05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að það er eins með afvopnunarmálin og reyndar með jafnréttismálin, sem voru hér til umræðu áðan, að fagrar yfirlýsingar duga lítið. Það eru gjörðirnar sem meira máli skipta. Kvennalistinn hefur þegar sent bandarískum stjórnvöldum mótmæli gegn þeim ítrekuðu tilraunasprengingum sem þar hafa átt sér stað vegna þess að við álítum það vera hörmulega þróun. Við styðjum þann hóp bandarískra þingmanna og annarra Bandaríkjamanna sem hafa mótmælt þessum tilraunasprengingum og beitt sér gegn þeim.

Við vitum eins og margir aðrir að þessar tilraunasprengingar eru í tengslum við það verkefni sem varð aðalþröskuldurinn í viðræðunum hér í Reykjavík á leiðtogafundinum, þ.e. geimvarnaáætlunina. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að því að lýsa hryggð og hneykslun yfir því hvernig þessi áætlun hefur staðið í vegi fyrir frekari afvopnunarviðræðum heldur ætla ég að beina nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh.:

1. Veit hann hve margar tilraunasprengingar er áætlað að gera á þessu ári í tengslum við geimvarnaáætlunina? Hafa bandarísk stjórnvöld upplýst hann um þetta?

2. Hve margar sprengjur mættu Bandaríkjamenn sprengja neðanjarðar áður en íslensk stjórnvöld mundu hreyfa fingur til mótmæla? Eru einhver mörk fyrir þessari hegðun?

3. Hvernig líst honum á ef það hlé á sprengingum sem Sovétmenn hafa gert verður nú rofið, þ.e. að því verður ekki haldið áfram í einhverja mánuði í viðbót heldur verður það rofið og Sovétmenn hefja líka tilraunasprengingar?

Ég vildi biðja hann að svara þessum spurningum.