Þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segir þess vegna um fulltrúa Sjálfstfl. og mig sérstaklega að við höfum brugðið fæti fyrir þróun félagslegs húsnæðis, þá eiga þau ummæli jafnframt við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa Alþýðusambandsins og fulltrúa vinnuveitenda, og verð ég að segja að mér finnst ég vera í góðum félagsskap þar og skal síðar víkja að þeim þætti málsins.

Það liggur líka ljóst fyrir að þau ummæli hv. 5. þm. Austurl., að stjórnarflokkarnir hafi gefið skuldbindandi loforð í sambandi við afgreiðslu málsins á Alþingi, eru röng. Þau eru misskilningur. Hv. þm. er kunnur að mikilli nákvæmni í sínum málflutningi og hefur orðið það á, sem er ólíkt honum, að fletta ekki upp í þskj. en í þskj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í nál. meiri hl. félmn. frá því í vor:

„Frv. þetta er efnislega einskorðað við þá þætti húsnæðismála sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins tók til. Öðrum þáttum, sem varða húsnæðismálin, var meiri hl. nefndarinnar sammála um að vísa til milliþinganefndarinnar. Meðal slíkra atriða eru þær hugmyndir sem fram hafa komið á Alþingi um breytingar á húsnæðislánakerfinu en ekki hefur verið kostur á að fjalla um við meðferð málsins á Alþingi. Í þeim efnum bendir nefndin sérstaklega á eftirfarandi:

1. Reglur um veð og veðhæfni íbúða.

2. Kaupleiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og leiguhúsnæði.

3. Fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

4. Áhrif nýja húsnæðislánakerfisins á félagslegar íbúðabyggingar og verkamannabústaðakerfið yfirleitt.

5. Verndaðar þjónustuíbúðir fyrir öryrkja eða aldraða.

6. Stöðu og hlutverk ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar.

7. Ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.

8. Stærðarmörk íbúða verði athuguð sérstaklega og reglur opinberra stofnana þar að lútandi samræmdar.

9. Þegar líða tekur á sumarið kanni milliþinganefndin hvernig ætlunin sé að framkvæma ákvæði 11. gr. sem virðast geta orðið flókin og erfið í framkvæmd.

10. Hvernig farið skuli með lánsrétt þeirra sem ekki geta nýtt lánsrétt sinn til fulls við kaup á fyrstu íbúð vegna þess að um ódýra eða litla íbúð er að ræða. Þá er haft í huga að viðkomandi þurfi á stærri íbúð að halda vegna breyttra aðstæðna.“

Þetta eru þeir tíu liðir sem um var rætt og eins og skýrt kemur fram í þessum orðum er ekki tekin afstaða til einstakra liða heldur einungis talað um að milliþinganefndin athugi þessi atriði sérstaklega, um það var samkomulagið, en ekki tekin efnisleg afstaða til þeirra. Ég veit að hv. þm. tekur þessa leiðréttingu til greina og þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það en það skýrir á hinn bóginn nefndarstörfin.

Í bréfi félmrh. voru þessi atriði tíunduð en ljóst er auðvitað að svo skammur tími er liðinn síðan lögin tóku gildi að ógjörningur var að fjalla sérstaklega um þá reynslu sem fengist hafði af hinu nýja húsnæðislánakerfi og var algjört samkomulag um það í nefndinni að skila áliti núna í janúarmánuði, þó svo að frekari reynsla lægi ekki fyrir, frekar en að draga nefndarstarfið á langinn, ekki síst með hliðsjón af því að kosningar eru nú fram undan, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um það.

Um einstök atriði vil ég aðeins segja það að nýja húsnæðislánakerfið hefur gjörbreytt aðstöðu þeirra sem þurfa að kaupa íbúðir eða byggja íbúðir, gjörsamlega, það er allt önnur aðstaða en áður og þarf ég ekki að orðlengja það. Ég hygg að lán til kaupa á nýjum íbúðum hafi verið 7-800 þús. kr. á verðlagi 1. sept. síðast þegar Alþfl. fór með embætti félmrh. Nú erum við að tala um þrefalt hærri fjárhæð. Þessi fjárhæð er þar að auki verðtryggð á þeim tíma sem líður frá því að lánsloforð er gefið þangað til viðkomandi fær lánið í hendur þannig að munurinn er miklu, miklu meiri. Ég geri ráð fyrir því að ekki væri ósanngirni að segja að lánin hafi í raun verið fjórfölduð á þessum tíma sem breytir auðvitað allri aðstöðu fólks. Enn meiri munur er varðandi þá sem eru að kaupa notaða íbúð.

Ég vil líka vekja athygli á því að það kom fram a.m.k. í máli hv. 2. landsk. þm. nú í vor þegar þessi mál voru til umræðu að hin nýja skipan mundi mjög létta greiðslubyrði þeirra sem eru að eignast íbúðarhúsnæði. Það kom líka fram í máli þess þm., ef ég man rétt, kvíði yfir því hvort unnt reyndist að afla nægilegs fjár til þess að hið nýja húsnæðiskerfi gæti gengið snurðulaust. Á allt þetta verður að reyna.

