10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2889 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

Síldarsamningar Norðmanna og Sovétmanna

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka þá lipurð sem virðulegur forseti sýnir mér með því að leyfa mér að gera örstuttar athugasemdir utan dagskrár. Það er ekki árás á einn eða neinn hérlendis heldur vildi ég aðeins vekja athygli á mjög alvarlegu máli sem snertir okkur mjög, en það er hinn nýgerði samningur milli Norðmanna og Sovétríkjanna um veiðiheimildir Norðmanna fyrir sovésk síldveiðiskip í norskri landhelgi.

Eins og allir vita hefur ríkt gífurlega hörð samkeppni milli Íslendinga og Norðmanna í sölu á saltsíld til Sovétríkjanna. Þótt Norðmenn hafi undirboðið Íslendinga í verði á saltsíld til Sovétríkjanna um 30-35% hafa Íslendingar fram að þessu haft vinninginn og Sovétmenn ekki keypt af Norðmönnum heldur Íslendingum þrátt fyrir mun hærra verð. Mestu mun þarna hafa valdið betri verkun síldar á Íslandi og öruggara og betra síldarmat. Norðmenn hafa unað þessu illa. Einn þátturinn í viðleitni þeirra er að tryggja sér þennan sovéska síldarmarkað eins og kom í ljós um áramótin, en þá gerðu Norðmenn samninga um að sovésk síldarskip fengju að veiða 15 þús. tonn innan norskrar fiskveiðilögsögu. Þetta jafngildir 110 þús. tunnum af hausskorinni síld, en 140 þús. tunnum af heilsaltaðri síld.

Nú er spurning mín til hæstv. sjútvrh. hvort íslenska ríkisstjórnin hafi mótmælt þessum samningi við norsku ríkisstjórnina eða á einhvern hátt látið vanþóknun sína í ljós við norsk stjórnvöld.

Tíminn leyfir ekki að gera grein fyrir þessum ljótu vinnubrögðum, sem eiga sér lengri sögu og eru mjög ljót, sem Norðmenn hafa haft í öllum síldarmálum. Má geta þess að sala okkar til Sovétríkjanna er um 200 þús. tunnur. Mér er kunnugt um að íslensk stjórnvöld hafa lengi óskað þess og margítrekað að haldinn væri fjögurra landa fundur um ráðstafanir til að endurreisa norsk-íslenska síldarstofninn, þ.e. Noregur, Ísland, Sovétríkin og Færeyjar. Allar þjóðirnar hafa samþykkt að slíkur fjögurra landa fundur yrði haldinn nema Norðmenn. Þeir hafa þverneitað. Norsk-íslenski síldarstofninn frá 1983 gaf fyrirheit um verulega endurreisn stofnsins. Íslenska hafrannsóknastofnunin lagði til að veiðar á ókynþroska síld yrðu bannaðar, þ.e. síld sem er smærri en 27 cm. Alþjóðahafrannsóknastofnunin studdi þessa tillögu og samþykkti hana og mæltist mjög eindregið til þess að eftir henni væri farið, enda forstöðumaður íslensku hafrannsóknastofnunarinnar, Jakob Jakobsson, kunnur á alþjóðavettvangi fyrir hæfni sína í þessum málum. En Norðmenn höfðu þessa samþykkt að engu, þrátt fyrir afgerandi samþykkt Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar, og reyndar Sovétríkin líka.

Á árinu 1985 veiddu Sovétmenn í sinni lögsögu 30 þús. tonn af smásíld. Að tilhlutan íslenskra stjórnvalda var sendiherra Íslands í Moskva látinn mótmæla þessu við sovésk stjórnvöld. Hins vegar var enginn síldarafli í sovéskri lögsögu árið 1986. Norðmenn hafa nú á nokkrum árum selt ferska síld um borð í sovésk móðurskip sem Sovétmenn hafa svo verkað um borð og saltað.

Í þessum samningum sem Norðmenn gera við Sovétmenn eru ekki einungis 15 þús. tonn sem Sovétmenn fá að veiða innan norskrar fiskveiðilögsögu heldur er einnig tekið fram að samningsaðilar geti komið sér saman um að auka þetta magn. E.t.v. á það eftir að tvöfaldast.

Útlitið er ekki beint björgulegt. Fyrst koma Kanadamenn og bjóða Sovétríkjunum veiðar, svo og svo mikið, ef þeir kaupa af þeim síld. Nú koma Norðmenn sem óttast gífurlegar njósnir frá hernaðarflota Sovétríkjanna: Gerið þið svo vel, komið inn í landhelgina. Það eru kannske möguleikar á að þið kaupið af okkur síld.

Ég tek það fram að með þessari fsp. er ég ekki að ásaka hæstv. sjútvrh. Ég veit að íslenska hafrannsóknastofnunin hefur fylgst mjög vel með þessum málum og lagt til fjögurra landa fund eins og ég gat um í upphafi og svo hefur ráðuneytið verið vakandi í þessum málum. Spurningin er hvort ekki þurfi einhver kröftug mótmæli sem eftir verði tekið og hvort ekki sé möguleiki að taka þessi mál upp á Norðurlandaþingi þegar íslenskir förumannaflokkar þeysa á það þing.