10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

314. mál, veiði kúfisks

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Kúfisknefnd var skipuð þann 30. des. 1983 til að kanna möguleika á veiðum, vinnslu og markaðsmöguleikum á kúfiski. Í nefndina voru skipaðir Björn Dagbjartsson alþm., tilnefndur af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Hrafnkell Eiríksson fiskifræðingur, tilnefndur af Hafrannsóknastofnun, Már Elísson forstjóri, tilnefndur af Fiskveiðasjóði Íslands, og Ólafur Jónsson aðstoðarframkvæmdastjóri, tilnefndur af sjávarafurðadeild SÍS, Eggert Lárusson sölufulltrúi, tilnefndur af Sölustofnun lagmetis, Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson forstjóri, tilnefndur af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og Finnur Ingólfsson aðstoðarmaður sjútvrh., tilnefndur af sjútvrn. og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Fullyrða má að engin haldbær þekking hafi verið til í landinu á veiðum, vinnslu og markaðsmöguleikum kúfisks. Tækni við veiðar og vinnslu hér á landi var óþekkt. Því hefur nefndin leitað eftir ráðgjöf erlendis frá. Fyrir nefndina hafa starfað fjórir ráðgjafar, tveir bandarískir og Emil Ragnarsson frá tæknideild Fiskifélags Íslands, Jón Leví Hilmarsson og Friðrik Ragnarsson frá verkfræðistofunni Mega í Reykjavík.

Nefndin taldi nauðsynlegt að fram færi tilraunavinnsla á þeim kúfiski sem veiðist hér við land þannig að hægt væri að ganga úr skugga um að hann sé sambærilegur þeim kúfiski sem veiðist við austurströnd Bandaríkjanna. Nauðsynlegt var talið að fiskurinn væri unninn í þeim vélum og tækjum sem allra líkastar væru þeim sem hann kæmi til með að vera unninn í.

Þar sem tækjabúnaður til vinnslunnar var ekki til hér á landi var nauðsynlegt að flytja kúfiskinn óunninn út til Bandaríkjanna og láta vinna hann þar. Nær útilokað er að komast inn í kúfiskverksmiðju vestur í Bandaríkjunum, en fyrir atbeina Coldwater, dótturfyrirtækis SH í Bandaríkjunum, fékkst leyfi til þessarar tilraunavinnslu í vinnslustöð J. H. Miles og Co. í Norfolk. Tilraunavinnslan fór fram í ágúst 1984. Skelin var veidd á Faxaflóasvæðinu og síðan send í flugvél til Bandaríkjanna.

Það eru niðurstöður sérfræðinga að íslenska kúskelin sé fyllilega sambærileg þeirri bandarísku. Tilraunavinnslan sýndi reyndar heldur minni nýtingu en á bandarísku skelinni. Hins vegar fullyrtu sérfræðingar fyrirtækisins að búast mætti við mjög sambærilegri nýtingu.

Til að kynna sér hvernig er staðið að veiðum á kúskel fóru fiskifræðingarnir Ingvar Hallgrímsson og Hrafnkell Eiríksson til New Jersey og kynntu sér slíkan veiðiskap í byrjun árs 1984. Í september sama ár fóru Finnur Ingólfsson og Sigurjón Helgason frá Rækjunesi hf. í Stykkishólmi til Rhode Ísland og kynntu sér þar hvernig staðið er að veiðum.

Í mars 1985 kom hingað til lands bandarískur ráðgjafi, Dick Cooter, til ráðgjafar vegna verkefnisins. Leitað var að hentugu skipi hér á landi til breytinga fyrir kúfiskveiðar. Síðari hluta árs 1984 hófst samstarf kúfisknefndarinnar og fyrirtækisins Rækjuness hf. í Stykkishólmi um kúfiskmálin. Í framhaldi af ferð Dicks Cooter hingað í mars og eftir að hann hafði lagt mat á möguleika til að breyta Önnu SH 122, skipi Rækjuness hf., var hafist handa við breytingar á skipinu.

Vitað er að kúfiskur er í nokkru magni hér við land. Hins vegar er útilokað að segja til um stofnstærð og veiðanlegt magn nema hafa til þess sérbúið skip. Kúfisknefndin ákvað að aðstoða Rækjunes hf. eftir föngum við að breyta skipi fyrirtækisins í sérbúið kúfiskveiðiskip. Þeim breytingum er nú lokið og áætlað er að rannsóknir hefjist á næstu vikum, en þær munu fara fram á vegum Hafrannsóknastofnunar.

