10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

Síldarsamningar Norðmanna og Sovétmanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir að hefja máls á þessum vanda og sem ein úr förumannaflokki hins íslenska Alþingis get ég lofað hv. þm. því að þessu máli verður vafalaust hreyft á komandi Norðurlandaráðsþingi eins og hann óskaði eftir, og ég er viss um að við verðum ekki í vandræðum með það þar sem hæstv. sjútvrh. er jafnframt samstarfsráðherra okkar í Norðurlandaráði.

Við könnumst við það á hinu háa Alþingi og það er ekki nýtt vandamál að hér skortir vissulega á um samvinnu Norðurlandaþjóða. Við minnumst þess þegar Grænlendingar veittu Efnahagsbandalaginu veiðiheimild, sem var reyndar tekin til umræðu á hinu háa Alþingi, eðlilega, þar sem þar var um sameiginlega fiskistofna að ræða. Ég get upplýst hv. 7. þm. Reykv. um að á morgun hittist sendinefnd Alþingis sem til Norðurlandaráðsþings fer, og ég get lofað honum því að ég mun taka þetta mál upp þar og væri alls ekki fjarri lagi að við bærum fram fsp. á þingi Norðurlandaráðs um þetta efni til sjútvrh. Norðmanna, Bjarne Mörk Eidem.

Hinu má einnig hreyfa hvort ekki er ástæða til að Norðurlandaþjóðir geri samning um samvinnu á þessu sviði og það munu sjálfsagt mér kunnugri þm. geta fjallað um. En ég held að hér hafi verið vakið máls á máli sem er full ástæða til að ræða við þessar bræðraþjóðir á Norðurlöndum sem við vissulega höfum samvinnu við á mörgum sviðum.