Menn hafa hér talað um það að dráttur verði á því, lengri dráttur en menn höfðu vænst, að menn fengju húsnæðislánin í hendur. Ég hef ekki kynnt mér sérstaklega hvernig þau mál standa nú, en það lá fyrir þegar hið nýja kerfi var tekið upp að menn gátu ekki gert sér grein fyrir því fyrir fram hversu mikil eftirspurnin yrði eftir lánum, hvort sem til íbúðabygginga eða íbúðakaupa væri að ræða, en hins vegar var húsnæðisnefndin öll, fulltrúar Alþb., Alþfl., Kvennalista og ég hygg einnig BJ, án þess að ég þori að fullyrða það nákvæmlega hvernig málin stóðu þegar hann sagði sig úr nefndinni, en fulltrúar hinna flokkanna voru allir sammála um að það væri æskilegt að sá háttur yrði upp tekinn að Húsnæðisstofnun svaraði fljótt lánsumsóknum og gæfi bindandi loforð um hvenær viðkomandi gæti vænst þess að fá lánafyrirgreiðslu í hendur til þess að auðvelda mönnum að festa kaup á húsnæði eða byggja íbúðir, gætu m.ö.o. hagað kaupum í samræmi við lánsloforð ef um kaup á íbúðum væri að ræða eða byggingarhraða ef um það væri að ræða. Um þetta voru allir stjórnmálaflokkar sammála á þeim tíma og ég hygg að svo sé enn. Það var talinn betri kostur þá að nokkur dráttur yrði á því að hægt væri að veita lánið heldur en hitt að lánin yrðu jafnóheyrilega lág eins og þá hafði verið.

Við vitum að það átti mikinn þátt í greiðsluerfiðleikunum hversu ónóg fyrirgreiðsla Húsnæðisstofnunar var. Þetta er tilraun til þess að koma fram með lagfæringar. Sú hefur verið skoðun mín - og ég hygg að skoðun aðila vinnumarkaðarins sé enn þá hin sama, ég hef ekki annað frétt, að rétt sé að fá reynslu af þessu kerfi, sjá hvernig það kemur út áður en farið er að setja sér önnur og háleitari markmið í lánsloforðum, reyna heldur að standa við lögin eins og þau eru. Af þeim sökum hef ég verið andvígur því bæði að hækka lánshlutfall til einstakra íbúða úr Byggingarsjóði ríkisins og sömuleiðis að íþyng a meira en gert er Byggingarsjóði verkamanna. Ég held að þetta liggi allt saman fyrir.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði að umtalsefni hér áðan að verð á íbúðum á fasteignamarkaðnum hefði hækkað mjög verulega nú í haust. Ég hef ekki við höndina samanburð á þróun fasteignamarkaðar undanfarin ár en það er hins vegar alveg ljóst að erfiðleikar margra húsbyggjenda eða húskaupenda stöfuðu af því að þeir gátu ekki losnað við sínar eldri íbúðir. Menn voru kannske að stækka af fjölskylduástæðum, kaupa stærri íbúð í staðinn fyrir aðra minni, gátu ekki losnað við þá íbúð og af því stöfuðu hjá mörgum þeir greiðsluerfiðleikar sem þeir komust í á undanförnum misserum. Með þessari breytingu ætti það að lagast. Það má líka færa gild rök fyrir því að fasteignaverð hafi legið niðri fyrri hluta ársins eða í sumar. Þegar menn vissu að þessi breyting var væntanleg. Öll verða þessi mál að skoðast í samhengi. Það er auðvitað hagnaður fyrir þann sem kaupir að verð íbúða sé sem lægst og þeir sem þess njóta græða á því. Á hinn bóginn hafa menn látið uppi miklar áhyggjur yfir því að fasteignaverð hafi verið óeðlilega lágt á ýmsum stöðum og þess vegna ekki nema eðlilegt, svo ég noti það orð aftur, að verð þeirra hækki nokkuð þannig að menn fái það verð fyrir íbúðirnar sem réttara er, sannvirði. Það eru auðvitað tvær hliðar á þessum málum eins og öðrum.

Ég vil aðeins segja það að lokum að ég styð það frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég tel nauðsynlegt að sú nefnd sem það fær til meðferðar athugi sérstaklega hvort með því sé fullnægt þeim þörfum sem stafa af öldruðum eða öryrkjum, til þess að greiða fyrir því að þeir gætu komist í það sem kallað er verndaðar þjónustuíbúðir og sé ekki að öðru leyti ástæðu til þess að ræða þetta frekar.

Ég vil að síðustu aðeins segja að þetta skref, sem stigið var með lögunum í haust, er langstærsta skrefið sem stigið hefur verið í húsnæðismálum síðan ég byrjaði að fylgjast með þeim málum, og tel að almennar húsnæðisumræður eigi að fara fram í Sþ. en ekki hér undir þessum dagskrárlið og um þetta frv.