09.02.1987
Neðri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

321. mál, vaxtalög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hæstv. viðskrh. hefur mælt fyrir snertir mjög veigamikinn þátt í pólitískri umræðu undanfarinna ára frá því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar kom til valda og þó alveg sérstaklega þann þátt sem lýtur að þeim breytingum sem urðu á ákvörðunum um vexti sumarið 1984. Frv. sjálft er að mörgu leyti fróðlegt og athyglisvert og einnig sú ræða sem hæstv. viðskrh. flutti upp úr grg. frv. þar sem farið er ítarlegum orðum um efni þessa máls. Ég tel einmitt að það sé mjög mikilvægt að frv. af þessu tagi sé fylgt úr hlaði með ítarlegri efnislegri ræðu og að grg. frv. sé eins vönduð og kostur er.

Varðandi efnisatriði frv. vil ég, áður en ég vík að þeim breytingum sem voru ákveðnar 1984, nefna það atriði að í 10. gr. laga um Seðlabanka Íslands, eins og þau voru afgreidd frá hv. Alþingi, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Seðlabankinn getur bundið ákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum m.a. til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.“

Ég held að það sé nauðsynlegt að hliðstæð ákvæði og eru í seðlabankalögum verði einnig sett inn í hin almennu vaxtalög þó að það væri ekki nema til þess að það komi skýrt fram í hinum almennu vaxtalögum að ríkisstjórnin á hverjum tíma getur tekið ákvarðanir um að takmarka vexti. Eins og þetta frv. lítur út er í raun og veru ekki opnað fyrir slíka heimild handa ríkisstjórn. Ég tel að það sé slæmt, jafnvel þó að þetta ákvæði sé að finna í seðlabankalögunum, og því teldi ég ástæðu til að kanna hvort ekki ætti að flytja við þetta frv. þá brtt. að hliðstætt ákvæði komi inn í hin almennu vaxtalög og eru í seðlabankalögunum og í lögum um viðskiptabanka.

Varðandi efnisatriði þessa frv. að öðru leyti vil ég benda á að í grg. frv., sem birt er í þskj. sem við höfum hér til meðferðar, segir svo á bls. 12 í athugasemdum um IV. kafla frv.:

„Tilhögunin er sú“, segir með leyfi forseta, „í stórum dráttum að út af fyrir sig má semja um hvaða almenna vexti sem er.“

Ég tel í raun og veru að hér sé um að ræða orðalag sem opnar fyrir áframhaldandi okurlánastarfsemi þegar þröngt er á hinum almenna fjármagnsmarkaði í landinu og ekki er hægt að segja að framboð og eftirspurn ráði verði á peningum með eðlilegum hætti. Ég tel að þessi setning í frv. sé í rauninni mjög hættuleg og ástæða til að mótmæla henni sérstaklega, jafnvel þó að hún sé í grg. á bls. 12 um IV. kafla frv., vegna þess að hér er því alveg slegið föstu að það er grundvallaratriði þessa frv. að það megi semja um hvaða almenna vexti sem er. Síðan segir í ákvæðum um 17. gr., með leyfi forseta:

„Hinu ólögmæta atferli er lýst í upphafi 17. gr. frv. sem því að hagnýta sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti.“

Svo segir: „Hér þarf að vera um misnotkun aðstöðu að ræða, það grófa að dómstólar telji hana refsiverða.“ M.ö.o.: misnotkunin verður að vera gróf. Og hvað er gróft í þessu efni? Um það er einnig fjallað í grg. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Orðin „á óréttmætan hátt“ eru ætluð sem eins konar fyrirvari til dómstóla um mat á refsiverðleika háttseminnar og þrengingu á efnissviði ákvæðisins“, segir hér í grg.

Í ræðu hæstv. viðskrh. var þetta hins vegar öðruvísi orðað. Þar var sagt: „Orðin „á óréttmætan hátt“ eru ætluð sem eins konar fyrirvari til dómstóla um varfærnislegt mat á refsiverðleika háttseminnar og þrengingu á efnissviði ákvæðisins.“

