11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2700)

119. mál, umferðarlög

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um það umferðarlagafrumvarp sem hér er til umræðu. Ég hef átt sæti í þeirri nefnd sem um þetta fjallaði og það er búið að fara mjög ítarlega í þessi mál og sú nefnd sem starfaði að þessu sérstaklega í sumar tók það mjög vel í gegn. Ég þakka henni fyrir hennar störf í þeim efnum.

Að sjálfsögðu verða alltaf um umferðarmál nokkuð skiptar skoðanir og fólki sýnist ýmislegt mega vera á annan veg eða fara betur en kemur fram í beinum lagatexta. Ég ætla ekki að fara ofan í einstaka liði í þeim efnum heldur legg ég áherslu á að þetta frv. nái framgangi á þessu þingi því þessi mál eru búin að vera mjög lengi í skoðun og það hafa verið væntingar aðila í þjóðfélaginu að fá þarna ýmsa liði fram svo að betra væri að vinna eftir þessu. Við sífellt aukna umferð og farartækjafjölda í umferðinni er mjög nauðsynlegt að sem fyrst séu settar þar um sem skýrastar reglur. Þetta frv. gengur í þá átt þó að sjálfsögðu mætti þar ýmislegt betur fara.

T.d. var hv. síðasti ræðumaður, 9. þm. Reykv., alveg mótfallinn því atriði í frv. þar sem nefndin leggur til að hámarkshraði verði aukinn. Sjálfsagt verður þetta umdeilt mál, en nefndin leggur þetta til með það fyrir augum að það séu þá kannske minni lögbrot en verið hafa í þessum efnum því þó að það sé talað hér um 100 km hraða á þeim vegum þar sem eru bestar aðstæður vitum við það, sem höfum reynslu í akstri, að þetta er svo margbrotið að það er betra að þetta sé þá leyfilegt en að við séum alltaf að basla við að gera hlutina í óleyfi. Þetta eru kannske ekki margir staðir á landinu og ég treysti lögreglu og umsjónarmönnum vegagerðar til þess að flokka það hvar þessi mörk skuli dregin, en ég veit að þetta er víða mikið vandamál og ég sé enga hættu samfara því að á þennan veg verði farið með þessi mál.

Ég get sagt það við hv. 4. þm. Reykn. að eins og henni er kunnugt hef ég ekki verið hlynntur ljósanotkun allt árið, og hefur það oft komið hér til umræðu. Hv. 9. þm. Reykv. harmaði einnig að það skyldi ekki vera allt árið. Ég hef ekki getað fellt mig við að setja það inn í lagatexta. Ég held að það sé ekki orðið vandamál úti á rykugum vegum á sumrin. Þar keyrir fólk með ljósum. En að vera með ljós í höfuðborginni og í þéttbýlinu allan sólarhringinn yfir hásumarið á sólskinsdögum tel ég ekki rétt að festa í lög. En ég get fullkomlega fellt mig við þá tímasetningu sem er í frv., að undanskilja sumarmánuðina.

Annað var það sem hv. 4. þm. Reykn. gat um og það var vegna hugmynda frá Spáni um að skipta um ljósaperur og annað í bílum. Auðvitað væri þetta mjög æskilegt. Ég vildi beina því til hæstv. dómsmrh. áður en hann setur reglugerð í þessum efnum að þetta sé ítarlega skoðað. Það er ekki af því að ég sé á móti því að við reynum að sýna sem allra mest öryggi í þessum efnum, við erum kærulaus með ljósabúnað á okkar ökutækjum og þau eru í allt of mörgum tilfellum í ólagi, en hins vegar er ekki alveg svona einfalt að skipta bara um peru því að stór hluti okkar bifreiðaeignar er með sérstökum glerjungum og öðru sem þarf að stilla upp og það gerum við ekki, a.m.k. ekki venjulegur vegfarandi, og alls ekki með aðstoð lögreglu nema í neyðartilfellum. Þessi búnaður þarf sérstaka ljósastillingu eftir að hann er settur í. Ég vil ekki mæla með því að annað framljósið lýsi kannske beint upp í loftið og blindi ökumanninn meðan hitt er á lága geislanum. Ég held að við verðum að fara varlega í þessum efnum þó ég sé alls ekki að mæla á móti því að þetta sé skoðað ofan í kjölinn. En það eru bara ekki eingöngu perur í öllum bílum, nema í afturljósunum, hitt eru glerjungar, dýr stykki sem þurfa sérstaka meðferð í stillingu.

Ég ætlaði bara að lýsa minni skoðun á frv. og ég mæli með því að það komist áfram. Auðvitað veldur það mér vissum sársauka að kveðja númerið á bílnum mínum, E-40, og þurfa að henda því. Það er ekkert skemmtilegt. Ég skal fúslega viðurkenna röksemdir í þessum efnum og skal ekki berjast á móti þessu. Hins vegar er það að vissu leyti falið í frv., þar er heimildarákvæði til ráðherra að setja þetta í reglugerð. Það er ekki í sjálfum lagatexta frv. Það er í valdi hæstv. dómsmrh. (Gripið fram í: P16.) P-16 gengur í salinn. Þetta er viðkvæmnismál. Og 777 held ég að sé hjá hv. 5. þm. Vesturl. En þetta er kannske ekki aðalatriðið. Ég er svolítið sár yfir þessu, en ætla ekki að berjast á móti því. En ég veit að það verður einhver þröskuldur þegar frv. kemur í Nd. þingsins. Ég vil að fram komi að þetta er mín skoðun á þessu máli.

Á sama hátt held ég að hv. 5. þm. Vesturl. þurfi ekki að hafa sérstakar áhyggjur af 47. gr. frv. vegna öndunarsýna þegar þarf að taka blóðprufur af mönnum því ég held að ég leggi það ekki á nokkurn lögreglumann eða lækni að taka slíka blóðprufu af ökumanni sem getur ekki andað. Þetta er hortittur. Það er rétt. Þar segir, með leyfi forseta: „Lögreglumaður getur fært ökumann til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. málsgr. 43. gr. eða 44. gr. eða hann neitar að láta öndunarsýni í té eða getur það eigi.“ Hann er hættur að anda. Þá getur ekki verið farið fram á að hann gefi öndunarsýni. Það verða aðrir að úrskurða. Það mætti fella úr þessari grein „eða getur það eigi.“