09.02.1987
Neðri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

311. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútveg

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Eins og kunnugt er er skiptaverðmæti innan sjávarútvegsins bundið í lögum í samræmi við lög sem sett voru á s.l. vori eftir endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins með fullu samkomulagi hagsmunaaðila sjávarútvegsins. Í framhaldi af samningum sem gerðir voru í janúar s.l. var því lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún mundi beita sér fyrir því að samkomulag það sem náðist í þeim samningum yrði staðfest með breytingu á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Þau atriði sem þar greinir eru í aðalatriðum fjögur. Í fyrsta lagi var hlutfall skiptaverðmætis af heildarverðmæti sjávarafla sem landað er innanlands hækkað upp í 75% frá 1. janúar s.l. til 31. maí og síðan í 76% frá 1. júní. Í öðru lagi var ákveðið að tengja skiptaverðshlutfallið innkaupsverði á olíu, þannig að hækkun olíuverðs hér á landi hefði í för með sér lækkun á skiptaverðshlutfallinu, en lækkun olíuverðs leiddi aftur á móti til hækkunar skiptaverðs til sjómanna. Þriðja atriðið, sem samið var um og snertir skiptakjörin beinlínis, varðar ákvörðun skiptaverðs í gámafiskútflutningi. Varð samkomulag um að áður en skiptaverðmæti er reiknað skuli draga frá heildarverðmæti þann tilkostnað útgerðar sem hlýst af þessum útflutningi. Þetta ákvæði tekur gildi 1. júní n.k. Fjórða atriðið snertir skiptakjörin á þeim veiðiskipum sem frysta eigin afla um borð. Eru skiptakjörin mismunandi eftir því hvort um bolfisk eða rækju er að ræða og er þar horfið að sama fyrirkomulagi og var fyrir gildistöku laganna um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun sem ég gat um áðan.

Þetta frv. er undirbúið í samvinnu við hlutaðeigandi aðila og er fullt samkomulag þeirra í milli um málið. Frv. er flutt til staðfestingar á þeim samningum sem þeir hafa gert um þessi mál.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.