05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mun leitast við að víkja nokkrum orðum að því sem hér hefur fram komið um leið og ég svara þessum spurningum. En ég bendi á að innan tíðar fer fram umræða um utanríkismál þegar skýrsla um utanríkismál verður lögð fram á þingi og ég bíð þess vegna með frekari umræður um þetta mál þar til.

En öll viljum við lifa í heimi sem ekki býr við ógn helsprengju. Það er því markmið okkar að útrýma kjarnavopnum. Vandinn felst eins og endranær í því að finna rétta leið að settu marki.

Við erum þátttakendur í varnarbandalagi sem hefur þá margyfirlýstu stefnu að það mun aldrei grípa til vopna að fyrra bragði. Þetta bandalag hefur gegnt sínu hlutverki vegna fælingarstefnu sem hefur sannfært hugsanlega árásaraðila um tilgangsleysi stríðsaðgerða. Þetta hefur gerst þrátt fyrir augljósa yfirburði Varsjárbandalagsríkjanna á sviði hefðbundins vígbúnaðar.

Staðreyndin er að kjarnavopn hafa gegnt lykilhlutverki í því að stöðva útþenslu Sovétríkjanna í Evrópu. Í öllum samningum um afvopnun á sviði kjarnorkuvígbúnaðar verður því að hafa hliðsjón af öðrum þáttum vígbúnaðar þannig að afvopnun leiði ekki til minna öryggis og stefni þannig friðnum í hættu. Vestrænum ríkjum er því mikill vandi hér á höndum.

Við viljum heim án kjarnavopna, en um leið viljum við viðhalda því öryggi sem kjarnavopn hafa tryggt til þessa. Í ályktun Alþingis, sem þm. vísaði til hér áðan um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum, segir m.a., með leyfi forseta:

„Leita verður allra leiða til að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þó einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.“

Á meðan enn hefur ekki tekist að undirbúa jarðveginn fyrir gagnkvæmt traust milli austurs og vesturs er það mat vestrænna ríkja að það verði að halda uppi sannferðugum fælingarmætti. Þetta er ástæða þess að Bandaríkjamenn halda áfram tilraunum sínum með kjarnavopn þrátt fyrir óskir manna um að þeim verði hætt. Og hvað stendur þá í veginum? Jú, ágreiningurinn um eftirlitið og reynslan af framferði Sovétmanna. Á sínum tíma, þ.e. á árunum 1958-1961, höfðu Bandaríkjamenn og Bretar frumkvæði að einhliða banni við tilraunasprengingum. Sovétmenn gengust inn á þetta bann meðan þeim hentaði, en á sama tíma og þeir létu í veðri vaka að þeir hefðu hætt öllum slíkum tilraunum létu þeir á laun sérfræðinga sína undirbúa stórkostlega tilraunastarfsemi sem hófst öllum að óvörum í septembermánuði 1961. Á tveimur mánuðum - ég endurtek: á tveimur mánuðum það haust voru sprengdar 40 kjarnorkusprengjur, þar á meðal sú stærsta sem sprengd hefur verið, og allar í andrúmsloftinu.

Þessi spor hræða. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, John F. Kennedy, dró þann lærdóm af framferði Sovétmanna að aldrei ætti að setja vestræn ríki í slíkt einhliða bann meðan ekki væru leiðir til þess að fylgjast með framkvæmdinni af hálfu Sovétmanna.

Á fundi Atlantshafsríkjanna í desember s.l. var samþykkt sérstök yfirlýsing, Brussel-yfirlýsing, þar sem Varsjárbandalagsríkjunum var boðið til viðræðna um samdrátt og jafnvægi á sviði hefðbundins vígbúnaðar vopna og herafla. Leiðtogafundurinn í Reykjavík kallaði fram nauðsyn þess að tekist yrði á við þessi vandamál sem forsendur raunhæfs árangurs í viðræðum um fækkun kjarnorkuvopna. Þessar viðræður munu hefjast innan tíðar. Auk viðræðna risaveldanna í Genf um meðaldræg og langdræg kjarnavopn munu þær leiða í ljós vilja til að draga úr þeirri tortryggni sem ég minntist á að framan og er jarðvegur vígbúnaðarins. Verulegur árangur í þessum viðræðum skapar skilyrði fyrir því samkomulagi sem við öll sækjumst eftir að gert verði um bann við tilraunum með kjarnavopnum. Það má því segja að það velti á Sovétmönnum nú við samningaborðið hvernig til tekst, en nú í fyrsta skipti mun í Genf vera kominn á blað texti að samkomulagi. Það er mælistikan sem við höfum, en ekki fagrar yfirlýsingar í fjölmiðlum á Vesturlöndum.

Við munum að sjálfsögðu fylgjast með þessum málum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Þar höfum við verið í samstarfi við vestrænar þjóðir og þar munu þessir hlutir verða til umræðu. Og þar munum við koma fram þeim sjónarmiðum sem við teljum réttust á hverjum tíma.