Ég tel að hér sé komið að kjarna þessa frv., sem sé því: Er ætlunin að loka eins og kostur er leiðum til okurlánastarfsemi hér? Með því að undirstrika grundvallaratriði með þeim hætti sem gert er í grg. um IV. kafla frv. er hins vegar opnað fyrir að okurlánastarfsemi við ákveðnar aðstæður geti þrifist áfram og að sá sem okrinu beitir, sá sem okrar á öðrum, verði að gera það með mjög grófum hætti, eins og stendur í grg., ef hans háttsemi á að teljast refsiverð.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins dæma um hver er nákvæmlega ætlun höfundar frv. með þessum texta eins og ég hef lesið hann hér upp. Það er mál sem verður athugað í hv. fjh.- og viðskn. þar sem ég á kost á að fara yfir þetta mál og auðvitað hlýtur nefndin að kalla til þá aðila sem einkum hafa komið að samningu þessa frv. Ég tel hins vegar að það að vanta skuli skírskotun til seðlabankalaganna og að því skuli slegið föstu í grg. að það megi í rauninni semja um hvaða vexti sem er, þetta tvennt séu alvarlegustu ágallar frv. eins og ég hef komið auga á þá eftir nokkurn yfirlestur. Þeir kunna að vera fleiri. En það þarf að fást umræða og skýring á þessum atriðum.

Í sambandi við þetta mál er nauðsynlegt að leggja fyrir hæstv. viðskrh. nokkrar spurningar. Það fyrsta sem ég vil inna eftir er með skírskotun til 10. gr. seðlabankalaganna.

Skv. 10. gr. seðlabankalaganna mega vextir hér á landi ekki fara verulega fram úr því raunvaxtastigi sem er í grannlöndum okkar. Ég held að það sé rétt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. viðskrh.: Hefur verið fylgst með þessu að undanförnu? Hvernig hafa raunvextir þróast miðað við það sem er í grannlöndum okkar? Og spurningin lýtur auðvitað að því að ef þeir þróast fram úr því sem er í viðskiptalöndum okkar getur Seðlabankinn og eða ríkisstjórnin gripið inn í.

Hin forsenda þess að ríkisstjórnin megi grípa inn í vaxtaþróun hér á landi er sú að vaxtamunur innlánsstofnana verði óhæfilegur. Um þetta má fara mörgum orðum, en það er nauðsynlegt að fá að vita hvernig vaxtamunur innlánsstofnana hefur þróast frá árinu 1984 þegar vaxtasprengjunni var varpað inn í efnahagslífið þá um sumarið. Mér sýnist á tölum um framlegð bankanna til landsframleiðslunnar að svo hljóti að vera að raunverulegur vaxtamunur hér á landi hafi aukist verulega. Um þetta hef ég engar upplýsingar séð nýlega og það væri mjög æskilegt ef hæstv. viðskrh. treystir sér til strax við 1. umr. málsins að veita okkur upplýsingar um það.

Ég vil þessu næst víkja fáeinum orðum að aðdraganda þessa máls. Sumarið 1984 var mikill vandi í sjávarútvegi, þurfti að grípa til ráðstafana vegna sjávarútvegsins eins og algengt er. Ríkisstjórnin sat á fundum, undirnefndir að störfum, störfuðu þar undir forustu hæstv. sjútvrh. og hv. 1. þm. Suðurl. sem þá var ekki orðinn ráðherra, formanns Sjálfstfl. Menn gerðu almennt ráð fyrir því í þjóðfélaginu að niðurstaða þessara ríkisstjórnarnefnda yrði sú að það yrðu tilkynntar veigamiklar breytingar til bóta á rekstrarniðurstöðu sjávarútvegsins í landinu. Þess vegna kom það örugglega mörgum á óvart þegar haldinn var blaðamannafundur 30. júlí 1984 þar sem aðalniðurstaða ríkisstjórnarinnar var sú að það ætti að gefa vexti frjálsa. „Innlánsstofnunum veitt frelsi til að ákvarða inn- og útlánsvexti“, sagði Morgunblaðið í stórum fyrirsögnum, og formaður Sjálfstfl. lýsti því yfir að þetta væri stærsta ákvörðun sem hefði verið tekin í efnahagsmálum frá því að viðreisnin lagði upp laupana á sínum tíma, en það er nánast að vitna til hins allra helgasta þegar íhaldið vitnar í viðreisnarstjórnina. Morgunblaðið sá ástæðu til þess að hæla ríkisstjórninni fyrir áræðið, skrifaði leiðara 1. ágúst 1984 undir yfirskriftinni „Áræði ríkisstjórnarinnar“, og það birtust í Morgunblaðinu viðtöl við forráðamenn Sjálfstfl., m.a. þáverandi viðskrh., sem sagði, með leyfi forseta, á þessa leið: „Vextir munu nú ráðast í fyrsta sinn af framboði og eftirspurn í stað opinberrar vaxtaákvörðunar.“

