05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Viðbrögð og svör hæstv. utanrrh. við fsp. mínum hljóta að vekja athygli, ekki aðeins hér innanlands heldur út fyrir landsteinana. Utanrrh. Íslands tekur gallharða afstöðu með stefnu Reagan-stjórnarinnar í kjarnorkuvígbúnaðarmálum. Það liggur hér dagljóst fyrir. Það kemur fram í svörum hans. Hann er þar með andstæður þeim röddum á Bandaríkjaþingi sem hafa fordæmt og varað við þeim tilraunasprengingum sem Bandaríkin hafa haldið uppi endurtekið og sprengt nú hina 20. upp á sitt eindæmi.

Ég fagna því að af hálfu talsmanns Alþfl. við þessa umræðu hafa komið fram önnur viðbrögð. Það er óvenjulegt og nýtt að það komi fram önnur afstaða hjá talsmönnum Alþfl. í sambandi við þessi mál en hjá Sjálfstfl. Þetta ber að þakka og ég vona að það verði framhald í þá átt.

Ég held að málflutningur hæstv. utanrrh. þyki heldur rýr þegar hann er settur undir gagnrýnt ljós. Hann segir: Það er fælingin sem hefur gilt, sem hefur varðveitt friðinn og þess vegna ber að halda áfram tilraunasprengingum og þróun kjarnorkuvopna. Það er ekki áhuginn á að vinda ofan af þeirri þróun sem ræður ríkjum í hugarheimi hæstv. utanrrh. og mig undrar ef hinn stjórnarflokkurinn, Framsfl., er samþykkur þeirri afstöðu sem hæstv. ráðh. túlkaði og talaði þar fyrir munn ríkisstjórnar Íslands. Mér fyndist æskilegt að það kæmi fram við þessa umræðu, t.d. frá hæstv. forsrh., hvort hann sé samþykkur afstöðu utanrrh. í þessu efni sem tekur fullum hálsi undir stefnu Bandaríkjastjórnar.

Ég vil svo að lokum segja, herra forseti, í sambandi við þetta efni: Auðvitað tengjast þessar tilraunasprengingar stjörnustríðsáætlun Bandaríkjastjórnar sem svo mjög hefur verið til umræðu og réttilega var bent á af hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur. Fyrir Alþingi og í utanrmn. liggur till. um að fordæma þá áætlun, þá stjörnustríðsáætlun sem er einn meginþröskuldurinn að margra mati, þar á meðal að mínu mati, helsti þröskuldurinn í vegi þess að hægt sé að ná miklum árangri á vettvangi afvopnunarmála. Það er hörmulegt að íslenskar raddir skuli taka undir með því brjálæði sem þar er á ferðinni og sem á sér formælendur fáa, jafnvel í Bandaríkjunum sjálfum.