09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til umferðarlaga. Álit nefndarinnar liggur fyrir á þskj. 574 og brtt. sem nefndin gerir á þskj. 575.

Eins og fram kemur í nál. var frv. til umferðarlaga lagt fram á þessu þingi eftir endurskoðun þingmannanefndar sem dómsmrh. skipaði með bréfi sem var dags. 12. maí 1986. Starf þessarar nefndar kemur fram í athugasemdum við það frv. til umferðarlaga sem lagt var fyrir á s.l. hausti sem var 119. mál Ed. Það fólst í því að yfirfara þær umsagnir sem inn höfðu komið við það frv. sem lá frammi á síðasta þingi og gera þær breytingar sem nefndin áleit nauðsynlegar og réttmætt þótti að taka til greina. Þessa þingmannanefnd skipuðu auk mín þeir hv. þm. Eiður Guðnason, Salome Þorkelsdóttir og Helgi Seljan.

Nefndin skilaði af sér með bréfi til dómsmrn. þann 6. okt. og hafði þá farið yfir allar umsagnir sem lágu fyrir um frv. til umferðarlaga sem til meðferðar var á 108. löggjafarþingi og ekki var útrætt þá. Skrá yfir þær umsagnir er að finna í athugasemdum við frv. Það var gerð grein fyrir þeim við 1. umr. málsins. Nefndin kallaði einnig til viðræðu Arinbjörn Kolbeinsson lækni vegna ákvæða sem snerta ölvunarakstur.

Frv. var lagt fram á s.l. hausti eftir þessa endurskoðun, en eigi að síður þótti ástæða til nokkuð ítarlegrar skoðunar enn í nefndinni í heild, þó að fjórir nefndarmenn ættu sæti í þingmannanefndinni.

Nefndin ræddi frv. á sjö fundum í vetur. Þar af voru tveir sameiginlegir fundir með allshn. Nd. Nefndin kallaði einnig til viðræðu fulltrúa Vinnueftirlits ríkisins og fulltrúa Sambands ísl. tryggingafélaga og Tryggingaeftirlitsins vegna þess að í tryggingakafla frv. eru nokkrar breytingar. Ólafur Walter Stefánsson, frá dómsmrn., vann með nefndinni að frv. og veitti henni ráðgjöf og leiðbeiningar. Einnig vann hann með þingmannanefndinni. Það má geta þess að við umfjöllun um frv. á síðasta þingi voru kallaðir til fulltrúar ökukennara.

Í athugasemdum við frv. kemur fram að nokkur atriði voru ekki útrædd hjá þingmannanefndinni sem undirbjó endurskoðaða útgáfu þess. Það voru m.a. atriði sem varða ökuhraðann, aldur til að stjórna dráttarvél, léttu bifhjóli og vélsleða, ákvæði um skipan Umferðarráðs o. fl. Nefndin hefur nú sem heild rætt þessi atriði og tekið hluta af þeim upp í brtt. þar sem gert er m.a. ráð fyrir hækkun hámarkshraða. Nefndin ræddi einnig nánar atriði sem varða aldur hjólreiðamanna, lágmarksaldur til þess að hjóla. Á því atriði höfðu verið gerðar breytingar hjá þingmannanefndinni, en við nánari skoðun og samanburð við reglur nágrannaþjóða þótti rétt að hverfa frá þessum breytingum aftur og eru brtt. í samræmi við það.

Nefndin hefur auk þess orðið sammála um ýmsar lagfæringar á orðalagi frv. því að í þessum lagabálki má lengi færa orðalag til betri vegar þannig að það sé skýrara og greinilegra.

Þessar brtt., sem nefndin hefur orðið sammála um, eru fluttar á sérstöku þingskjali. Þess skal einnig getið að einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. og fylgja brtt. sem fram kunna að koma á milli 2. og 3. umr. En það er sannast sagna að vegna þess að óðum fer að líða á þingtímann vildum við kappkosta að koma þessu máli inn í umræðu hér aftur, þannig að því þokaði áfram hér í deildinni, því að eins og menn vita á það eftir að fara til Nd. Að öðru leyti leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. og ég mun nú koma aðeins nánar að.

Fyrsta till. gerir ráð fyrir að 2. og 3. málsgr. 8. gr., sem fjalla um hljóð- og ljósmerki og neyðarakstur, séu umorðaðar. Það er ekki um efnisbreytingu þar að ræða að öðru leyti, en orðalag er gert skýrara að okkar mati.

Við 14. gr. er aðeins um lagfæringar og samræmingu að ræða.

