10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

285. mál, umferðaröryggi á Reykjanesbraut

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 513 hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til samgrh.:

„Hvaða ráðstafanir hyggjast umferðaryfirvöld og Vegagerð ríkisins gera til þess að draga úr tíðum slysum á Arnarneshæð og á Reykjanesbraut?"

Þær ástæður sem liggja að baki þessari fsp. eru þær að óvíða á landinu er um jafnháa slysatíðni að ræða og á Reykjanesbraut. Sú staðreynd hlýtur að vekja þá spurningu til hvaða ráðstafana er unnt að grípa til úrbóta og fækkunar slysa á þessum fjölfarnasta þjóðvegi landsins.

Þar hljóta menn ekki hvað síst að staðnæmast við þau atriði sem lúta að vegagerð og vegaframkvæmdum sem verða mættu til þess að gera umferð á Reykjanesbraut greiðari og öruggari en nú er, ekki síst á þeim köflum brautarinnar sem reynslan hefur sýnt að eru hvað hættulegastir - þar sem flest umferðarslysin eiga sér stað.

Fyrir liggur í skýrslum Umferðarráðs og Vegagerðar um hvaða kafla Reykjanesbrautar er hér að ræða. Í nágrenni Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar hefur slysatíðnin verið mest frá Engidal suður fyrir Hafnarfjörð. Árið 1985 var slysatíðnitalan þar 7,05, en landsmeðaltalið er aðeins 1,7. Fjórum sinnum fleiri slys áttu sér stað á þessum vegarkafla en landsmeðaltalið var og sýnir það glögglega nauðsyn þess að breikka veginn á þessu svæði og fækka vegamótum, en hér er raunverulega orðið um innanbæjarveg að ræða.

Við Arnarneshæð í Garðabæ er einnig brýnna úrbóta þörf og raunar allt norður fyrir Kópavogslæk. Þar hafa mörg slys átt sér stað að undanförnu og úrbætur á vegakerfinu þar eru þegar orðnar mjög aðkallandi. Byggja þarf nýjan breiðan veg í gegnum Arnarneshæð og leggja þar brú yfir fyrir umferð í austur- og vesturátt ef vel á að vera. Það mun reynast allkostnaðarsöm framkvæmd, en óhjákvæmilegt er að hefjast handa um hana hið allra fyrsta vegna hins mikla umferðarþunga og slysahættu sem á þessum vegi er. Það þarf því að vera forgangsverkefni við gerð hinnar nýju vegáætlunar sem brátt mun liggja fyrir Alþingi.

Umferðarljós á Arnarneshæðinni eru aðeins bráðabirgðalausn sem rétt sýnist þó að grípa til meðan varanlegar úrbætur eru gerðar á Reykjanesbrautinni á þessu svæði sem einnig verða að taka til vegarins norður yfir Kópavogslæk.

Þótt umferðarþunginn á Reykjanesbraut sé minni eftir því sem sunnar dregur er slysatíðnin í dag þó hvergi meiri en í Njarðvíkum. Þar er talan 9,09 að meðaltali síðustu árin, en ég minni aftur á að landsmeðaltalið er 1,7. Vonir standa til að hinn nýi flugvallarvegur frá Fitjum ofan byggðarinnar, sem nú er verið að leggja, ráði bót á því hörmungarástandi sem þar hefur ríkt í umferðarmálum.

Vera má að ekki sé enn orðið tímabært að breikka Reykjanesbraut alla sunnan Hafnarfjarðar, eins og stundum hefur heyrst að væri nauðsynlegt, þrátt fyrir tíð slys, m.a. við Kúagerði, og ég minni á að þar áttu sér stað þrjú alvarleg umferðarslys í janúarmánuði. En hjá því verður þó ekki komist að lagfæra alla Reykjanesbrautina sunnan Hafnarfjarðar þ.e. þær vegaraxlir sem mikill umferðarháski stafar nú af.

Íbúar í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Reykjanesi hafa miklar og vaxandi áhyggjur af þeirri aukningu umferðarslysa sem á Reykjanesbraut hefur átt sér stað síðustu misserin. Því er hér að því spurt hvað yfirvöld samgöngumála telja helst til úrbóta í þessum efnum.