28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

44. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 44 hef ég beint svohljóðandi fsp. til hæstv. félmrh. um efndir í húsnæðismálum:

„Hvað líður í einstökum atriðum efndum á því samkomulagi um húsnæðismál sem gert var í félmn. Nd. Alþingis 21. apríl 1986 þar sem samþykkt var að vísa til milliþinganefndar í húsnæðismálum tíu tilgreindum atriðum með það yfirlýsta markmið að milliþinganefndin „skuli halda áfram störfum eftir að þingi lýkur nú í vor og skila tillögum til ríkisstjórnarinnar nægilega snemma til þess að hægt verði að leggja frv. fram á haustþinginu“?"

Þetta er fsp. Það samkomulag sem vitnað er til í fsp. liggur fyrir á þskj. frá síðasta þingi nr. 1017 sem er meirihlutaálit félmn. við frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þar segir meiri hl. nefndarinnar m.a.:

„Frv. þetta er efnislega einskorðað við þá þætti húsnæðismála sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins tók til. Öðrum þáttum, sem varða húsnæðismálin, var meiri hl. nefndarinnar sammála um að vísa til milliþinganefndarinnar. Meðal slíkra atriða eru þær hugmyndir sem fram hafa komið á Alþingi um breytingar á húsnæðislánakerfinu en ekki hefur verið kostur á að fjalla um við meðferð málsins á Alþingi. Í þeim efnum bendir nefndin sérstaklega á eftirfarandi:

1. Reglur um veð og veðhæfni íbúða.

2. Kaupleiguíbúðir húsnæðissamvinnufélög og leiguhúsnæði.

3. Fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

4. Áhrif nýja húsnæðislánakerfisins á félagslegar íbúðabyggingar og verkamannabústaðakerfið yfirleitt.

5. Verndaðar þjónustuíbúðir fyrir öryrkja eða aldraða.

6. Stöðu og hlutverk ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar.

7. Ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.

8. Stærðarmörk íbúða verði athuguð sérstaklega og reglur opinberra stofnana þar að lútandi samræmdar.

9. Þegar líða tekur á sumarið kanni milliþinganefndin hvernig ætlunin sé að framkvæma ákvæði 11. gr. sem virðast geta orðið flókin og erfið í framkvæmd.

10. Hvernig farið skuli með lánsrétt þeirra sem ekki geta nýtt lánsrétt sinn til fulls við kaup á fyrstu íbúð vegna þess að um ódýra eða litla íbúð er að ræða. Þá er haft í huga að viðkomandi þurfi á stærri íbúð að halda vegna breyttra aðstæðna.“ Tilvitnun lýkur í þetta samkomulag í félmn. 21. apríl s.l.

Og hæstv. ráðh. er spurður um efndirnar á þessu samkomulagi og við heyrum væntanlega svör hans.