09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstvirtur forseti. Ég hafði óskað eftir því á ríkisstjórnarfundi þegar þetta frv. var kynnt að það yrði ekki lagt fram án þess að iðnrn. hefði tækifæri til þess að gera við það athugasemdir. Ég samþykkti þó að það færi til þingflokkanna til þess að þeir gætu fjallað um frv. á því stigi og á þeim tíma gæti iðnrn. rætt frv. betur við hæstv. menntmrh. Það voru gerðar tilraunir til þess að gera það en tókst ekki og ég harma það að þetta frv. skyldi koma fram án þess að tækifærin, sem ég gat um, hefðu gefist því að ég hef mikið við þetta frv. að athuga. Ég tek undir margt af því sem hefur komið fram um ágæti þess og að sjálfsögðu það sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. að það þarf stóraukið fé til rannsókna. Það þarf náttúrlega líka á sama tíma og svona frv. er samþykkt, og þá tala ég sem fyrrv. fjmrh., að skera einhver önnur útgjöld niður eða þá að auka tekjur þangað til rannsóknirnar sjálfar eða árangur af þeim fer að skila tekjum. Það þarf fjárfestingu til að afla tekna. Við vitum hins vegar hvernig fjárhagur ríkisins er. Við skulum því ekki blekkja hvert annað með því að samþykkja stóraukin útgjöld ríkisins á sama tíma og ráðist er á fjárhag ríkissjóðs þegar um fjárlög er að ræða. Ég vil líka taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. 9. þm. Reykv., og spyrja hann hvort hann gæti ekki betur sætt sig við 2. mgr. 1. gr. frv. ef síðasta orðið í þeirri grein væri orðið „hans“, þá á ég við mannsins.

Í þessu frv. er margt sem stangast á. Hér er talað um tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta í mjög stórum stíl, t.d. allar rannsóknir frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, allar rannsóknir Iðntæknistofnunar Íslands sem heyra undir iðnrh. og sé ég þá ekki til hvers þessar stofnanir eiga að vera áfram á starfssviði iðnrh. Af hverju á ekki að færa þær með þessu frv. til Háskólans? Það eru engin verkefni eftir fyrir iðnrn. í sambandi við þessar vísindastofnanir þegar búið er að taka vísindarannsóknir og tæki og ráðstöfun á þeim frá stofnunum því eins og segir hér í upptalningunni í 2. gr., vitna ég þá til 5. liðar: „Vísindaráð ásamt Rannsóknaráði ríkisins lætur skrá yfirlit um tækjaeign rannsóknastofnana og stuðlar að samnýtingu tækja, eftir því sem hagkvæmt þykir.“ Þannig er hið nýja ráð orðið ráðstöfunaraðili á þeim tækjum og verkefnum þessara stofnana sem undir mig sem iðnrh. heyra. Ég er ekki að kvarta undan því. Hitt er annað mál að ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að þegar sameinuð eru verkefni ráðuneyta ber að sjálfsögðu samkvæmt verkaskiptingu ráðherra að færa það undir forsrn. Það er ljóst. Ég tek það fram að við samningu þessa frv. hefur ekkert samráð verið haft við iðnrn. og mér var ekki kunnugt um þetta frv. fyrr en það var lagt fram og harma ég það.

Ég held að meginástæðan fyrir þessu frv. núna sé tillaga sú og framkvæmd á stofnun Eureka. Eurekaverkefnið er það sem kallar á framlagningu þessa frv. eins og það er. Eureka-verkefnið, eins og það er skilgreint í upphaflegu frönsku þýðingunni, er aðallega verkefni iðnrh. á iðnaðarsviðinu. Síðan kemur margt út frá því sem aftur tilheyrir öðrum ráðuneytum eftir því sem verkefnin eru tekin fyrir. Sláandi dæmi um þetta er fyrsta heimsókn fulltrúa frá Eureka í síðasta mánuði. Það voru eingöngu mál á sviði iðnaðar sem þeir vildu ræða og þá helst rannsóknir á nýjungum varðandi skip, fiskiskip aðallega, og byggingu þeirra. Í iðnrn. er unnið að verkefnum sem alls ekki komust á framfæri við þá vegna þess að þeir voru ekki hér á vegum iðnrn. og höfðu ekkert samband við það. Það er verkefni að fara í gang í iðnrn. í sambandi við nýjungar í skipasmíðum sem er bylting á því sviði ef þær reynast nothæfar. Það er verið að ganga í að teikna það og útfæra betur en gert hefur verið í frumdráttum. Þá er það Eureka-verkefni sem á engan hátt getur heyrt undir aðra heldur en iðnrn.

Einnig segir í 4. lið 2. gr., með leyfi forseta: „Það hefur einnig eftirlit með rannsóknum erlendra vísindamanna hér á landi á starfssviði ráðsins og fjallar um leyfisveitingar til slíkra rannsókna á þeim sviðum þar sem þeirra er krafist samkvæmt lögum.“ Þetta er undir iðnrh. að verulegu leyti eins og er. Ef tínt er svona frá ráðuneytunum er spursmál hvort ekki þarf að stokka upp ráðuneytin og verkefni þeirra á miklu víðtækara sviði en hér er gert. Sama er að segja um skýrslugerð o.fl. Allt þetta heyrir undir menntmrh. og það er margtekið fram og undirstrikað að það heyrir undir menntmrh. í öllum þeim greinum þar sem rætt er um valdsvið. Það kemur mér ekkert ókunnuglega fyrir sjónir eftir að hafa lesið þetta frv. þó að fram komi hugmyndir, eins og hjá hv. 9. þm. Reykv., um að í frv. vanti yfirráðaréttinn yfir fleiri ríkjum en Íslandi og helst yfir alheiminum eins og hann orðaði það.

Ég óska sem sagt eftir því að frv. verði vandlega skoðað, því verði ekki hraðað svo í gegnum Alþingi að eftir sitji önnur ráðuneyti í sárum með stofnanir, kostaðar af Alþingi, sem eru kannske verkefnalitlar eða verkefnalausar og ætti þá bara að leggja niður við tilfærslu á verkefnunum, þannig að a.m.k. þeim athugasemdum sem iðnrn. hefur við þetta að gera verði komið á framfæri og þær verði kannaðar í nefnd. Ég vil taka það fram að ég er hér með þróunarsögu vísindarannsókna yfir atvinnulíf landsmanna. Fyrstu lög um þessa starfsemi, sem er nú til umræðu og á dagskrá, voru samþykkt á Alþingi 1929, þetta er orðið það gamalt, og á öllum stigum, við allar breytingar, hefur málaflokkurinn verið undir atvinnumálaráðherra eða iðnaðarráðherra, tengt að vísu starfsemi Háskóla Íslands, en það er ekki eins fasttengt og hér er gert ráð fyrir. Ég segi því þessi orð sem varnaðarorð og óska eftir því að nefndin taki þau til alvarlegrar athugunar.