Við 18. gr. er um að ræða breytt og skýrara orðalag. En varðandi 2. málsgr. 18. gr., sem varðar skólabifreiðar, þá er sú grein gerð afdráttarlausari og eru það öryggissjónarmið sem ráða því.

Við 22. gr. eru frekari skýringar og einnig við 30. gr. Þetta eru orðalagsbreytingar sem eiga að vera til þess að greinarnar verði skýrari og tilgangur þeirra skýrar afmarkaður. Sama má segja um 32. gr.

Þá komum við að 37. gr. sem varðar umferðarhraðann. Þar er um efnisbreytingu að ræða. Nefndarmenn voru sammála um það að sá ökuhraði sem gert er ráð fyrir í frv. væri of lágur, hann væri ekki í samræmi við þann bifreiðakost og þau umferðarmannvirki sem nú eru í notkun og það mundi verða erfitt að framfylgja þeim hraðatakmörkunum sem frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna eru fluttar brtt. sem gera ráð fyrir hækkun almenns umferðarhraða utan þéttbýlis upp í 80 km á klst., 90 km á vegum með bundnu slitlagi og heimild til að ákveða hámarkshraða upp í 100 km þar sem aðstæður eru bestar.

Til samræmis hefur hámarkshraðinn einnig verið hækkaður í 38. gr. Sú grein varðar stærri bifreiðar. Við 40. gr. kemur ákvæði sem ég gat um fyrr í mínu máli og er sú grein þá samhljóða því frv. sem var til umfjöllunar á síðasta þingi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu eftir nánari athugun og samanburð við reglur nágrannaþjóða, að til þess að hægt sé að framfylgja þeirri grein sé ekki hyggilegt að færa aldursmörkin úr sjö árum og upp í níu ár. Greinin gerir ráð fyrir að barn yngra en sjö ára megi ekki hjóla á akbraut. Þessi aldursmörk eru lækkuð aftur úr níu árum.

Við 72. gr. kemur brtt. „Hver sá sem situr á bifhjóli eða í hliðarvagni bifhjóls ...“, þ.e. breytingin er sú að hliðarvagninn er tekinn þarna inn í.

Við 84. og 85. gr. er lagfæring á orðalagi.

Við 96. gr. er brtt. sem fjallar um nefnd þriggja manna sem ákveður hvort breyta skuli endurkröfurétti vegna gáleysis eða ásetnings þess sem ábyrgð ber á tjóni sem vátryggingafélag hefur bætt samkvæmt lögum þessum. Till. gerir ráð fyrir að einn nefndarmaður sé skipaður eftir tilnefningu vátryggingafélaganna. Þetta verði fastur maður en ekki skipaður nefndarmaður í hverju tilfelli eins og frv. gerir ráð fyrir. Þetta er gert að okkar mati til að fá meiri festu í þessi störf, reyna að gera þau skilvirkari en verið hefur. Það er tilgangurinn.

Við 99. gr. er gert ráð fyrir að hér sé um sjálfstæða nefnd að ræða.

Við 108. gr. er um lagfært orðalag að ræða og sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um það. Síðan kemur gildistökuákvæði í 119. gr. Ýmissa hluta vegna þykir okkur nefndarmönnum rétt að lögin öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 1988.

Þess ber að geta að það er afskaplega brýnt að okkar mati að kynna þessar lagabreytingar eins vel og föng eru á og nota breytingarnar til að hefja sókn í umferðarmálum og slysavörnum. Við teljum rétt að til þess gefist nokkur tími ef svo fer, sem ég vona, að Alþingi samþykki þessa löggjöf áður en því verður slitið á þessum vetri. Við teljum nauðsynlegt að taka það sérstaklega til athugunar hvernig hægt er að standa að slíku átaki, hvernig hægt er að standa að kynningu á þessum lögum, jafnvel þó það kosti nokkra fjármuni. Við teljum þetta atriði mjög brýnt og teljum því rétt að gildistaka þessara laga verði ekki fyrr en um næstu áramót.

Ég tók það fram fyrr í mínu máli að allir nefndarmenn gera fyrirvara um brtt. sem fram kunna að koma eða þeir kunna að flytja á milli 2. og 3. umr. Ég tel afskaplega brýnt að þessu máli verði hraðað og þær brtt. sem fram kunna að koma gangi til athugunar og afgreiðslu þingsins vegna þess að það er orðið mjög brýnt að koma þessari lagasetningu í gegn, bæði vegna breyttra umferðarmannvirkja, vegna umferðarfræðslu og vegna þess námsefnis sem þarf að gera í umferðarfræðslu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vonast til þess að þetta frv. fái góða afgreiðslu hér svo það geti gengið til meðferðar neðri deildar þingsins eftir að 3. umr. er lokið hér.