10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2894 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þskj. 229 hefur að geyma skýrslu félmrh. um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Í 22. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er sú skylda lögð á herðar félmrh. að leggja fyrir ríkisstjórnina framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn. Í áætluninni skal kveðið á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna. Samkvæmt greininni skal við gerð hennar höfð hliðsjón af framkvæmdaáætlun sem Jafnréttisráð skal gera, sbr. 2. tölul. 15. gr. laganna.

Félmrn. vakti athygli Jafnréttisráðs á þessum ákvæðum laganna um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla með bréfi 17. febr. 1986. Ráðuneytinu barst framkvæmdaáætlun ráðsins með bréfi 31. júlí 1986. Í aðfararorðum áætlunarinnar kemur fram að við gerð hennar gaf ráðið ýmsum aðilum sem láta sig jafnréttismál varða kost á að koma með tillögur um aðgerðir í jafnréttismálum og tjá sig um stefnumörkun á þessu sviði. Svör bárust frá 14 aðilum og eru þau talin upp í þskj.

Við samningu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar var höfð hliðsjón af 13. gr. laga nr. 65/1985, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Í henni er kveðið á um það að Jafnréttisráð skuli annast framkvæmd laganna. Enn fremur er verkefni Jafnréttisráðs nánar tilgreint í 15. gr. þeirra. Þótt aukin ábyrgð á því að koma á jafnrétti kynjanna sé lögð á herðar félmrn. og ríkisstjórnar er framkvæmd laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla í höndum Jafnréttisráðs.

Af þessu má ljóst vera að framkvæmdaáætlun sú sem félmrh. leggur fyrir ríkisstjórn er nokkuð annars eðlis en framkvæmdaáætlun Jafnréttisráðs. Umfang hennar hlýtur að takmarkast við aðgerðir sem ráðuneytum og opinberum stofnunum er lögum samkvæmt rétt og skylt að grípa til á sínum vettvangi án þess þó að ganga inn á verksvið Jafnréttisráðs. Rétt er að leggja áherslu á að eðli máls samkvæmt er það á verksviði Jafnréttisráðs að hafa áhrif á stofnanir og félagasamtök sem standa utan við umsýslu hins opinbera.

Í fyrsta hluta framkvæmdaáætlunar er fjallað um atriði sem mikið hafa verið til umfjöllunar í þjóðfélaginu en það er sá munur sem menn telja að sé á milli launa kvenna og karla. Tiltækar kannanir benda til að launamunur sé til staðar á milli kvenna og karla á vinnumarkaðinum og einnig í þjónustu hins opinbera. Launamunur getur stafað af ýmsu, t.d. menntun, vinnutíma, starfsaldri og fleiru. Ýmislegt bendir til að ekki sé hægt að skýra þennan launamun kynjanna eingöngu á þann hátt. Ríkisstjórnin er sammála um að grípa til eftirfarandi aðgerða til að koma á jafnrétti í atvinnu- og launamálum kynjanna:

1. Könnun á launamun kynjanna. Þjóðhagsstofnun hraði könnun á launamun kynjanna. Niðurstöður hennar verði rannsakaðar nánar með það að markmiði að finna raunverulegar ástæður launamunar.

2. Úrvinnsla upplýsinga. Byggðastofnun sjái um úrvinnslu upplýsinga um konur og karla á vinnumarkaðnum, sbr. ritið Vinnumarkaðurinn 1984. Í ritinu er að finna upplýsingar um meðallaun í ákveðnum starfsgreinum og atvinnuþátttöku.

3. Sveigjanlegur vinnutími. Ráðuneyti og opinberar stofnanir á vegum ríkisins beiti sér fyrir að komið verði á sveigjanlegum vinnutíma til að stuðla að jafnari þátttöku kynjanna í heimilisstörfum og atvinnulífi.

