11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hafa komið fram við þessa umræðu málsins ýmsar ábendingar og það er rétt, sem hefur komið fram við þessa umræðu, að í þessum lagabálki eru mjög mörg álitamál og afar mörg matsatriði þannig að sú nefnd sem hér hefur unnið að málum, allshn. Ed., mun að sjálfsögðu taka þær ábendingar til skoðunar sem hafa komið fram við þessa umræðu.

Það var um það rætt í nefndinni, eins og ég tók fram þegar ég mælti fyrir áliti hennar, að nauðsynlegt væri að koma málinu í 2. umr. þannig að það væri frekari von um framgang þess í þinginu í vetur.

Það hefur verið spurt um eitt veigamikið atriði og það er í sambandi við hin svokölluðu fjórhjól sem eru nú að ryðja sér til rúms. Þetta er dæmi um ný tæki sem koma fram í umferðinni. Það er sannast sagna að þetta mál er enn þá í athugun hjá nefndinni og við höfum beðið um ábendingar frá Bifreiðaeftirliti ríkisins um þessi farartæki og reyndar fengið í hendurnar drög í þessu sambandi sem við munum skoða á milli 2. og 3. umr. málsins. Það er álitamál hvort þetta flokkast undir bíl eða bifhjól. Það vantar ýmsan búnað í báðum tilfellum og er matsatriði undir hvaða flokk farartækja skuli fella þessi tæki. En við munum taka þetta mál til athugunar á milli 2. og 3. umr. og flytja þá brtt. um niðurstöðuna ef niðurstaða fæst í það mál. En mér er fullljóst og hef reyndar orðið þess var í umræðum manna á meðal að það er ekki hægt að samþykkja þessa löggjöf á Alþingi án þess að taka á þessu máli.

Ég tek undir það um bílbelti og notkun þeirra að við lítum svo á að það séu niður fallin þau undanþáguákvæði með samþykkt þessara laga sem eru varðandi viðurlög við því að nota ekki þessi belti. Ákvæði í lögunum eru skýr hvað bílbeltanotkun varðar.

Hér hefur verið rætt um ökuhraða í þéttbýli. Það var hv. 5. þm. Norðurl. e. sem kom inn á það í sinni ræðu á síðasta fundi að þessi mörk væru of lág og þyrftu frekar að vera undanþágur upp á við en niður á við eins og frv. gerir ráð fyrir. Svona ábendingar eru að sjálfsögðu réttmætar og við munum taka þá ábendingu til athugunar. Það eru eilíf álitamál í þessu eins og ég vék að í upphafi máls míns.

Hv. 5. þm. Vesturl. kom inn á nokkur atriði. Ég var búinn að svara því fyrsta. Það er um fjórhjólin. Hann kom inn á það atriði fyrst sem er mjög mikilvæg spurning í þessu sambandi.

Hann kom inn á þokuljós. Hv. 4. þm. Reykn. hefur svarað því að þokuljós eru skilgreind í reglugerð. Í sambandi við bíl hv. 5. þm. Vesturl. er það að segja að framleiðendur hans hafa kannske gengið út frá því að það væru mjög miklar þokur í Borgarfirði og á Arnbjargarlæk og það þyrfti að nota þessi ljós þar þess vegna. En þokuljós eru mjög mikilvægt öryggistæki.

Hann kom einnig inn á 47. gr. þar sem rætt er um öndunarsýni og vildi fá nánari skýringar á því hvernig væri ástatt hjá manni undir stýri sem gæti ekki andað. Ég hef í sjálfu sér ekki skýringar á því samkvæmt persónulegri reynslu, ég hef ekki lent í slíku, en hins vegar voru færustu sérfræðingar sem voru kallaðir fyrir nefndina á því að það mætti ekki afgreiða þessi lög án þess að þetta atriði væri inni því að þannig gæti verið ástatt. Við tókum þær ábendingar til greina. Þess vegna er þetta ákvæði þarna inni.

Síðan kom hann að því stóra máli sem varðar skráningu ökutækja. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. eins og kemur fram í athugasemdum þess að umdæmaskráning ökutækja verði lögð niður. Viljinn er augljós í því efni vegna þess að með frv. fylgir sem fylgifrv. 120. mál, frv. til l. um breytingu á þinglýsingalögum, sem er á dagskrá í dag einnig, og í athugasemdum við þetta frv. stendur: „Samkvæmt frv. til umferðarlaga sem liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að umdæmisskráning ökutækja verði lögð niður og að Bifreiðaeftirlit ríkisins annist skráningu ökutækja í stað lögreglustjóra. Þetta frv. er flutt til þess að laga þinglýsingalögin að þessu breytta fyrirkomulagi.“

Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að sú skráning sem hér um ræðir verði miklu einfaldari og ódýrari en það fyrirkomulag sem nú er. Hins vegar er mér fulljóst að um þetta atriði eru mjög skiptar skoðanir á hv. Alþingi. En ég vil jafnframt vona að deilur um þetta atriði komi ekki í veg fyrir að þetta frv. nái hér fram að ganga. Hér er um allt of miklar lagfæringar að ræða og allt of mörg góð mál sem þetta frv. tekur til og eitt atriði má ekki stöðva þess framgang. Ég vona að svo verði ekki þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta atriði á eftir að ræða hér áður en lýkur.

77. gr. fjallar um óhreinkun vegar. Ef farmur fellur eða rennur af ökutæki t.d. skal það þegar fjarlægt. Ég hygg að greinin feli það í sér að sá sem verður var við að hann missir farm af ökutæki sínu skuli þegar fjarlægja hann. Hins vegar getur verið þannig ástatt að hann geti ekki fjarlægt þennan farm af einhverjum ástæðum, hafi ekki tæki til þess eða tæki til að koma því upp á bílinn aftur ef um þungan farm er að ræða, svo að dæmi séu tekin. Þá er honum skylt að merkja þetta þannig að ekki valdi hættu fyrir aðra vegfarendur. Ég lít svo á að næsti vegfarandi, ef menn koma að slíku, eigi að auðkenna slíka hindrun ef slysahættu veldur. Hins vegar er sjálfsagt að líta á þessa grein nánar og hvort þarna þarf einhver nánari skilgreining að koma og er sjálfsagt að taka hana til athugunar á milli umræðna. Allshn. er opin fyrir öllum ábendingum að þessu leyti því að eins og ég kom að í upphafi er hér um mjög mörg álitamál að ræða. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., að ég held að það sé enginn lagabálkur sem kemur við eins marga og sem eins margir þurfa að fara eftir og eins margir eru sérfræðingar í, ef svo má að orði komast, og þessi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri nú. Eins og hefur verið boðað munu koma fram brtt. við 3. umr. málsins og nefndarmenn hafa fyrirvara um að flytja eða fylgja einstökum brtt. ef fram koma. En ég hef ekki fleiri orð um þetta að sinni.