09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Þetta er aðeins örstutt athugasemd. Það er sennilega á einhverjum misskilningi byggt að þetta Eureka-samstarf hafi sérstaklega rekið á eftir framlagningu þessa frv. Það hefur verið ýtt á þetta af hálfu framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs og ráðinu sjálfu nú í tvö þing a.m.k. og það reyndar áður en kom til nokkur samvinna Íslands á vegum Eureka. Eins er það að á vegum þeirra deilda Háskóla Íslands sem hlut munu eiga að Vísindaráði hefur lengi viðgengist ýmis alþjóðleg samvinna, einkum og sér í lagi á sviði læknadeildar, og það er eðlilegt að þess sé getið í 4. lið 2. gr. að sú samvinna heyri þá undir Vísindaráð. Ég held satt að segja að hæstv. iðnrh. þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að það starf breytist verulega sem stofnanir, sem heyra undir iðnrn., hafa haft með höndum innan Rannsóknaráðs ríkisins og hefur verið mikið. M.a. situr í framkvæmdanefnd ráðsins núna Jakob Björnsson, forstjóri Orkustofnunar, og hefur verið þar mjög virkur þátttakandi. M.a. hafði hann eins og við öll í þeirri framkvæmdanefnd áhuga á því að þetta frv. næði fram að ganga. Ég endurtek það að ég held að ekki geti verið um mjög alvarlegan ágreining að ræða.