28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

44. mál, húsnæðismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að 1985 gerði stjórnarandstaðan hér á hv. Alþingi samkomulag við stjórnarflokkana um tiltekna afgreiðslu á húsnæðismálum þar sem gert var ráð fyrir skipun milliþinganefndar og jafnframt fjáröflun í húsnæðiskerfið. Núna liggur fyrir eftir þessi svör ráðherra að það verður ekki staðið við þau fyrirheit að tillögur milliþinganefndarinnar verði lagðar í frumvarpsformi fyrir þingið í haust og auk þess liggur það fyrir að tekin hefur verið ákvörðun um það í ríkisstjórninni að hirða alla þá peninga, sem ákveðnir voru um leið og milliþinganefndin varð til vorið 1985, upp á 800 millj. kr., í ríkissjóð.

Í annan stað gerðist það að stjórnarandstöðuflokkarnir og stjórnarflokkarnir náðu samkomulagi um afgreiðslu nýja húsnæðiskerfisins á s.l. vori. Þá voru teknar ákvarðanir sem fólust í nál. félmn. Nd. og Ed. Nú er einnig ljóst að ekki á að standa við það og jafnframt kemur fram í fjárlagafrv. að það er ekki bara að húsnæðisgjaldið sé tekið í ríkissjóð heldur á að lækka fjárframlög til húsnæðiskerfisins skv. fjárlagafrv. úr 1600 millj. í 1300 millj. á þessu næsta ári.

Hér er um að ræða svo yfirgengilega framkvæmd mála að það er óhjákvæmilegt að vekja athygli á því, herra forseti, og ég mótmæli því mjög harðlega að ekki sé tímabært að fjalla um tengsl verkamannabústaðakerfisins við nýja húsnæðislánakerfið. Það er vissulega tímabært að á því verði tekið ef ekki á að stefna í hreint óefni með verkamannabústaðakerfið eins og þróunin hefur verið þar.

En ég vil bæta við einni spurningu: Hvenær er þess að vænta að frv. um húsnæðisafslátt verði lagt fyrir þingið eins og ekki bara stjórnarandstöðunni heldur líka aðilum vinnumarkaðarins var lofað í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga?