05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

215. mál, staða og þróun jafnréttismála

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka umræður sem hér hafa orðið um þessi mál þó ég verði að segja eins og er að því miður virðist áhugi hv. þm. ekki vera mjög sterkur á þessum málum og ekki síst sakna ég þeirra hv. þm. sem hafa mjög kallað eftir skýrslum frá mér um þau mál sem hér eru á dagskrá. Ég vil sérstaklega þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir hrósið sem ég vona að ég eigi einhvern tíma eftir að fá meira en í orði, mér fannst ágætt að fá viðurkenningu á þessu máli.

Þessi skýrsla, sem hér er til umræðu og aðrar sem hér eru komnar fram, eru lagðar fram í fyrsta lagi til að fullnægja ákvæðum laganna og í öðru lagi til að gera tilraun til að setja fram sem raunhæfasta mynd af stöðu og þróun þessara mála hér á landi. Ég tek það fram, sem hefur kannske ekki komið fram í framsögu, að þessi skýrsla er samin og tekur mið af áliti Jafnréttisráðs og ýmsum heimildum um þessi mál á undanförnum árum. Þetta er sú fyrsta sem gerð er samkvæmt ákvæðum laganna og ég vænti þess að framvegis verði auðveldara að taka saman næstu skýrslur um þróun mála á takmörkuðum tíma þannig að þær gefi nákvæmari mynd af því sem gerist á t.d. næstu tveimur árum.

Ég þarf ekki að minna á að framkvæmd jafnréttislaga er í höndum Jafnréttisráðs og tekur að sjálfsögðu til margra ráðuneyta og stofnana hér á landi. Þar kemur við sögu ekki síst menntmrn. og heilbrmrn. svo eitthvað sé nefnt sem hafa til framkvæmda þýðingarmestu málin í sambandi við jafnréttismálin í heild.

Lögin gefa vissulega leiðsögn og möguleika til að hafa bein áhrif á mótun stefnunnar í þessum málum. Ég verð að segja að þó að mönnum finnist lítið miða í þessum málum er hægt að fullyrða að áhrif Jafnréttisráðs fara sívaxandi og aðstaða Jafnréttisráðs fer einnig batnandi mjög. Stöðugildum hefur fjölgað hjá Jafnréttisráði og fjárveitingar hafa verið auknar. Eins og ég tók fram í minni framsögu hefur það aukist um 40% frá síðasta ári. Það er einnig nýtt húsnæði fyrir Jafnréttisráð í sjónmáli sem búið er að taka ákvörðun um og það mun flytja í á þessu ári.

Aðalgagnrýnin sem hér hefur komið fram er að sjálfsögðu um þann þátt sem allir í þjóðfélaginu eru sammála um að úr þurfi að bæta, en það er það launamisrétti sem er viðurkennt í þjóðfélaginu. En við skulum ekki gleyma því að það eru ekki aðeins stjórnvöld sem geta haft þarna bein áhrif á ef þau eru sammála um það heldur eru aðilar vinnumarkaðarins ekki síður áhrifavaldur í þessum efnum. Þar á ég við atvinnurekendur og launþegasamtökin sem semja um kaup og kjör, en sveitarfélögin einnig. Ég held nú samt að við getum verið sammála um að það eru að skýrast línur í þessum málum og einmitt vaxandi umræða um þessi mál og ekki síst fyrir atbeina Jafnréttisráðs og þeirra nýju laga. Menn eru að gera sér grein fyrir því að það verður að takast á við þessi mál þrátt fyrir að við vitum sjálfsagt öll að íslensk vinnulöggjöf er orðin mjög úrelt og tekur ekki á þessum málum í takt við þá kröfu sem samtíminn gerir. Þessu hljótum við að koma til með að breyta eða vinna að.

Ég vil einnig segja að ég er ekki á sama máli og hv. 11. þm. Reykv. um að könnun og upplýsingaöflun á þessu sviði sé ekki nauðsynleg. Auðvitað hljótum við að byggja á slíku og réttar ákvarðanir velta á því að grundvöllurinn sé upplýstur þannig að það sé hægt að taka á málunum á réttum sviðum.

Hvað varðar seinagang hjá Þjóðhagsstofnun. Því get ég ekki svarað. Ég hef spurt um þetta á ríkisstjórnarfundi og fengið þau svör að Þjóðhagsstofnun telji að málið sé miklu víðtækara en hún gerði sér í upphafi grein fyrir og þeir vilji vanda þetta mjög. Ég efast ekkert um að svo verði gert. Það hlýtur að fara að nálgast sú dagsetning að hún fari að skila þessu af sér. Menn þar vinna að málinu og hafa fengið til þess aðstöðu og fjármagn.

