10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

285. mál, umferðaröryggi á Reykjanesbraut

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. fyrir svör við þessari fsp. Það kom fram í máli hans að Vegagerðin hefur haft áform um að byggja nýjan veg yfir Arnarneshæð, grafa hann þar niður því að hann er allt of hár eins og hann er í dag og byggja brú þar yfir veginn. Það er vitanlega mjög aðkallandi, en það er jafnframt nokkuð dýr framkvæmd eins og ráðherrann vék að. Engu að síður er hún mjög brýn vegna þess öngþveitis, þeirrar miklu slysahættu sem þarna er um að ræða.

Þegar rætt er um þessa vegagerð og Reykjanesbrautina alla er rétt að minna á að hér er um fjölfarnasta þjóðveg landsins að ræða sem þjónar raunverulega þjóðinni allri en ekki aðeins þeim byggðarlögum sem þarna eiga hlut að máli. Þarna er um að ræða ákaflega mikinn umferðarþunga á einum fjölfarnasta hluta höfuðborgarsvæðisins.

Það ætti þess vegna að vera forgangsverkefni sú áætlun og það áform sem Vegagerðin hefur um að bæta úr skák í þessu efni að því er varðar Arnarneshæðina. Ég minni einnig á veginn þar fyrir sunnan, en slysatíðnin er mjög há í Hafnarfirði, raunverulega frá Vífilsstaðaveginum allt þar til suður fyrir Hafnarfjörð kemur vegna mjög vaxandi umferðar.

Ráðherrann minntist á nauðsyn þess að setja slitlag á vegaraxlirnar á Reykjanesbraut. Ég tek undir það. Það er mjög aðkallandi framkvæmd einnig sem gæti dregið úr þeim slysum sem staðreyndir sýna að hafa átt sér stað undanfarið í verulegum mæli. Ég minni á slysin við Kúagerði á síðustu vikum.

Það er rétt að vegáætlun mun senn verða til endurskoðunar á Alþingi, en með þessari fsp. vil ég enn undirstrika nauðsyn þess að verulegu og auknu fé sé veitt til vegamála á þessu svæði, einu þéttbýlasta svæði landsins, sem mikill þorri landsmanna árlega og oft á ári á leið um, vegna þess ástands sem þar hefur skapast. Hér er um forgangsverkefni að ræða og hér á að vera um slíkt verkefni að ræða í framtíðinni.