4. Nýtt starfsmat. Hið opinbera og aðilar vinnumarkaðarins sjái um að fram fari nýtt starfsmat þar sem endurskoðað verði sérstaklega mat á hefðbundnum kvennastörfum annars vegar og störfum sem karlar vinna almennt hins vegar, t.d. ýmis iðnaðarstörf, tæknistörf o.fl. Við mat á starfsreynslu skal taka tillit til heimilis- og umönnunarstarfa.

5. Stofnun fyrirtækja. Félmn., iðnrn., Iðntæknistofnun og iðnþróunarfélög taki höndum saman og efni til námskeiða fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki.

6. Menntun og fræðsla. Kannanir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafa leitt í ljós mikinn mun á menntun kvenna og karla. Þessi munur fer hraðminnkandi. Helstu breytingar felast í vaxandi hlutfalli kvenna sem ljúka stúdentsprófi. Skólaárið 1983-1984 luku fleiri konur en karlar stúdentsprófi. Konum sem ljúka háskólaprófi hefur einnig fjölgað verulega.

Ástæða er til að ætla að námsval kvenna leiði til starfa sem líklegast er að leggist af eða breytist. Til að bæta stöðu kvenna þarf að stuðla að því að atvinnuþátttaka þeirra verði fjölþættari og hvetja konur til að haga menntun sinni í samræmi við það. Norræna samstarfsverkefnið, sem hefur að markmiði að stuðla að fjölbreyttari menntun og starfsvali kvenna, er mikilvægt í þessu sambandi.

Á næstu fjórum árum skal lögð áhersla á eftirfarandi:

1. Jafnréttisfræðsla. Hrundið verði í framkvæmd ákvæði 10. gr. laga nr. 65/1985, um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, um að veitt verði fræðsla um jafnrétti kynjanna í skólum landsins. Samþykkt verði tillaga menntmrn. um stöðuheimild vegna umsjónarkennara í jafnréttisfræðslu. Áhersla verði lögð á að kennslugögn mismuni ekki kynjunum. Félmrn., Jafnréttisráð og menntmrn. reyni í sameiningu að breyta hinu hefðbundna náms- og starfsvali með aukinni náms- og starfsfræðslu.

2. Menntun kennara. Kennaraháskóli Íslands fræði verðandi kennara um jafnréttismál í skólum. Sama á við um verðandi fóstrur í Fósturskólanum. Skyldunámskeið um jafnréttisfræðslu verði haldin fyrir alla kennara og starfandi fóstrur. Hér komi til samvinna milli menntmrn., Kennaraháskóla Íslands og Fósturskólans.

3. Endurskoðun námsefnis. Allt nýtt og endurútgefið námsefni verði endurskoðað með tilliti til jafnréttis kynjanna. Sérstaklega skal endurskoða kennslu í handmennt, heimilisfræðslu og íþróttum með það að markmiði að kynin fái sömu kennslu í þessum greinum.

4. Náms- og starfsfræðsla og náms- og starfsráðgjöf. Í samræmi við 10. gr. jafnréttislaganna taki menntmrn. upp tilraunaráðgjöf í samvinnu við verkefnisstjóra norræna samstarfsverkefnisins á sviði jafnréttismála og fylgist með árangrinum í þeim tilgangi að finna farsælustu leiðina með ráðgjöf og fræðslu um náms- og starfsval. Sérstök áhersla verði lögð á hvatningu til kvenna að læra til tæknistarfa.

5. Fræðsla um fjölskyldumál. Dómsmrn. og Jafnréttisráð hafi samvinnu um útgáfu bæklings um réttindi og skyldur í hjúskap annars vegar og óvígðri sambúð hins vegar. Í samvinnu við landlækni verði hrint í framkvæmd I. kafla laga nr. 25/1975 sem fjallar um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir.