Seðlabankinn tilkynnti 30. júlí 1984 á þessa leið: „Með þessum hætti er stefnt að því að framboð og eftirspurn ráði viðskiptakjörum á peningamarkaðnum og þannig verði stuðlað að betra jafnvægi en verið hefur.“

Þetta var m.ö.o. yfirlýsingin 1984. Framboð og eftirspurn átti að ráða verði á peningum. Stefna Sjálfstfl. í þessu efni var komin í framkvæmd, stefna Friedmans, og menn töldu almennt að þetta hlyti að vera þannig að ríkisstjórnin í heild hefði staðið að þessari ákvörðun. Báðir stjórnarflokkarnir hlytu að hafa staðið að þessari ákvörðun. Hæstv. sjútvrh. gegndi þá starfi forsrh. Forsrh. var á Ólympíuleikunum í Los Angeles þessa dagana og lét mynda sig þar með hatt eins og frægt var. En enginn dró í efa að það hlyti að vera alveg augljóst mál að báðir flokkarnir hefðu ákveðið þessa viðamiklu breytingu í peningamálum. En svo gerast tíðindi. Það fellur okurdómur í jólamánuðinum. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir vekur athygli á þessu máli í umræðum um fjárlög, enda ekki annað tækifæri til síðustu sólarhringana fyrir þingfrestun, og hæstv. viðskrh. lýsti því yfir að þetta mál yrði tekið til vandlegrar athugunar af hálfu ríkisstjórnarinnar og m.a. er þetta frv. afleiðing af því. En bak jólum, þegar menn höfðu sett upp jólatrén sín, hvaðan sem þau voru fengin, í hinum dýrlegu görðum hér eða annars staðar, þá fara að koma aðrar yfirlýsingar. Frá öðrum mönnum, hæstv. forsrh. og formanni Framsfl., birtust yfirlýsingar m.a. í DV dag eftir dag, og ég held að það sé rétt að fara fram á það við hæstv. forseta þessarar deildar að hann kalli í hæstv. forsrh. vegna þess að það er alveg óhjákvæmilegt að spyrja hann nokkurra spurninga um þetta vaxtamál. (Forseti: Það verður kannað hvort hæstv. ráðh. er í húsinu.)

Hæstv. forsrh. sagði í viðtölum við blöð, sem birtust fyrstu dagana eftir jól, t.d. í DV 7. janúar s.l. „Ég tel“, segir forsrh., „að ákvörðunin hafi verið ótímabær 1984, að markaðurinn hafi ekki verið undir þetta búinn.“ Þetta er nákvæmlega það sama og t.d. við sögðum, talsmenn stjórnarandstöðunnar, sumarið 1984 þegar við okkur var talað um þessi mál. Og forsrh. hnykkir heldur betur á, það er ekki verið að spara stóru orðin í þessu efni, því hann segir: „Ég segi hiklaust að það sé hneyksli að Seðlabankinn skuli ekki gera sér grein fyrir þessu með alla þá sérfræðinga og alla þá ráðgjöf sem hann hefur.“ „Með ákvörðunum sínum kippti Seðlabankinn fótunum undan okurlögunum," segir forsrh. snemma árs 1987. Er þá liðið nokkuð á þriðja ár frá því að hin sögulega ákvörðun var tekin. Þá rann upp fyrir honum ljós. Það þurfti okurdóminn til.

Og hæstv. forsrh. landsins segir: „Það skal viðurkennt að hér í ríkisstjórninni voru menn hræddir við þetta, að vextir færu upp úr öllu valdi, en ég held að menn hafi alls ekki hugsað út í það að okurlögin yrðu þar með afnumin. Við skulum ekki gleyma því að Seðlabankinn er ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í öllum peningamálum.“

Svo er hann spurður: Á þá að reka þá menn sem gerðu þessi mistök, eins og seðlabankastjóra? Á þá að reka þá? Forsrh. kann auðvitað svör við því eins og öllu öðru. Hann segir, með leyfi forseta: „Þú meinar hvort seðlabankastjórarnir ættu að hætta? Ja, það er vitanlega eðlileg spurning. Mér finnst það dálítið háð því hvað menn telja þetta eðlileg mistök eða hvort þetta er viljandi gert.“

Viljandi gert eða kannske bara óvart! Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að af hans hálfu var þetta örugglega óvart og hann er mjög hissa á niðurstöðunum. Hann er óskaplega undrandi oft á því hæstv. forsrh. hvaða afleiðingar hans eigin pólitísku ákvarðanir hafa. Það má segja að það sé það skemmtilega víð þetta kjörtímabil hvað forsrh. tekst alltaf að vera barnslega undrandi á ákvörðunum eigin ríkisstjórnar. Það kom alveg sérstaklega í ljós í þessu okurmáli.

