11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2934 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

119. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það voru nokkrar ábendingar sem hv. 5. þm. Vesturl. kom með, bæði í gamni og alvöru, og ég ætla ekki að eyða mínum tíma í að svara einstökum athugasemdum sem hann gerði og beindi jafnvel til nefndarinnar því að ég veit að frsm. og formaður hv. allshn. mun fara út í þau atriði hér á eftir, m.a. þetta nýja fjórhjólaökutæki, sem við höfum gert okkur grein fyrir að þarf líklega að athuga.

Varðandi þokuljósin er það víst skilgreint í reglugerð hvernig þau eru. En af því að hv. 5. þm. Vesturl. nefndi þokuljós kemur mér í hug að fyrir nokkrum vikum var mikil þoka á höfuðborgarsvæðinu. Hún læddist um dali og götur hér í Reykjavík. Ég held að það hafi sjaldan verið eins fáir sem notuðu ökuljósin einmitt í þessari þoku. Það a.m.k. vakti athygli mína.

En ég fagna því svo sannarlega að frv. er komið til 2. umr. og ég tek undir það með hv. 5. landsk. þm. að vonandi auðnast hv. Nd. að afgreiða þetta frv. þannig að það verði að lögum áður en þingi lýkur. Hv. Ed. hefur á undanförnum þingum fjallað um umferðarmál í tengslum við þau frv. sem ýmsir þm. hafa flutt um ákveðna þætti umferðarlaganna. Í því sambandi vil ég minna á frv. sem ég hef flutt á nokkrum þingum ásamt fleiri þm. í þessari hv. deild um breytingu á ljósatímanum og varðandi merkingar skólabifreiða. Þetta frv. var á síðasta þingi afgreitt úr þessari hv. deild að mig minnir með atkvæðum allra þm. Það hefur verið flutt af hv. 6. landsk. þm. Karli Steinari Guðnasyni ásamt okkur fleiri þm. frv. varðandi það að fella úr gildi undanþágu sektarákvæða varðandi bílbeltin. Það hefur farið sömu leið gegnum þessa hv. deild, en bæði þessi frv. hafa fengið að lúra í Nd. En ég tek undir það að við skulum vænta þess að það auðnist að afgreiða þetta frv. sem nú er til umræðu í gegnum báðar deildir á þessu þingi.

En þessi atriði, sem ég nefndi, eru öll komin inn í þetta frv., varðandi ljósatímann í 32. gr. samhljóða frv. sem ég nefndi áðan og einnig varðandi skólabifreiðarnar sem kemur fram í 18. gr. Ég lít svo á að með samþykkt þessa frv., ef það verður að lögum, sé búið að aflétta þessu undanþáguákvæði varðandi sektarákvæðin um bílbeltin, en væntanlega verður það þá leiðrétt ef við höfum misskilið það svo hrapallega að það þurfi að flytja sérstakt frv. um það.

Varðandi þetta með ljósatímann fagna ég því sérstaklega að þessi atriði voru tekin inn í frv. upphaflega, en við endurskoðunina höfum við að vísu aðeins breytt því, þ.e. við höfum lengt notkun ljósanna í báða enda ef svo má að orði komast. Þetta er í frv. nú miðað við að það sé skylda að nota ljósin frá 1. sept. í stað 1. okt. og til 30. apríl í stað 31. mars. Ég held að við höfum öll verið sammála um það í nefndinni að í raun ætti að skylda ljósanotkun allan ársins hring, en það hafi verið af raunsæi, til þess að koma málinu frekar í gegnum þingið, að hafa þetta svona, enda er alls ekki bannað að nota ljósin allan ársins hring þrátt fyrir það, og reynslan hefur sýnt að þegar ökumenn fara að nota ökuljós halda þeir því áfram. Jafnframt færist það í vöxt að bifreiðar eru með sjálfvirkan búnað hvað þetta varðar. Ljósin kvikna þegar bíllinn er ræstur og það slokknar á þeim þegar drepið er á bifreiðinni.

Í þessu sambandi langar mig að segja frá upplýsingum sem ég hef fengið um hvernig þessu er fyrir komið á Spáni. Það er að vísu varðandi nokkuð annað atriði. Það er varðandi það ef menn aka á eineygðum bifreiðum eða þar sem pera hefur bilað. Með því er mjög strangt eftirlit. Lögreglan stöðvar bifreiðarnar og ökumenn eru skyldaðir til að hafa varaperur ávallt í bifreiðunum. Það er skylda á Spáni og það er gengið mjög hart eftir þessu. Ég held að þetta sé mjög góð hugmynd og ég vil beina því til hæstv. dómsmrh., ef hann skyldi vera einhvers staðar nálægt og heyra orð mín, að það mætti gjarnan setja í reglugerð að skylda allar bifreiðar til þess að hafa eitt sett af varaperum í bifreiðinni þannig að ef lögreglan stoppar ökumann sem er eineygður eða vantar ljós að aftan geti lögreglan jafnvel hjálpað viðkomandi til að setja peruna í því að það eru ekki allir sem eru tæknilega vel að sér að því leyti og þá er ég að líta í eigin barm fyrst og fremst.

Ég held að það gæti verið góð regla sem e.t.v. gæti þróast í það að bifreiðaumboðin sæju sér hag í því að bjóða þessa þjónustu og láta fylgja með eitt varasett af perum þegar bifreiðakaupandi er að leita sér að bifreið og velja sér bifreið.

