10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

312. mál, verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. 6. landsk. þm. leyfi ég mér að vísa til skýrslu sem forveri minn lét gera og lögð var fram á Alþingi. Skýrslan er frá því í apríl 1984. Þar segir svo, með leyfi forseta, á bls. 16:

„Íslenskir aðalverktakar hafa með höndum verkefni er falla undir liði 1-5, en Keflavíkurverktakar verkefni skv. lið 1 og lið 6 að mestu leyti. Hugmyndir um breytingar á verktakastarfseminni verða að taka mið af framtíðartilhögun ofangreindra þátta svo og því samkomulagi sem í gildi er á milli Íslands og Bandaríkjanna um toll- og skattfrelsi á efni, tækjum og þjónustu. Sams konar ákvæði eru í gildi um framkvæmdir Bandaríkjanna í öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins svo og milli bandalagsríkjanna innbyrðis varðandi verkefni sem greidd eru úr sameiginlegum sjóðum Atlantshafsbandalagsins.

Telja verður að athuguðu máli að hvorki sé heppilegt né hagkvæmt að fjölga beinum viðsemjendum varnarliðsins frá því sem nú er. Ástæða er hins vegar til þess að opna fyrir þá möguleika að nýir verktakar hefðu aðstöðu til þess að taka að sér verkefni í auknum mæli og á sama grundvelli og félögin eða tengjast Aðalverktökum og Keflavíkurverktökum. Þá er einnig rétt að kanna ítarlega skilyrði þess að opna aðildarfélög samningsaðila frekar en nú er. Til þess að undirbúa þetta hefur utanrrh. ákveðið að koma á fimm manna samstarfsnefnd sem í eiga sæti tveir fulltrúar Verktakasambands Íslands, fulltrúi Íslenskra aðalverktaka, fulltrúi Keflavíkurverktaka og fulltrúi ráðuneytisins. Nefndinni verður jafnframt falið að kanna fyrirkomulag þessara mála og reynslu í öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins.“

Í skýrslu þeirri sem ég lagði fram á Alþingi í apríl á s.l. ári segir svo, með leyfi forseta: „Í framhaldi af yfirlýsingu forvera míns á s.l. ári um þátttöku fleiri verktaka í framkvæmdum varnarliðsins hefur verið unnið að því að opna fyrir undirverktök í vissum verkefnum. Lögð hafa verið drög að því að sjö undirverktakar starfi saman við hafnargerðina í Helguvík sem nú hefst með vorinu. En hluta forframkvæmda var lokið á s.l. ári. Hér er um að ræða stærsta verkefni sem Íslenskir aðalverktakar hafa tekið að sér til þessa. Við byggingu ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi er stefnt að því að undirverktaka verði í höndum heimamanna eftir því sem aðstæður leyfa. Vegaframkvæmdir við báðar stöðvarnar eru í undirverktöku heimamanna. Framangreind undirverktaka er árangur samstarfsnefndar með aðild Íslenskra aðalverktaka, Keflavíkurverktaka, Verktakasambands Íslands og ráðuneytisins. Þessi samstarfsnefnd mun halda áfram störfum í því skyni að kanna skiptingu á fleiri verkefnum.“

Annað hefur ekki verið aðhafst í þessum málum af hálfu ráðuneytisins með tilliti til þeirra fsp. sem hér liggja fyrir. Þá er ljúft og skylt að undirstrika að ráðuneytið mun að sjálfsögðu hyggja að starfsöryggi verkafólks sem unnið hefur hjá þessum fyrirtækjum þar syðra og í engu láta ófreistað að hugsa þar um.

Varðandi það sem hv. þm. sagði áðan og vísaði þá til fjármagns fyrirtækisins Aðalverktaka og flutnings þess af Suðurnesjum, þá held ég að þar hljóti að vera mikill misskilningur á ferðinni. Fjármagn þessa fyrirtækis er geymt í Landsbankanum, í Verslunarbankanum, Samvinnubankanum og Sparisjóðnum í Keflavík. Það hefur komið skýrt fram. Landsbankinn, Verslunarbankinn og Samvinnubankinn hafa útibú á Suðurnesjum og þar af leiðandi er fjármagnið í stofnunum sem eru þar syðra. Að ég tali ekki um Sparisjóðinn í Keflavík.

Þingmaðurinn fann að því að ég skyldi gera athugasemd við að hann hefði skyggnst í fundargerðir Verktakasambandsins. Það var svar við því sem kom fram í dagblaði hjá honum og ég vildi aðeins benda á að ef menn hygðust fá vitneskju um hvað væri að gerast í utanrrn. væri alveg tilgangslaust fyrir þá að reyna að hnýsast í fundargerðir Verktakasambands Íslands.