Hv. 2. landsk. þm. spurði mig einnig um frv. sem Kvennalistakonur eru með um rétt foreldra til að hverfa af vinnumarkaði til að sinna uppeldisþörfum barna sinna með rétti til afturhvarfs og launa. Auðvitað er þetta æskilegt markmið. Ég held að við getum öll tekið undir það. En málið er víðtækara: Er hægt að tryggja það fjármagn í atvinnurekstri og opinberri þjónustu sem nægir til að svara þessu? Það er málið. Ef við getum leyst það er ekkert í veginum.

Ég er ekki alveg sammála hv. þm. um að það sé engin lausn að konur tileinki sér karlastörf. Ég get tekið undir það að nokkru, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að auðvitað er þetta þáttur í heildarlausn á þessu máli.

Ég er einnig ósammála hv. 11. þm. Reykv. um norræna verkefnið sem unnið er að á Akureyri og öðrum Norðurlöndunum og sem er kallað að brjóta múra. Mér finnst þetta mjög merkileg tilraun og hef orðið var við það að eins og það er unnið á Akureyri hlýtur það að skila gífurlegum upplýsingum um hvernig nauðsynlegt er að vinna að þessum málum. T.d. hvernig búið er að ákveða hvernig staðið verður að í sambandi við skólakerfið á Akureyri að þessu verkefni finnst mér mjög merkilegt. Vinir okkar á Norðurlöndum eru grænir af öfund yfir því hvað okkur miðar betur að vinna þetta verkefni en þeir hafa komist yfir.

Hv. þm. vildi leggja áherslu á að það fylgdi ekki hugur máli í sambandi við þær upplýsingar og þær áherslur sem koma fram í þessari skýrslu og eiga eftir að koma betur fram í áætluninni sem ég ætla að mæla fyrir hér á eftir, því að það fylgi ekki fjármagn til framkvæmda. Auðvitað getum við deilt um þetta, svo sem um byggingu dagvistunarstofnana, samfelldan skóladag o.s.frv. En hér verður fjárveitingavaldið að svara. Og þó að deila megi um hvort það hefði átt að koma með meira fjármagn til þessa eða ekki nú er aðalatriðið það að við höfum markmiðin til að stefna að. Ég tel að með því að setja upp svona framkvæmdaáætlun sem ríkisstjórn stendur að séu komin markmið. Það hlýtur að leiða til þess að smátt og smátt þokast málin fram á við og svo hefur verið.

Í sambandi við fsp. um fæðingarorlofið er það rétt að það var á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að endurskoða fæðingarorlofið og betrumbæta það. Það var sett í það nefnd sem er núna að ljúka störfum. Ég get upplýst það, því miður er heilbrmrh. farinn úr húsinu, að hæstv. ráðh. tilkynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun að frv. væri til og hún mundi leggja það fyrir ríkisstjórnina n.k. þriðjudag. Ég fagna því alveg sérstaklega því að þetta hefur verið eitt af þeim málum sem ég hef viljað berjast fyrir að kæmist fram og það væri lagt þannig fram að það væri vilji fyrir því að gera á þessu breytingu.

Ég get upplýst um niðurstöðu kvennaráðstefnunnar í Nairobi. Það er unnið að þýðingu þessarar ályktunar og henni mun verða dreift. Sömuleiðis mun ég dreifa ályktun ráðherrafundarins í Strasbourg á s.l. ári til þingmanna. Ég hélt að ég væri búinn að fá það í hendur, en ég sé það í gögnum hjá mér að svo er ekki. En ég mun láta ganga frá að það verði gert.

Ég reikna með að koma eitthvað meira inn í umræður í síðara málinu sem hér verður tekið fyrir. En í sambandi við þátttöku kvenna á stjórnmálasviðinu o.s.frv. vil ég aðeins segja það til áréttingar að lokaorð mín í þeirri skýrslu eru í raun og veru hvatning. Auðvitað greinir okkur á um hvernig á þessu skal halda, en alla vega er viðurkenning frá minni hálfu á því sjónarmiði að mér finnst að konur eigi að koma meira inn í þessa mynd. En auðvitað get ég tekið undir það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að þær verða sjálfar að hafa vilja til þess og skapa sér þá aðstöðu sem þarf til að komast til áhrifa í stjórnmálasamtökum o.s.frv. (GHelg: Það er nú erfitt í Framsfl.) Það er erfitt í öllum flokkum, hv. þm. Ég held samt, þó að ég hafi ekki tölur, miðað við það sem hv. 5. þm. Austurl. sagði áðan hvað Alþb. stæði vel í þessum málum, að minn flokkur standi nokkuð vel á þessu sviði í sambandi við sveitarstjórnirnar. En ekki meira um það.