11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta. Það er bara örstutt athugasemd í sambandi við umferðarhraðann. Það kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv. að hann hafði vissan ugg í því sambandi. Ég vildi þess vegna láta koma fram við umræðuna að að sjálfsögðu er nefndin ekki þeirrar skoðunar að 100 km hraði eigi að vera allsherjarregla. Við gerum okkur vel grein fyrir því að umferðarmannvirki hér á landi bjóða ekki upp á það, en við treystum lögreglu og yfirvöldum til að fara vel með það vald sem þeim er fengið þarna. Ég vildi ekki láta umræðum lokið án þess að þetta kæmi fram.

Ljósanotkunin var hér til umræðu líka. Hér er um vissa málamiðlun að ræða því það hefur komið fram að skiptar skoðanir eru um þetta mál. Ég var einn af þeim sem höfðu ekki of mikla trú á ljósanotkun allt árið áður en ég fór að skoða málið nákvæmlega, en ég hef gefið þessu auga og ég er allur að snúast í þeim efnum. Ég held að þetta skref leiði til meiri lengingar tímans síðar. En þarna er um málamiðlun að ræða sem ég vona að komist í gildi nú.

Ég ætla ekki að orðlengja um önnur atriði að sinni.