6. Trúnaðarstöður og ábyrgð. Í IV. kafla framkvæmdaáætlunarinnar kemur fram að áhrif kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum hafa aukist á undanförnum árum. Einnig hefur konum í trúnaðarstörfum við Stjórnarráð Íslands fjölgað. Áhrif kvenna í stjórnum og ráðum á vegum ríkisins eru enn of lítil. Í 12. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er kveðið á um að leitast skuli við að hafa sem jafnasta tölu kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins, sveitarfélaga og félagasamtaka þar sem því verður við komið. á þessu sviði er átaks þörf með það að markmiði að jafna hlutdeild kvenna og karla sem hafa ábyrgðarstörf og áhrifastöður með höndum í þjóðfélaginu. Til að ná þessu markmiði stefna stjórnvöld að eftirfarandi:

1. Hlutfall kvenna í trúnaðarstörfum. Ríki og sveitarfélög vinni markvisst að því að tala kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum þessara aðila verði sem jöfnust, sbr. 12. gr. jafnréttislaga.

2. Konur í ábyrgðarstöðum hjá hinu opinbera. Ráðuneytið vinni að því að konur sem starfa hjá hinu opinbera fái aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstöðum, sbr. 3. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þá eru það félagsleg atriði. Í V. kaflanum er á það bent að á síðustu áratugum hafi íslenska þjóðfélagið gerbreyst. Helsta breytingin er fólgin í aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna samfara tæknivæðingu og ýmiss konar sérhæfingu. Þjóðfélagið verður að laga sig að breyttum aðstæðum, en ríka áherslu ber að leggja á það grundvallaratriði að fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins og miða verður að því að svo verði áfram. Þess vegna þarf að tryggja heimavinnandi maka fyllstu réttindi á við þá sem eru úti á vinnumarkaðnum.

Aukin atvinnuþátttaka kvenna gerir þörf á gæslu fyrir börn utan heimilisins brýnni en áður. Lægri fæðingartíðni er umhugsunarefni og virðist haldast í hendur við félagslegar aðstæður útivinnandi kvenna til að fæða og ala upp börn. Þriggja mánaða fæðingarorlof er stuttur tími fyrir foreldra með nýfætt barn. Stjórnvöld telja að bæta verði aðstæður kvenna með nýfædd börn og foreldrum verði báðum gert kleift að ala börn sín upp á þann hátt sem samrýmist launaðri atvinnu þeirra. Sveigjanlegur vinnutími foreldra með ung börn er æskileg og raunhæf leið að þessu markmiði. Á næstu árum skal lögð áhersla á eftirfarandi:

1. Fæðingarorlof. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leiti leiða til að lengja fæðingarorlof í sex mánuði. Feður fái aukna heimild til töku fæðingarorlofs.

2. Réttindi heimavinnandi maka. Tryggt verði að heimavinnandi maki njóti fullra réttinda á við þá sem eru úti á vinnumarkaðnum, t.d. lífeyrissjóðsréttinda og lífeyristryggingar.

3. Samfelldur skóladagur. Komið verði á samfelldum skóladegi fyrir öll börn í grunnskóla og máltíðir verði hægt að fá í skólum. Jafnframt verði grunnskólanum gert kleift að hafa samfellt skólahald til þess að ekki þurfi að úthýsa nemendum þá daga sem skólahald fellur niður.

4. Dagvistun barna. Ítarleg könnun fari fram á þörf fyrir dagvistunarstofnanir, sbr. fyrri kannanir um sama efni. Því verði beint til sveitarfélaga og þau miði áætlanir sínar við þá könnun og þeim fjölskyldum fjölgi sem fái aðgang að dagvistarstofnunum og skóladagheimilum.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir fjögurra ára framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ríkisstjórnin hefur hér sett fram áætlun um hvernig vinna má að því markmiði á skipulegan hátt næstu fjögur ár, þ.e. að ná fram jafnrétti kynjanna í samræmi við lög og samþykktir, og ég legg áherslu á það að hér er um alvöruáætlun að ræða.