10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

324. mál, jafnréttisfræðsla

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin og það að einhver hreyfing virðist nú vera komin á þessi mál. Það er verk að vinna, sagði ráðherra áðan og vitnaði til skýrslu sem fram kom 1985 ef ég heyrði rétt. Það er svo sannarlega satt því að ákvæði hefur verið í lögum í ellefu ár um að framkvæma skuli jafnréttisfræðslu hér á landi og ljóst var af svörum ráðherra að hún hefur framan af og fram á allra síðustu ár einkum falist í fundum og starfshópum sem ekki hafa starfað og síðan í handmennta- og heimilisfræðslu sem vandséð er hvernig er beinlínis jafnréttisfræðsla.

Sönnun þess hversu skammt á veg jafnréttisfræðsla er í rauninni komin er ef til vill helst að finna í framkvæmdaáætlun félmrh. til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, sem er 214. mál þessa þings, en það er einn liður í þeirri framkvæmdaáætlun að hrinda í framkvæmd ákvæðum 10. gr. laga nr. 65 frá 1985, um jafnréttisfræðslu. Þar sem þetta er að finna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er ljóst jafnt sem af svörum ráðherra að framkvæmdir hafa verið heldur litlar fram að þessu þótt greinilega sé kominn skriður á málið.

Ráðherra nefndi hérna norræna samstarfsverkefnið sem kallað er „Brjótum múrana“ og lagði áherslu á það inntak, sem sums staðar er að finna í jafnréttisfræðslu, að breyta hefðbundnu starfs- og námsvali kvenna og karla. Eins og hefur áður komið fram í umræðum um þessi mál er ég eindregið andvíg þessari áherslu í jafnréttisfræðslu. Ég held að lausnin liggi ekki í breyttu starfsvali heldur breyttu starfsmati.

Herra forseti. Það sem þetta svar sýnir okkur þó fyrst og fremst er að það er engan veginn nóg að samþykkja fagurlega orðuð lög um jafnan rétt kvenna og karla. Það er framkvæmd laganna sem á endanum ræður úrslitum um hvort þetta jafnrétti getur orðið að veruleika eða ekki