09.02.1987
Neðri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

295. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Það er 295. mál Ed.

Frv. gerir ráð fyrir því að gjalddagar þungaskatts geti verið tveir á ári hverju, en sú skipan hefur verið á höfð samkvæmt gildandi lögum um fjáröflun til vegagerðar með þungaskatti að því er varðar léttari bifreiðar en 4 tonn, sem ekki greiða kílómetragjald eftir mæli, að gjalddagi sé einn á ári. Það hefur verið veruleg óánægja með þessa skipan, einkanlega hjá þeim sem hafa atvinnurekstur með höndum. Því hefur verið ákveðið að leggja til að heimilt verði að hafa gjalddagana tvo og gjaldtímabilin tvö, hið fyrra frá 1. janúar til 30. júní með gjalddaga 1. janúar ár hvert og hið síðara frá 1. júlí til 31. desember með gjalddaga 1. júlí. Að því er stefnt, verði þetta frv. að lögum, að það taki til innheimtu á þessu ári og því brýnt að málið fái skjóta meðferð í hv. deild. Ég mælist til þess við hv. nefnd að hún hafi það í huga. Það er ekki gert ráð fyrir því að breyta á neinn hátt innheimtum tekjum af þungaskatti með þessari breytingu heldur einungis að liðka til varðandi innheimtu. Hv. Ed. hefur afgreitt málið og fjh.- og viðskn. Ed. afgreiddi málið samhljóða.

Ég vil, herra forseti, leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.