Það er margt fleira í þessu frv. sem væri kannske freistandi að taka sérstaklega til umfjöllunar, en ég ætla að reyna að stytta mál mitt eftir föngum. Ég vil þó koma inn á eitt atriði og ég hefði einnig haft mikinn áhuga á að hæstv. dómsmrh. hlustaði á það. (Forseti: Hann mun vera væntanlegur innan skamms tíma.) Ég held að ég kjósi að hafa þögn í ræðustólnum á meðan til þess að ég fari ekki að þreyta menn með því að endurtaka það sem mig langar til þess að segja þó góð vísa sé kannske aldrei of oft kveðin.

Ég sé að hæstv. dómsmrh. er kominn í salinn og ég þakka honum fyrir að hann ætlar að sitja undir þessum lestri mínum, en ég held ég neyðist til að endurtaka það sem ég var sérstaklega að beina til hans áðan. Það var um fyrirkomulag sem mér er sagt að sé notað á Spáni og er varðandi bifreiðar sem aka eineygðar eða það bila ljósaperur. Lögreglan fylgir því mjög strangt eftir og ökumenn eru skyldaðir að eiga varaperur í bifreiðunum. Ég vildi beina því til hæstv. ráðh. að það væri athugað að taka upp í reglugerð eitthvert slíkt ákvæði þannig að ökumaðurinn væri skyldaður til að setja peruna í á staðnum ef lögreglan stoppar hann.

Þá ætlaði ég að koma aðeins inn á kynningarþáttinn. Ég læt ekki eftir mér að vera svo svartsýn að segja ef frv. þetta verður að lögum heldur þegar það er orðið að lögum á þessu vori skiptir mjög miklu máli að það verði vel kynnt fyrir almenningi, og það er ekki sama hvernig það verður gert, og einnig að frv. verði í aðgengilegu formi, sérprentað, aðlaðandi og aðgengilegt þannig að almenningur eigi auðvelt með að nota það sem leiðbeiningu við að læra umferðarlögin. En það er óhætt að segja að þessi lög munu í sjálfu sér ekki valda byltingu á umferðarmenningu nema þá með þessari ítarlegu kynningu og fræðslu í kjölfarið og áróðri sem verður að fylgja þar með.

Ég ætla aðeins að koma inn á fræðsluþáttinn, hlutverk Umferðarráðs. Það er óhætt að segja að Umferðarráð hefur ábyrgðarmikið hlutverk. Það er að bæta umferðarmenninguna. Hlutverk þess er skilgreint í mörgum liðum í 113. gr. Það er óhætt að segja að Umferðarráð og fjölmargir aðilar hafa lagt fram stóran skerf til að bæta umferðarmenningu okkar Íslendinga. En Umferðarráði hefur kannske ekki orðið eins ágengt og það sjálft hefði óskað vegna þess að það er því miður takmarkaður skilningur stjórnvalda á þýðingu forvarnarstarfsins á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum, þ.e. markviss fræðsla og áróður kostar auðvitað fjármagn. Við verðum að segja eins og er að Umferðarráð eins og kannske margt annað hefur verið svelt hvað fjármagn varðar og það er ekki enn þá að menn hafa áttað sig á því að það skilar sér aftur margfaldlega það fjármagn sem sett er í slíka fræðslu.

Ég vil skýra frá því hér að ég mun flytja brtt. við 3. umr. Ég er aðallega með í huga tvö atriði og ég á von á því að það verði fleiri hv. þm. sem flytja þessa brtt. en ég ein. Það er við 113. gr. varðandi samræmda slysaskráningu. Það er staðreynd að það dugar ekki að hafa slysaskráningu hjá lögreglu, hjá slysadeildum og sjúkrahúsum og tryggingafélögum ef það er ekki samræmt. Það má benda m.a. á þær skráningar sem hafa komið fram opinberlega. Ég er t.d. með auglýsingu frá því ágæta átaki sem Fararheill 87 heitir og bifreiðatryggingafélögin standa fyrir og er til mikillar fyrirmyndar og ber að fagna. Í auglýsingu sem þar birtist um fjölda slasaðra er í raun ekki nema um 1/3 hlutann að ræða af því að það eru lögregluskýrslur en ekki samræmdar skýrslur sem þarna eru notaðar. Þetta er eitt dæmi um að það skiptir máli að þessir hlutir séu samræmdir og þess vegna mun ég flytja brtt. við 3. umr. um að þetta verði sett inn í 113. gr. sem varðar Umferðarráð. Ég mun væntanlega mæla fyrir þessum brtt. þá, en mun ekki gera það nú.

Einnig er annað atriði. Það er varðandi rannsóknarnefnd umferðarslysa. Ég mun einnig flytja brtt. um það ásamt væntanlega fleiri hv. þm.dómsmrh. geti skipað slíka rannsóknarnefnd. Það er reynsla fyrir þessu í öðrum löndum, m.a. í Finnlandi, sem er talin gefa góða raun og ég mun skýra frá því, eins og ég sagði áðan, við 3. umr.

En að lokum vil ég geta þess í framhaldi af því sem ég hef hér nefnt um fræðsluþáttinn að í kjölfar þessa frv., þegar það er orðið að lögum, þarf að gera stórt átak og ég er að undirbúa till. til þál. um þjóðarátak í umferðaröryggi og mun leita eftir meðflm. úr öllum flokkum í báðum deildum til að flytja þessa þáltill. því að ég lít svo á að umferðarmál séu ekki og eigi ekki að vera flokkspólitísk mál. Þetta er eitt af þeim velferðarmálum sem varða hvern einasta einstakling, líf hans, heilsu og hamingju og utan og ofan við alla flokkapólitík.