10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður en ég hlýt þó aðeins að svara hv. 11. þm. Reykv. Ég held að hún hafi einungis staðfest það sem ég var að segja, að þessi umræða fer fram með þó nokkrum nafnaruglingi. Flokkurinn sem hafnar jafnrétti á ekki að vera að skipta sér af hvað Jafnréttisráð er að gera, svo einfalt er það. Þessi ágæti flokkur hefði átt að kalla hlutina réttum nöfnum. En ég ætla ekki að munnhöggvast við þær hv. þm. Kvennalistans vegna þess að ég er eins og allir vita þeim sammála um allt annað en Kvennalistann, sem hingað til, hvað sem þær nú segja, hefur gefið sig út fyrir að vera þverpólitísk samtök. En eftir fjögurra ára þingsetu eru þær allt í einu orðnar pólitískar. Það eru engin rök, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, að rugla saman orðunum pólitískur og kvennapólitískur. Það er líka tvennt ólíkt. Ég held því að það sé ákaflega mikilvægt að kalla hlutina réttum nöfnum þegar verið er að tala um þá.

Það væri nær að beina orðum til hæstv. ráðh., en áður en ég geri það get ég fullvissað þá þm. Kvennalistans að ég þarf ekkert að lesa ræður þeirra. Það vill svo til að við eigum það sameiginlegt, og er þar sennilega nokkur munur á körlum og konum, að sitja yfirleitt hér í þingsölum og hlýða á þingræður svo að ég þarf ekki að eyða miklum tíma í að lesa þingtíðindi, svo að mér er fullkunnugt um hvað þær hafa lagt til mála. Ég var ekki að segja að þær hefðu aldrei minnst á börn. Mér hefur hins vegar fundist umræða þeirra bera dálítinn keim af því að fæðingarorlof væru réttindi kvenna frekar en barna. (SDK: Kvenna og barna.) Það var sá áherslumunur sem ég leyfði mér að benda á.

En ég lofaði að lengja ekki þessar umræður, enda nauðsynlegt að konur, útivinnandi konur, komist í verslun fyrir klukkan 6, þessar konur sem eiga enga kosti á öðru en að reka sjálfar heimili, og ég ætla því bara að segja að lokum við hæstv. ráðh.: Skýrslan segir okkur auðvitað ekki neitt og kannske var þess ekkert að vænta, en ráðherra losnar nú fljótlega undan þeirri kvöð að láta framkvæma það sem í henni stendur. Ég treysti því að þegar ný ríkisstjórn sest í stóla verði meiri áhugamenn um jafnrétti í þeim stólum, og í trausti þess hef ég nokkra von um að úr þessum málum gæti eitthvað ræst. En það er alveg hárrétt sem kom hér fram áðan: Það er pólitískt mál, það er hvorki kvennapólitískt né pólitískt, það er flokkspólitískt. Og vilji nú þær Kvennalistakonur styðja við þá aðila í þjóðfélaginu sem hafa barist fyrir þessum málum áratugum saman, löngu áður en þær tóku upp þá baráttu, eiga þær að koma til liðs við þau öfl, en ekki kljúfa félagshyggjufólk í herðar niður, tæta það fólk í sundur. Þær eiga að vinna að því að sameina það og veri þær svo velkomnar.