05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

317. mál, Egilsstaðaflugvöllur

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa till. Ég hef áður tjáð mig um þetta mál í hv. Ed. í gær í umræðum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála og þarf ekki miklu þar við að bæta, en hlýt að koma hér upp til að fagna þessari till. um framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli, framkvæmdir sem gjarnan hefðu mátt sjá fyrr dagsins ljós en raun ber vitni en við a.m.k. þm. Austurlands hljótum að fagna að stefnir nú í að verða að staðreynd.

Ég skal taka það fram líka, þannig að það sé áreitnislaust af minni hálfu, að hæstv. samgrh. gaf um það yfirlýsingar, svo notað sé orðfæri hæstv. menntmrh., snemmendis á sínum valdaferli að hann hygðist standa við það að Egilsstaðaflugvöllur yrði gerður flughæfur ef svo má segja, þar yrði ráðist í framkvæmdir. Ég neita því ekki að mér þykir þetta vera allseint á hans annars farsæla ferli. En gott er að það skuli þó komið í kring með þeirri till. sem hér er fram lögð að tryggt skuli fjármagn til þess arna með þessum hætti og þá væntanlega til áframhaldsframkvæmda því svo naumt hefur verið skammtað til flugmála að undanförnu að við vitum það og getum sjálfsagt öll verið sammála um það hér inni að án einhvers sérstaks átaks af þessu tagi hefði verið útilokað að taka það af því nauma fjármagni sem til flugmála hefur verið og það hef ég reyndar gefið yfirlýsingu um áður og þykir sjálfsagt að ítreka hér.

Hitt er svo annað mál að vafalaust hefðum við mátt standa betur að flugmálaþættinum, svo mikilvægur sem hann er orðinn í okkar samgöngumálum í heild sinni og skal ekkert út því dregið að vitanlega hefði átt um langt áraskeið - og þar eiga margir fleiri hlut að máli - að standa betur að fjáröflun og fjármagni til þessarar bráðnauðsynlegu framkvæmdar. Því er ekki að neita heldur að við þm. Austurlands höfum verið mjög sérfræðingahollir í þessum málum, farið mjög eftir því sem færustu menn á þessu sviði hafa lagt til á hverjum tíma. Þannig létum við um nokkuð langt árabil, þeir sem þá sátu á þingi fyrir Austurland, ég vil segja draga okkur á ansaeyrum út af hinum væntanlega Snjóholtsvelli sem sérfræðingar töldu þá hina einu lausn sem hægt væri að byggja á og útilokuðu þá um leið þá lausn sem nú er í sjónmáli. En eftir að álitið kom 1982 ótvírætt um það að þetta væri kleift hefur það legið fyrir að menn ættu að stefna að þeirri lausn sem hér er gert ráð fyrir.

Hæstv. samgrh. lýsti því yfir að enn væru nokkrir lausir endar í sambandi við þetta mál. Auðvitað vonum við að það leysist. En ég vil segja að við höfum lagt áherslu á það í þingmannahóp og sérstaklega hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, man ég eftir, á fundi með flugmálastjóra fyrir líklega meira en ári að ef og þegar að því kæmi að menn gætu gengið til verks á Egilsstaðaflugvelli yrði búið að ganga frá svo sjálfsögðum atriðum eins og samningum við landeigendur um þann rétt sem þarf að semja um við þá svo að hægt verði að ráðast í þessa framkvæmd. (Menntmrh.: Sveinn varaþingmaður gefur okkur þá landið.) Sveinn varaþingmaður, segir hæstv. menntmrh. og hefur nú alltaf ráð á hverjum fingri eins og hann hefur sálfræðing á hverjum fingri í fræðsluskrifstofunum. En það hygg ég að hæstv. menntmrh. viti að Sveinn varaþingmaður Jónsson, sem hann á hér við, fer ekki með allar eigur Egilsstaðabúsins og heldur ekki með Finnsstaðaland svo að ég upplýsi nú hæstv. ráðh. örlítið um landafræðina austur þar sem ég hélt að þyrfti reyndar ekki. (Menntmrh.: Finnsstaðamenn eru í flokknum líka.) Sveinn varaþm. fer heldur ekki með það og Finnsstaðamenn eru ekki einu sinni allir í flokknum, því miður, hæstv. ráðh., því að þar er tvíbýli svo að ég upplýsi nú hæstv. ráðh. enn betur um landafræðina þar. Og þó að þar séu vel þenkjandi menn á báðum býlum vil ég ekki flokka þá eindregið yfir í minn flokk á báðum býlum og efast ég um að hæstv. menntmrh. vilji það heldur að betur athuguðu máli.

Þetta hefði vitanlega verið nauðsynlegt. En um þetta mál að öðru leyti vil ég segja það að í ljósi þess sem nú er fram komið getum við ekki annað en fagnað því að hér sést væntanlega fyrir endann á miklu vandamáli sem snert hefur samgöngur heils fjórðungs og áreitnislaust skal þetta mál ganga frá minni hálfu þó að okkur hafi um tíma þótt seint fara í þessum efnum undir stjórn hæstv. samgrh.