Fyrir liggja drög að skýrslu kúfisknefndar og hafa þau legið fyrir síðan í nóvember 1985. Skýrsla nefndarinnar mun hins vegar ekki verða gerð opinber fyrr en séð er fyrir hver árangurinn mun verða af veiðirannsóknunum. Það er skoðun nefndarinnar að niðurstöður stofnstærðarmælinga séu forsendan fyrir því hvort hér verði hægt að stunda kúfiskveiðar og vinnslu með arðbærum hætti í framtíðinni.

Svar við lið 2: Þó svo skýrsla nefndarinnar hafi ekki verið gerð opinber er rétt að það komi fram að arðsemisútreikningar sem kúfisksnefndin hefur látið gera miðað við 230 úthaldstíma á ári, 3600-3800 kg afla á klukkustund, hráefnisverð 4 kr., nýting í vinnslu 9% og afurðaverð fyrir lausfrystan kúfisk á 95 sent pundið benda til þess að um arðsama atvinnugrein geti verið að ræða. Reiknuð hefur verið arðsemi við veiðar og vinnslu út frá mörgum mismunandi gefnum forsendum, svo sem breytilegu hráefnisverði, úthaldstíma, afla á klukkustund, nýtingu í vinnslu og afurðaverði. Í ljós kemur að afli á klukkustund skiptir langmestu máli varðandi veiðarnar. Útreikningar sýna að veiðar gætu verið arðbærar ef hægt væri að veiða 3600-3800 kg á klukkustund. Afli á klukkustund við veiðar í Bandaríkjunum er á bilinu 4400-4600 kg. Það sem mestu ræður um afkomu vinnslunnar er nýtingin í vinnslunni og afurðaverðið. Fullyrt er að nýting í Bandaríkjunum sé á bilinu 8-10%. Þá ræðst það dálítið af því hvernig fiskurinn er hreinsaður. Fullyrt er að afurðaverð á lausfrystum kúfiski í Bandaríkjunum sé í kringum 1 dollar fyrir pundið og hafi farið hækkandi að undanförnu.

Hvað markaðsmálin snertir eru í kúfisknefndinni fulltrúar þriggja sölufyrirtækja, þ.e. Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeildar SÍS og Sölustofnunar lagmetis. Kúfiskurinn er unninn á þrjá vegu í neyslu. Hægt er að selja hann ferskan, sjóða hann niður eða frysta hann. Í þeim arðsemisáætlunum sem kúfisknefndin hefur látið gera er gert ráð fyrir að fiskurinn sé lausfrystur til útflutningsins og er ætlað að vinnslan miðist við bandarískan skelfisksúpumarkað.

Hugsanlegir kaupendur í Bandaríkjunum á íslenskum kúfiski eru stórfyrirtæki í súpuframleiðslu. Sum þessara fyrirtækja nota aðallega þennan svokallaða „surf clam“ eða smyrsling í sína súpuframleiðslu, en það er skeljategund sem ekki þekkist hér við land. Önnur fyrirtæki nota eingöngu kúfisk í þessa framleiðslu. Mikill aflasamdráttur hefur orðið á „surf clam“ að undanförnu í Bandaríkjunum. Stafar það af massadauða á skel vegna súrefnisskorts.

Störf kúfisknefndar hafa dregist, það er rétt, eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Sú leið hefur hins vegar verið valin að fara hægt og rasa ekki um ráð fram með því að ráðast í miklar fjárfestingar ef svo færi að óframkvæmanlegt væri að stunda kúfiskveiðar og vinnslu hér á landi. Nefndin valdi að leita eftir samvinnu við aðila sem hafði reynslu af skelfiskveiðum og vinnslu og varð því fyrirtækið Rækjunes hf. í Stykkishólmi fyrir valinu sem samstarfsaðili. Fjárfestingarkostnaður sem það fyrirtæki hefur nú ráðist í er í kringum 40 millj. og er það fjármagnað af fyrirtækinu sjálfu, Byggðastofnun, Þróunarfélaginu, Fiskimálasjóði og Fiskveiðasjóði, allt með fullum ábyrgðum fyrirtækisins. Sjútvrn. hefur styrkt fyrirtækið lítils háttar í þessu verkefni.

Það sem hins vegar mun ráða úrslitum um hvort hér verði kúfiskveiðar stundaðar í framtíðinni eru niðurstöður þeirra rannsókna á stofnstærð og veiðanlegu magni kúfisks sem eru að fara af stað á allra næstu vikum.