09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Getum við ekki orðið sammála um að kalla þessi samtök Evreka? Hvenær fara menn að tala um Europe hér í staðinn fyrir Evrópu? Þetta er nákvæmlega það sama og Evreka-nafnið er miklu skemmtilegra nafn. Við skulum uppræta þetta Eureka því a.m.k. að minni hyggju kann ég hinu miklu betur.

Ég eyði engum orðum að einhverju togi um undir hvaða ráðuneyti mál eigi að heyra. Nefndin kallar vafalaust á fulltrúa frá iðnrn. og fær að heyra nákvæma útlistun á því sem þeir hafa þar í huga og ég get ekki látið það tefja frekar fyrir mikilvægi framgangs þessa máls. Drögin eru a.m.k. áratugs gömul og þá er Evreka-hugmyndin ekki fædd og Mitterand ekki orðinn forseti svo að ég leiði allar frekari umræður um það hjá mér.

Ég þakka ágætan stuðning sem þetta frv. hefur fengið við 1. umr. Það er ekki margt sem ég þarf að drepa á og fram hefur komið. Ekki skal ég hafa á móti því að hin gamla virðulega guðfræðideild eigi þarna skot, verði fenginn staður. Ég geri ráð fyrir því að í þessari 1. gr., þar sem talað er um eðli mannsins, hafi menn kannske verið að leiða hugann að hugvísindadeildinni og aðild hennar. Það má ekki biðja mig um sérstaka útlistun á þessu. Ég verð þá að fá tíma til þess og vanda mig gífurlega því að hér er ekki lítið undir lagt. Það er líka rétt að ég fellst fullkomlega á það að standa vörð um að efla vísindarannsóknir á Íslandi.

Hv. 11. þm. Reykv. benti á mismuninn sem er á milli Vísindasjóðsins og Rannsóknasjóðsins þar sem undir Rannsóknasjóði er tekið fram að það skuli vera háð uppáskrift menntmrh. Ég held að þetta ósamræmi sé óviljaverk. Þetta hefur verið svona og alveg málamyndauppáskriftir hjá ráðherra á úthlutanir úr Rannsóknasjóði og ég sé enga ástæðu til þess að hafa þetta inni í með Rannsóknasjóðinn og hafa þá samræmið á hinn veginn. Þetta dytti engum lifandi manni í hug, ráðherra, að fara að fetta fingur út í þá vinnu og þess vegna legg ég til að þetta verði samræmt með þeim hætti að út verði tekið það sem segir um þessi afskipti ráðherra í Rannsóknasjóðnum. En þetta hefur verið og þess vegna tollir þetta enn þá inni.

Varðandi fjárveitingar úr Seðlabanka til Vísindasjóðsins er þetta eldgamalt og greinilega til þess gert að afla sjóðnum tekna sem Alþingi hefur verið tregt til þegar í upphafi. Ef ég man rétt, það er þá hægt að gá betur að því, munu lögin um Vísindasjóð vera frá 1957, ég held ég megi segja það, en þegar seðlabankalög eru sett 1961 eru það greinilega bankamálaráðherra og þáverandi menntmrh. í leiðinni, Gylfi Þ. Gíslason, sem fá því framgengt að í seðlabankalögunum er komið fyrir ákvæði til þess að tryggja Vísindasjóði tekjur. Þaðan liggja þessar rætur og hef ég þá ekki frekar um það að segja. Rétt er það að að sínu leyti er þetta kannske ekki að öllu leyti eðlilegt en ég vil ekki dæma um það. Það er auðvitað sama hvaðan gott kemur og við megum ekki draga af okkur í neinu né missa af neinum þeim tekjum sem til þessara þarfa hafa runnið. Við þurfum að bæta stórlega um betur.

Ég var ekki tvískiptingarmaður, ég var samrunamaður í þessari stofnun, eindreginn, allan tímann, en það var hæstv. forsrh. t.d. ekki. Hér hefði ég ekkert frv. lagt fram nema ég trúi því og treysti að VI. kaflinn, 20. gr., um samvinnuna, verði óðar en líður til þess að þetta renni saman í eitt öflugt ráð. Þar er kveðið það fast að orði m.a.s. að þeim er ætlað að koma á hjá sér samstarfi um rekstur skrifstofu og aðra þjónustu og eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um er það ekkert álitamál að til kasta samstarfsnefndarinnar kemur auðvitað ef eitthvað er óljóst um hvorum megin stafs og hurðar eitthvert málið skal liggja. Í því trausti að þetta samstarf verði nokkurn veginn eins og um eina stofnun væri að ræða hef ég fallist á þessa gerð frv. Lengst af voru menn á það stífum gormum í þessu máli að þeir vildu ekki einu sinni að það væri eitt frv. sem lagt yrði fram heldur tvö og þessu haldið með öllu aðskildu. En ég tel þetta það mikinn ávinning og í trausti þessara ákvæða, sem gott samkomulag varð um í lokanefndinni, en að þessari síðustu gerð störfuðu háskólarektor, Sigmundur Guðbjarnason, Vilhjálmur Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðsins, og Árni Gunnarsson, skrifstofustjóri háskóladeildar menntmrn. féllst ég á frv. Þetta er samkomulagsatriði með þessum hætti sem menn hafa komið sér niður á og ég vona að muni gefa góða raun. Það skiptir auðvitað öllu máli að við náum stórauknu fjármagni til þessara starfa og ég vænti þess nú að þetta ráð, samrunaráða, sem þarna verður, verði ráðgefandi og hið háa Alþingi fari nú eftir niðurstöðum þeirra um fjárþörfina og með hvaða hætti þá þetta fjármagn skiptist milli sjóðanna, því ella náttúrlega getur maður ímyndað sér að um tilviljanakennd vinnubrögð yrði að ræða.

Ég ítreka þakkir mínar vegna þessara jákvæðu undirtekta og enn ítreka ég það einnig að ég óska þess sérstaklega að hv. menntmn. leiti sér strax, til þess að við getum stytt umræðuna hér, upplýsinga hjá fulltrúum hæstv. iðnrh. um hvað einkum og sér í lagi er á ferðinni þannig að það liggi fyrir. Held ég þá að komi fram að menn eru ekki að deila um efni sem ætti út af fyrir sig að þurfa að hamla framgangi þessa máls.