28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

40. mál, opinberar fjársafnanir

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svör hans, en reyndar var það ekki fyrst og fremst það sem fram kom í máli hans sem ég var að slægjast eftir. Ég leyfi mér nefnilega að minna á meginatriði í eftirlitsskyldu laganna svo að ekkert fari þar á milli mála. En í 6. gr. segir að haldið skuli nákvæmt reikningshald yfir söfnunarfé og öll útgjöld við söfnunina. Skal reikningshaldið endurskoðað af löggiltum endurskoðanda eða þeim er dómsmrn. kann að útnefna til slíks.

Sömuleiðis segir í 7. gr. að reikningsyfirlit slíkrar fjársöfnunar skuli birt opinberlega. Sömuleiðis að viðkomandi lögreglustjóra skuli sent reikningsyfirlit söfnunar. Í 9. gr. eru svo ákvæði um að ráðuneytið geti sett nánari reglur um framkvæmd laganna svo sem ég sagði áðan, en fram kom í máli hæstv. ráðherra að engin reglugerð hefði verið sett um framkvæmdina.

Hér eru því bæði býsna skýr ákvæði og ekki síður heimild til frekari útfærslu til að taka af öll tvímæli. Ég held að nauðsynlegt sé að vekja athygli á þessum annars ágætu lögum af ýmsum upphlaupum kringum einstök mál af þessum toga sem hafa komið upp í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Þá má einmitt ætla það að ekki sé fylgst með sem skyldi því að þá væri augljóst að aðilar sem fyrir ásökunum hafa orðið með réttu eða röngu, og eflaust mest með röngu, hefðu getað varið sig með einfaldari og betri hætti en oft hefur verið ef þeir hefðu staðið svo skil á öllum hlutum eins og lögin gera ráð fyrir.

Ég held því að nauðsyn eftirlitsins sé ótvíræð og henni þurfi að framfylgja miklu betur en greinilega hefur verið gert. Ég heyrði það í máli hæstv. ráðherra að lögreglustjórar og ráðuneyti vekja athygli á þessum lögum en fylgjast hins vegar ekki með því hvort þessum lögum sé framfylgt af viðkomandi aðila. Það kom a.m.k. hvergi fram og því miður hygg ég að lögin séu hunsuð á þann hátt að bæði það að reikningshald skuli endurskoðað af löggiltum endurskoðanda, haldið skuli nákvæmt reikningshald, og eins að reikningsyfirlit fjársöfnunar skuli birt opinberlega, sé ekki haldið nema í sárafáum tilfellum og það ber að harma.