09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að fagna þeim orðum hæstv. ráðh. sem hann hafði í lok máls síns um þörf stóraukins fjármagns til vísindarannsókna, vísindaiðkana í landinu, ef við eigum að geta haldið í við aðrar þjóðir varðandi þróun í tækni og vísindum í framtíðinni.

Það er í raun og veru orðinn lengri meðgöngutími þessara umbrota við endurskoðun á lögum til Rannsóknaráðs a.m.k. en þau tíu ár sem hæstv. ráðh. gat um. Það var þegar á árunum í kringum 1970 að uppi voru háværar deilur um starfsemi Rannsóknaráðs og þá var skipuð nefnd, árið 1970, til að endurskoða lagaákvæði um ráðið. Sú nefnd starfaði til ársins 1977, náði ekki samstöðu um lagabreytingar og klofnaði í þrennt, en engin af tillögum nefndarinnar náði fram að ganga eða segja má vakti verulega athygli.

Eins og hæstv. ráðh. gat um átti ég sæti í nefndinni sem falið var að endurskoða lög um Rannsóknaráð. Og það er rétt að taka það fram að það var endurskoðun á lögum um Rannsóknaráð sem þeirri nefnd var falin en vísindasjóðsnefndinni var falið að semja ný lög um Vísindasjóð og var samstarfs nefndanna óskað í skipunarbréfum beggja.

Það er nú svo að ég hef nokkrum sinnum skipt um skoðun í þessu máli, hvort æskilegra væri að eitt vísinda- og rannsóknaráð starfaði sameiginlega eða hvort þau væru tvö. Stundum hefur mér fundist að heppilegra væri að sameina og minnka umfang með einu ráði, en síðan hefur oft hvarflað að mér að í rauninni er undirbúningur að Vísindaráði alls ekki nógu langt kominn. Sumar þær deildir sem gert er ráð fyrir eru að vísu burðugri en aðrar, en það verður að játast að sumar deildir sem ætlast er til að verði í Vísindaráði eru alveg ófullburða og þar er töluvert verk eftir óunnið.

Þetta mál var, eins og ráðherrann gat um, alls ekki í einu lagi í upphaflegum tillögum nefndanna. Rannsóknaráðsnefndin gat þá ekki fallist á þá tillögu sem vísindasjóðsnefndin lagði til um eitt ráð og lágu til þess ýmsar ástæður. M.a. töldum við nauðsynlegt að rannsóknir í þágu atvinnuveganna væru í sterkum tengslum við viðkomandi atvinnuveg, þróun hans og framtíð. Fjárhagsleg og önnur þátttaka atvinnurekstrarins í rannsóknastarfseminni þarf að fara vaxandi og um leið áhrif viðkomandi atvinnuvega á starfsemina sjálfa.

Þessu var aftur, að við töldum, allt öðruvísi farið með rannsóknir í líf- og læknisfræði. Við töldum að það gæti reynst erfitt að skapa þessi nauðsynlegu tengsl fyrir rannsóknir í þágu atvinnuveganna, en tryggja um leið sjálfstæði annarrar rannsóknarstarfsemi. Enn fremur segir í vangaveltum okkar, með leyfi hæstv. forseta:

„Rannsóknir í þágu atvinnuveganna munu eðlis síns vegna ætíð vera langsamlega viðamestar. Nefndin óttast því að aðrar umfangsminni rannsóknir kunni að hverfa í skugga rannsókna í þágu atvinnuveganna og verði ekki sinnt eins og nauðsynlegt er. Rannsóknaráðsnefndin vekur jafnframt athygli á því að ekki er algengt erlendis að eitt rannsóknaráð skipuleggi eða hafi heildarsýn yfir alla rannsóknastarfsemi í viðkomandi landi. Í Noregi t.d. eru fjögur öflug rannsóknaráð. Starfsemi þeirra er hins vegar samræmd innan nefndar sem nefna mætti samstarfsnefnd rannsóknaráðanna. Tillögu vísindasjóðsnefndarinnar var því hafnað. Hins vegar var lagt til að rannsóknaráðin yrðu tvö og starfsemin tengd og samræmd með samstarfsnefnd.“

Síðan er allmikið vatn runnið til sjávar og vissulega hefur með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað síðan þetta álit sá dagsins ljós, líklegast 1981 að mig minnir, og undirbúningi að Vísindaráði eða þeim beinum sem uppistaða verða í Vísindaráði átt sér stað þó nokkur þróun og ég tel að það sé mun nær því að Vísindaráð, eins og það er hér hugsað, gæti tekið til starfa eins og nú er.

Samstarfsnefndin, sem gert er ráð fyrir í þessu lagafrv. og var í raun og veru í hinu upphaflega lagafrv. líka, hefur fengið nokkuð veigameira hlutverk að mér sýnist. Í þeim tillögum sem rannsóknaráðsnefndin skilaði á sínum tíma segir, með leyfi forseta, að ljóst sé „að verkefni Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs geta í ýmsum tilfellum skarast. Rannsóknir á nýtingu auðlinda landsins annars vegar og grundvallarrannsókna á náttúru þess hins vegar eru t.d. nátengdar. Í slíkum tilfellum getur verið nauðsynlegt að koma á samstarfi, draga úr tvíverknaði og ákveða á hvern máta fjármagni til rannsókna er best varið. Æskilegt er jafnframt að einhver aðili hafi yfirsýn yfir alla rannsóknastarfsemi í landinu og stuðli að því að rannsóknaráðin tvö starfi með ákveðin markmið í huga, t.d. með tilliti til þess fjármagns sem fáanlegt er til rannsóknastarfseminnar og skiptingar þess á milli hinna ýmsu greina.“

Við gerðum þá ráð fyrir að í samstarfsnefndinni sætu tveir menn, en hér eru þeir fimm og allir skipaðir án tilnefningar. Ég skal ekki segja um það. Sjálfsagt er það alveg jafngott fyrirkomulag.