Og ráðherrann var ekkert að spara við sig yfirlýsingar. Hann lagði til forsíðu og baksíðu og innsíðu og leiðara í DV hvern einasta dag eftir hátíðarnar. Á þrettándanum sagði hann: „Þetta er gersamlega óeðlilegt ástand sem hér hefur skapast í peningamálum“, gersamlega óeðlilegt ástand. Og svo segir hann 5. jan. 1987 eins og til að benda á það að hann hafi gengið á undan með góðu fordæmi undir fyrirsögninni: „Menn eiga að viðurkenna mistök sín“, segir forsrh. Steingrímur Hermannsson um seðlabankamálið. Og í því viðtali segir ráðherrann m.a.: „Öllum geta orðið á mistök, en þá eiga menn líka að viðurkenna þau en ekki að kenna öðrum um eins og gert er í tilkynningu Seðlabankans.“

Síðan segir í DV: „Steingrímur hefur opinberlega kallað málið hneyksli. Í samtali við DV sagði hann hneykslið fólgið í því að gefa vexti frjálsa sumarið 1984 þar sem allir sem nálægt peningamarkaðnum hafa komið vita að á þeim tíma þoldi hann það ekki eins og okurmálið sýndi“, allir sem nálægt peningamarkaðinum hafa komið! Og það var ekki eins og þetta væri maður sem væri að fæðast í gær eða fyrradag. Hann hafði óvart verið í ríkisstjórn frá 1978. Framsfl. hafði verið í ríkisstjórn frá 1971 og er bráðum búinn að slá met Alþfl. í samfelldri stjórnarsetu. En niðurstaða þessa manns er engu að síður sú að hann segir: Allir sem nálægt peningamarkaðnum hafa komið vita að þetta var tóm vitleysa. En samt stendur hann að þessu. Samt stendur varaformaður Framsfl. að þessu. Samt er þetta samþykkt í þingflokki Framsfl. sumarið 1984. Og menn minnast þess enn, sem hafa eitthvert pólitískt minni, hvað þeir voru lúpulegir framsóknarþingmennirnir þegar þeir komu út úr þingflokksherberginu hérna niðri þann dag þegar þessi ákvörðun var tekin vegna þess að ég er sannfærður um að einhverjir menn þar hafa talið þetta afar óþægilega ákvörðun á sínum tíma. Engu að síður bar Framsfl. alla ábyrgð á henni. Ég held að málið liggi einfaldlega þannig að Sjálfstfl. hafi vitað hvað hann var að gera. Hann hafi verið að lögleiða vaxtafrelsi eins og það er kallað, m.ö.o. okur, í því þjóðfélagi sem við búum við í peningamálum þar sem framboð og eftirspurn standast ekki á. Ég held að það sé hins vegar þannig að ýmsir forustumenn Framsfl. hafi áttað sig á þessu líka, en látið beygja sig, látið setja á sig þumalskrúfur vegna þess að íhaldið sagði: Annars gerum við ekkert fyrir fiskiskiptaflotann. Þetta var verslunin sem gekk yfir á milli stjórnarflokkanna þessa daga og það er auðvelt að fletta þessu upp í blöðum frá sumrinu 1984 þegar togaraflotinn, a.m.k. á Austfjörðum, var bundinn við bryggju og hafði verið um langt skeið.

