28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

40. mál, opinberar fjársafnanir

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 40 spyr hv. 2. þm. Austurl. um opinberar fjársafnanir. Í fyrsta lagi: Hvernig er háttað framkvæmd laga um opinberar fjársafnanir? Og í öðru lagi: Hvaða reglur hefur ráðuneytið sett á grundvelli laganna?

Mál er varða framkvæmd laga um opinberar fjársafnanir falla undir dómsmrn. annars vegar og lögreglustjóra hins vegar. Grundvallarregla laganna er sú að stofnunum, félögum og samtökum manna sé heimilt að gangast fyrir opinberri fjársöfnun í sérhverjum löglegum tilgangi. Hins vegar er lögð á þann aðila sem fyrir söfnun stendur skylda til að tilkynna hana hlutaðeigandi lögreglustjóra, sbr. 3. gr. laganna, og til að gera reikningsyfirlit og birta það, sbr. 6. og 7. gr. laganna.

Opinber fjársöfnun á götum eða í húsum er háð leyfi dómsmrn. og fjársöfnun með keðjubréfum er óheimil, sbr. 7. gr. laganna. Dómsmrn. hefur um langt skeið veitt leyfi til merkjasölu og annarrar fjársöfnunar á götum og í húsum. Eru um 40 aðilar á skrá ráðuneytisins um þá aðila sem hafa fasta daga til þess háttar fjársöfnunar. Meðal þessara aðila má nefna Rauða kross Íslands, Slysavarnafélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Samband ísl. berklasjúklinga, Bandalag ísl. skáta, Blindrafélagið, Sjómannadaginn, Mæðrastyrksnefnd, Landssamband ísl. barnaverndarfélaga, Blindravinafélag Íslands, AA-samtökin á Íslandi, Geðverndarfélag Íslands, Flugbjörgunarsveitina, Styrktarfélag vangefinna, Samband dýraverndunarfélaga Íslands o.fl.

Árlega eru auk þess veitt leyfi til 10-20 aðila til fjársöfnunar með þessum hætti. Á síðasta ári voru slík leyfi 14, 20 árið 1984, 22 árið 1983. Á þessu ári eru þau orðin 17 og hlutu þau eftirtaldir aðilar: Kiwanisklúbbur á Óðins- og Grettissvæði, Krabbameinsfélag Austfjarða, Slysavarnadeildin Ingólfur, Íslenska Kiwanis-hreyfingin, Krabbameinsfélag Íslands, Kvennadeild Slysavarnafélags Íslands, Landssamtök hjartasjúklinga, Styrktarsjóður aldraðra, Kvenfélagið Hlíf, Akureyri, Landssamtök áhugafólks um flogaveiki, Norðurlandi eystra, Kvenfélagið Líkn, Vestmannaeyjum, Kvenfélag Seljasóknar, Félag einstæðra foreldra, Líf og land, Líknarsjóður Áslaugar Maack, Sjöunda dags aðventistar og Hjálpræðisherinn.

Sum þessara síðast töldu leyfa varða einungis breytingu á degi þeim sem fyrri heimild tók til en önnur eru ný. Heimildir þessar eru yfirleitt til ýmiss konar líknarfélaga, vegna kirkjustarfsemi og þess háttar. Starfa sum félögin á landsvísu en önnur eru staðbundin. Með örfáum undantekningum heimila leyfin fjársöfnun í einn eða tvo daga og þess er að jafnaði gætt að ekki séu fleiri aðilar með leyfi sömu daga á sama stað. Í leyfi ráðuneytisins er jafnan vísað til laganna um opinberar fjársafnanir og afrit leyfisbréfs sent hlutaðeigandi lögreglustjóra.

Ekki er tiltækt yfirlit um framkvæmd laganna hjá einstökum lögreglustjórum. Skv. upplýsingum frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík hefur athygli aðila sem að fjársöfnunum hafa staðið verið vakin á ákvæðum laganna um tilkynningaskyldu og um gerð reikningsyfirlits.

Í þessu koma fram þær reglur sem ráðuneytið hefur unnið eftir við framkvæmd þessara laga, en reglugerð hefur ekki verið gefin út en á þessu tímabili hafa þessar reglur unnið sér hefð í framkvæmd.