Eins og ég sagði áður tel ég að það sé miklum mun líklegra að frv. eins og það sem hér er lagt fyrir geti hlotið stuðning og það helst allra sem að vísindarannsóknum starfa en þá var, ekki hvað síst vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í Háskólanum, í rannsóknastofnunum atvinnuveganna og meðal þeirra manna sem þessi mál snerta daglega.

Hæstv. ráðh. gat um nokkrar breytingar sem á þessu eru frá hinum fyrri lögum. Ég get aðeins farið yfir nokkrar þeirra sem við töldum á sínum tíma þýðingarmestar. Þar ber náttúrlega hæst Rannsóknasjóðinn. Rannsóknasjóðurinn er að vísu orðinn veruleiki frá ári til árs, ef svo má segja, s.l. tvö ár og því ber að fagna að hér er hann lögfestur.

Ég veit að um það var uppástunga að fastur tekjustofn yrði markaður til Rannsóknasjóðs og í tillögum sem ég vissi að uppi voru nýverið var stungið upp á fjárhæð sem svaraði 0,2% að mig minnir af fjárhæð fjárlaga hverju sinni. Það vill svo til að þetta er mjög nærri því sem var fyrstu tvö árin sem fé var veitt til Rannsóknasjóðs. Nú er þetta nokkru minna, líklega nær 0,15% eða 0,17%. En við skulum vona að fjárveitingarnar verði af þessari stærðargráðu. Ekki mega þær minnka. Ég vonast til þess að áherslur hæstv. ráðh. hér áður komi að gagni.

Í kaflanum um Rannsóknaráð gert ráð fyrir töluverðri fækkun í ráðinu sjálfu. Í raun hefur það verið svo að framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs, sem skipuð er fimm mönnum kosnum af ráðinu sjálfu, hefur farið með hina daglegu stjórn, ef svo má segja, eða verið hið virka rannsóknaráð. Því er ekki að neita fyrir þá sem setið hafa í ráðinu, og ég hef gert það líklega í ein fjórtán ár, að hinir sjö þingkjörnu menn sem sæti hafa átt í ráðinu hafa ekki verið sérstaklega þaulsætnir á fundum þess. Það hlýtur að vera óhætt að álykta sem svo að að einhverju leyti sé það þess vegna að ekki er gert sérstaklega ráð fyrir þingkjörnum mönnum í Rannsóknaráði í þessu frv. Þó geta það auðvitað verið þingmenn sem ráðherrarnir, sem tilgreindir eru, tilnefna. Það er ekkert við því að segja og að sjálfsögðu eiga þingmenn að njóta almennra mannréttinda eins og aðrir og geta verið skipaðir í nefndir þess vegna.

Deildaskipting Vísindaráðs, eins og gert er ráð fyrir í 5. gr., var alltaf svolítið vandræðaleg. Það var okkur t.d. nokkur þyrnir í augum hvernig fulltrúar skyldu skipaðir á fundi stofnana og félaga sem fást við viðkomandi rannsóknir. Auðvitað er hægt að hugsa sér að slíkar tilnefningar verði nokkuð samhljóða, að menn komi sér saman um þá sem hæfastir eru. Hins vegar er hægt að efna til úlfúðar með kosningabaráttu í þessi störf ef þau eru þá, og við skulum vona að þetta verði áhrifamikil störf, og má vera að hægt hefði verið að finna annað form á tilnefningu þessara tveggja fulltrúa. En látum það nú vera. Ég sé ekki ástæðu til þess að fetta svo mikið fingur út í það.

Það var töluvert rætt um það á sínum tíma, meðan við vorum að hugsa um eitt vísinda- og rannsóknaráð, hvar það ætti heima í stjórnkerfinu. Ýmsum fannst að eðli málsins vegna, þar sem þetta snertir svo mörg svið, væri eðlilegt að það heyrði undir forsrn. Hér er gert ráð fyrir menntmrn. og í rauninni varð sú hugmynd líka ofarlega hjá mönnum.

Ég býst við að hæstv. menntmn. þurfi að vinna hratt í þessum efnum. Ég veit að tíminn er skammur til loka þings en það er mikil bót að mjög mikið hefur verið fjallað um þetta mál og ég held að ég túlki það rétt að jafnvel þó að menn hefðu séð einhverjar breytingar og eitthvað fara öðruvísi í þessu frv. muni því vera fagnað af þeim sem gerst þekkja og þetta mál mundu fá til umfjöllunar. Ég sé heldur ekkert athugavert við það að hæstv. nefnd taki vinsamlega ábendingum um það sem betur mætti fara. Ég vildi að það kæmi fram sem ég hef hér sagt þar sem ég á ekki sæti í hæstv. menntmn.