Ég spyr hæstv. viðskrh. að því hvort hann sé sammála forsrh. um að niðurstaða Seðlabankans sumarið 1984 og ríkisstjórnarinnar hafi verið hneyksli. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá það alveg skýrt því að í grg. með frv. viðskrh., sem er jafnframt frv. Framsfl. og hv. þm. Páls Péturssonar og hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, sem var þá ekki búið að reka úr Framsfl., er syndakvittun fyrir ákvörðunina 1984. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eðlilegt var að Seðlabankinn hætti að auglýsa gildandi hámarksvexti að því marki sem skilyrt ákvörðunarvald í þeim efnum var fengið innlánsstofnunum.“

Sem sagt: stjfrv. ríkisstjórnarinnar. Nokkrum dögum eftir að forsrh. er búinn að jarma um það í öllum fjölmiðlum að ákvörðunin 1984 hafi verið hneyksli segir hann í sínu eigin frv., forsrh., og hv. þm. Stefán Guðmundsson og Stefán Valgeirsson og Páll Pétursson: Þetta var fullkomlega eðlileg ákvörðun. Svo voru menn að biðja um að þjóðin beri virðingu fyrir mönnum sem með þessum hætti tala og segja eitt í dag og allt annað á morgun.

Ég held satt að segja, herra forseti, að það sé alveg óhjákvæmilegt að draga þessar staðreyndir fram í sambandi við meðferð þessa máls því að þetta er sami leikurinn og Framsfl. hefur leikið allt þetta kjörtímabil. Þegar upp hafa komið mál sem ráðherrar samstarfsflokksins hafa borið ábyrgð á og illa fer byrjar söngurinn svona: Fyrst kemur forsrh. á síður dagblaðanna og í sjónvarpið og í útvarpið og segir: Þetta voru mistök. Þetta var hneyksli. Ég furða mig á þessu. Ég er alveg steinhissa og undrandi á öllum þessum niðurstöðum.

Svo kemur Tíminn, svo koma blöðin og hinir allir á eftir og segja: Þetta er allt saman Sjálfstfl. að kenna. Auðvitað ber hann höfuðábyrgð. En auðvitað ber Framsfl. stjórnarfarslega ábyrgð á þeirri okurlánastefnu sem var hleypt lausri á þjóðina sumarið 1984. Það er útilokað fyrir þá að skjóta sér undan þeirri ábyrgð. Það er lítilmannlegt að reyna að skjóta sér undan slíkri ábyrgð.

Þessi okurlánastefna birtist okkur ekki aðeins í meðferð Hæstaréttar á okurmálum. Mér liggur við að segja: Því miður er málið allt öðruvísi og þessi stefna snertir mikið fleiri en nokkurn tíma komast fyrir dómstóla með mál sín. Nauðungaruppboðum hefur fjölgað. Þau eru 6-8 sinnum fleiri nú á ári en var í upphafi valdatíðar þessarar ríkisstjórnar. Gjaldþrotamálum hefur fjölgað. Og af hverju halda menn að vandi atvinnuvega t.d. dreifbýlisins skapist og stafi nema af því að þessari stefnu hefur verið fylgt þannig að atvinnuvegirnir hafa eins og almenningur verið beygðir til þess að taka við lánum á okurkjörum. Þessi okurlánastefna, sem íhaldið ákvað með stuðningi framsóknar 1984, veldur samdrættinum í dreifbýlinu. Það er hún sem veldur meginvanda atvinnuveganna í dreifbýlinu líka. Og það er þetta sem menn verða að horfast í augu við. Það á ekki að láta menn komast upp með að skjóta sér undan staðreyndum í þessum málum.

Hæstv. forsrh., hefur hann ekki fundist eða hvað? (Forseti: Það hefur verið gerður reki að því að hæstv. forsrh. yrði í salnum eins fljótt og við verður komið, en hann var ekki í húsinu. Hann hefur fengið boðin.) Ég mun þá gera ráðstafanir til að ræða þessi mál við hann við annað tækifæri ef hann ekki kemur núna, en ég held að hann eigi að svara nákvæmlega hér í þessu máli. Hann hefur sitt vald frá meiri hluta Alþingis og hann á að svara hér fyrir okurlánastefnuna sem hann ber ábyrgð á að innleiða hér á undanförnum árum.

Að lokum, herra forseti, eitt atriði í sambandi við þessi vaxtamál sem ég heyri að jafnvel hæstv. viðskrh. er farinn að hafa yfir. Og hélt ég satt að segja að hann seinna en ýmsir aðrir menn yrði mér liggur við að segja heilaþveginn af þessum vaxtahækkunarmaskínum sem eru í gangi. Ég hélt að hann þekkti það vel til atvinnuvega t.d. í dreifbýlinu að hann færi seint að hafa yfir þær rullur að þetta væri nú heldur til bóta, þessi stefna, af ýmsum ástæðum og ég ætla að fara yfir þær ástæður sem hæstv. ráðh. nefndi. Ástæðurnar eru tvær sem hann nefnir og rökin eru tvíþætt.

Í fyrsta lagi segir hann að hér hafi sparnaður aukist mjög verulega og hann segir þetta í samhengi þannig að ætla má að það sé vegna þess að vextir hafi hækkað. Hvað er til í því? Staðreyndin er sú að sparnaður á föstu verðlagi, sparifé í innlánsstofnunum á föstu verðlagi, hefur verið að aukast á hverju ári frá 1975. Það var verulegt hrun í sparnaði á föstu verðlagi á árunum 1974 og 1975. Ef við setjum árið 1973 sem 100 var sparnaður á föstu verðlagi kominn niður í 75 á árinu 1975. Síðan hefur sparnaður á föstu verðlagi verið að aukast jafnt og þétt og í rauninni, ef maður skoðar þetta út frá hreyfingu innlána á föstu verðlagi sem er eina eðlilega viðmiðunin, má segja að hér hafi verið um að ræða nokkuð jafna stígandi allan þennan tíma. Það er ekki hægt með neinum rökum að halda því fram að vaxtahækkunarstefnan, sem var ákveðin 1984, hafi þarna ráðið úrslitum.

Ég held líka að það sé allt annað sem veldur þessari breytingu og það sé fyrst og fremst tvennt. Annað er það að verðtrygging fjárskuldbindinga var heimiluð frá og með árinu 1979. Áður var verðtrygging fjárskuldbindinga hér á landi bönnuð með lögum sem sett voru af Alþfl. og Sjálfstfl. á áratugnum þar á undan. Með verðtryggingu fjárskuldbindinga opnast nýir möguleikar fyrir sparnað og um þá ákvörðun 1979 var enginn ágreiningur í þinginu vil ég rifja upp.

Hitt atriðið, sem skiptir gífurlegu máli í sambandi við aukinn sparnað á undanförnum árum, er sú staðreynd að á þeim áratug sem við erum þarna að horfa yfir og fram á þennan eru að þróast í landinu peningastofnanir sem hafa handa á milli milljarða og aftur milljarða kr. Það eru lífeyrissjóðirnir. Lífeyrissjóðirnir eru verulegur hluti af þessum aukna sparnaði. Það er alveg ljóst. Ég held þess vegna að menn eigi ekki að taka trúanlegar klisjur Þjóðhagsstofnunar, hvort sem þar er Jón Sigurðsson frambjóðandi Alþfl. eða sá ágæti maður Þórður Friðjónsson, sem eru þannig að hærri vextir þýði sjálfvirkt meiri sparnað.

Það hafa verið skrifaðar um það lærðar ritgerðir af hagfræðingum, m.a. hygg ég að ýmsir alþm. hafi fengið slíkar ritgerðir í hendur, þar sem lýst er þróun peningamarkaðar í Kanada t.d. á árunum 1965-1980, þar sem það kemur greinilega fram að yfirleitt eru það aðrir þættir en vaxtahæðin sem slík sem ráða úrslitum um hvort sparnaður í þjóðfélaginu minnkar eða eykst. Ég er ekki að segja, herra forseti, að það sé ekkert samhengi þarna á milli. En samkvæmt þessum ritgerðum sem ég hef séð um þróun peningamarkaðarins í Kanada á árunum 1965-1980 er samhengið milli vaxta og sparnaðar ekki það sama og menn höfðu áður talið. Ég hef því verið að leita skýringa á því hvernig stendur á þessari þróun hér á landi og ég held að hún sé þessi: Það er opnað fyrir verðtrygginguna veturinn 1979 annars vegar og hins vegar er hinn stóraukni sparnaður lífeyrissjóðanna þannig að 10% af öllum launum sem menn vinna sér fyrir í landinu, það eru sennilega um 10 000 millj. kr. á síðasta ári, allt þetta fer inn í nýtt lögbundið sparnaðarkerfi. Þetta vildi ég nefna vegna þeirra kenninga sem ég heyri að hæstv. viðskrh. er jafnvel farinn að tyggja upp eftir þeim í Seðlabankanum og Þjóðhagsstofnun þó ég hefði kannske seint búist við því að hann færi að fara með þá rullu í þessum stól, en auðvitað er hægt að rótast svo í mönnum, jafnvel honum, að þeir fari að taka mark á þessum klisjum.

Herra forseti. Mér fannst það mikilvægt, sem fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. aðan, að hann viðurkenndi að lögin í landinu voru ekki tilbúin til þess í raun og veru að taka við ákvörðuninni 1984. Í raun og veru gagnrýndi hann með þessum hætti ákvörðun sína 1984. Og hann tók þannig til orða: „Ný löggjöf hefði þurft að koma til þá strax.“ Með þessu er hæstv. ráðh. að segja okkur að þarna var um ótímabæra ákvörðun að ræða, flumbrugang, þar sem ofstækisfyllstu Friedmanistarnir í Sjálfstfl. réðu ferðinni með Framsfl. í bandi. En úr því að hæstv. forsrh. er kominn í salinn held ég að það sé óhjákvæmilegt að ræða þetta mál örlítið við hann.

Ég rifjaði það upp í ræðu minni áðan að eftir hátíðarnar fóru að birtast viðtöl við hæstv. forsrh. landsins í öllum blöðum, sjónvarpi og útvarpi og víðar þar sem hann sagði: Ákvörðun Seðlabankans 1984 var hneyksli. Og hann gagnrýndi harðlega stjórnendur Seðlabankans og lét að því liggja að þeim hefðu orðið á mjög alvarleg mistök, jafnvel að þeir hefðu framið lögbrot. Nú birtist á vegum forsrh. stjfrv. um vaxtamál þar sem hann í raun og veru tekur það til baka sem hann hefur áður sagt í þessu efni vegna þess að í grg. frv. segir að þessi ákvörðun um að hætta að auglýsa vexti 1984 hafi verið eðlileg ákvörðun. Ég tel að hæstv. forsrh. og flokkur hans, Framsfl., beri fulla ábyrgð á þeim miklu vaxtahækkunum sem gengu yfir eftir 1984 og það sé útilokað fyrir Framsfl. eða hæstv. forsrh. að ætla sér að skjóta sér undan þeirri ábyrgð. Ég tel að það sé í rauninni alveg fráleitt hvernig hann hefur haldið á þessu máli nú að undanförnu nema hann hreinlega viðurkenni að hér hafi verið um stórkostleg pólitísk mistök að ræða, en þar með er hann að segja að stjórnarstefnan í heild hafi verið mistök vegna þess að þessi ákvörðun um vaxtafrelsið 1984 er snúningspunkturinn í allri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Afleiðingarnar sjáum við í nauðungaruppboðunum, gjaldþrotamálunum og erfiðleikum fyrirtækjanna á landsbyggðinni. Ég held að það sé nauðsynlegt við þessa umræðu að fá það skýrt fram: Samþykkti Framsfl. stefnuna 1984? Var hún samþykkt í þingflokki Framsfl.? Ég hygg að svo hafi verið. Ætlar forsrh. og formaður Framsfl. að reyna að skjóta sér á bak við það í þessu máli að hann var í Los Angeles dagana sem vaxtaokursákvörðunin var tekin og hæstv. sjútvrh. gegndi starfi forsrh., eða hvernig kemur hæstv. forsrh. og formaður Framsfl. hlutunum heim og saman í þessu efni? Auðvitað bar Framsfl. fulla ábyrgð.

Og það væri fróðlegt að heyra hver er afstaða varaformanns Framsfl. í þessu máli sem var forsrh. þá daga sem þetta var að ganga yfir. Telur hann að þessi ákvörðun hafi verið mistök? Telur hann að þessi ákvörðun hafi verið hneyksli? Telur hann að það eigi að víkja bankastjórum Seðlabankans frá eða hvað? Eða er hann ósammála forsrh., sem situr í hinni ráðherraröðinni, í þessu máli? Ég held að það væri eðlilegt að þeir bæru sig aðeins saman og væri fróðlegt að vita hvort hæstv. sjútvrh. er sammála öllum yfirlýsingum forsrh. í þessu máli að undanförnu.

Framsfl. hefur í þessu máli eins og öllum öðrum reynt að leika tveimur skjöldum. Þegar óvinsælar ákvarðanir eru teknar, jafnvel af þeirra eigin ráðherrum, hlaupa þeir til og gagnrýna, eins og hv. Páll Pétursson í landbúnaðarmálunum þegar hann þykist vera manna harðastur á móti þeirri stefnu sem ákveðin hefur verið þar. En ég vil fá það á hreint hér, herra forseti: Hver er afstaða Framsfl. til vaxtanna? Voru það mistök að sleppa vaxtasprengjunni lausri sumarið 1984?