11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

321. mál, vaxtalög

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim ræðumönnum sem hér hafa talað afstöðu þeirra til þessa frv. Hún hefur verið á margan hátt málefnaleg og ég get ekki annað séð eða fundið en að menn telji eftir atvikum að fengist hafi góð lausn á þessum málum öllum með framlagningu þessa frv.

Í sambandi við vextina, sem menn tala mikið um, þá háu vexti sem eru, þá er það mál tvíþætt. Annars vegar er upphæð innlánsvaxta. Eftir því sem vextir eru hærri og hagstæðari fá þeir sem sparifé eiga meira fyrir sitt fjármagn. Hverjir eru þeir sem eiga spariféð? Í raun og veru svaraði hv. 3. þm. Reykv. því að sumu leyti sjálfur. Hann nefndi þar stóran aðila, sem eru lífeyrissjóðirnir. Ég hygg að miðað við þær skuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir taka á sig veiti þeim ekki af þeim vöxtum sem verið hafa. Aðrir, sem eiga spariféð, eru fyrst og fremst almenningur í landinu, hinir almennu launþegar. Þeir sem standa í atvinnurekstri eiga ekki spariféð. Að þessu leyti fara því fyrst og fremst saman hagsmunir launþega og stéttarfélaganna og allra annarra sem sýna ráðdeild og eyða ekki öllu jafnóðum og þeir afla þess. Þeir leggja öðrum til fjármagnið til annarrar uppbyggingar.

Þá kemur að hinum þætti málsins. Það eru útlánsvextirnir. Útlánsvextirnir segja aðrir að séu háir. Í lögunum um viðskiptabanka er sett eftirlit á þessa útlánsvexti, eða hlutfallið á milli innláns- og útlánsvaxta. Það eftirlit er fyrst og fremst í höndum bankaráðanna. Framkvæmdaratriðin eru í höndum bankastjórna, en bankaráðin hafa úrslitavaldið. Til eru töflur og upplýsingar frá Seðlabankanum um raunvexti sem er langt mál og ég ætla ekki að fara að tíunda hérna. En hitt er sjálfsagður hlutur að þau gögn fari til þeirrar nefndar sem um frv. fjallar og óskar eftir öllum upplýsingum í þessum efnum. Það er kannske rétt að geta þess í örfáum orðum að raunvextir í löndunum í kringum okkur, og þá er átt við bestu kjara bankaútlánin voru árið 1986: fimmveldin og Kanada 7,8%, Norðurlöndin 5,4%, önnur Evrópulönd 10,4%. Alls er meðaltalið á viðskiptavog 8%. Norðurlöndin voru framan af með lægstu raunvexti en komust til jafns við önnur lönd frá 1983, nema nú í lok síðasta árs. Ef við nefnum aftur bestu kjara vexti hér, þá segja þeir ekki alla sögu vegna þess að í samkeppni um innlánsféð hafa bankarnir tekið upp neikvæða raunvexti, en ekki nema á tilteknum bókum eða innlánum, en aftur hafa verið boðin lakari kjör á öðrum. Þannig að eins og aðrir sem sækjast eftir að fá þessi viðskipti hafa bankarnir farið út í allmikla samkeppni á síðustu árum.

Ef okkur finnst munurinn vera of mikill á innlánsog útlánsvöxtum í bankakerfinu þá vil ég halda því fram að ríkisbankarnir í landinu ráði fyrst og fremst ferðinni. Þeir eru það stórir, þeir eru með það hátt hlutfall af viðskiptunum að ef þeir væru með lægri útlánsvexti en t.d. einkabankar og sparisjóðir, þá mundu einkabankar og sparisjóðir ekki standast þá samkeppni nema lækka sína vexti einnig. Það má því segja að það séu, þegar á allt er litið, ríkisbankarnir sem ráða ferðinni. Og þá eru það hin þingkjörnu bankaráð þeirra sem eiga að vera eftirlitsmenn eða verðgæslumenn á þessu sviði.

Ég var spurður að því hér á mánudaginn hvort ég væri sammála þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. gaf eftir áramótin um það hvort sökin sé hjá Seðlabanka eða hjá hverjum sökin sé, varðandi úrslit þess dóms sem Hæstiréttur kvað upp rétt fyrir jólin. Ég geri ráð fyrir því, og ég mun ekki biðjast undan því, að ég beri eins og aðrir ráðherrar ábyrgð á ákvörðun ríkisstjórnarinnar 1984, þó ég hafi ekki verið viðskrh. þá. Ég taldi að sú ákvörðun hefði verið rétt. Hún var tímamarkandi ákvörðun. En ég hygg að enginn sem þá ákvörðun tók hafi látið sér koma til hugar að slík málsmeðferð mundi eiga sér stað. Dómur Hæstaréttar kom mér algjörlega á óvart. Ég varð undrandi yfir þeim dómi. Hins vegar verðum við, þó að dómur komi mönnum á óvart, eins og dómur Hæstaréttar í þessu tilfelli, öll að hlíta niðurstöðu Hæstaréttar hverju sinni. Og ef við teljum að það komi þvert á það sem áður var áformað þá verður að bregðast við því með því að uppræta það misræmi sem þarna skapaðist. Ég verð nú að segja það eins og er, þetta kemur upp á síðustu dagana fyrir jól, að það var brugðið fljótt við. Ég bregst það fljótt við sem viðskrh. að ég hef strax samband við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði og niðurstaðan varð sú að prófessor Jónatan Þórmundsson tók að sér að semja það frv. sem hér liggur fyrir og fór víða að leita fanga meðal sérfræðinga. En ég vil líka taka það fram að það var þá þegar búið að vinna mikið verk í sambandi við undirbúning að löggjöf um vaxtamál.

Menn mega alls ekki halda því fram, og síst af öllu í alvöru, að í raun og veru hefði ekkert verið gert í þessum efnum nema af því að þessi hæstaréttardómur féll á þessa leið. Á síðasta þingi var flutt frv. til vaxtalaga, hluti af því máli sem hér er til umræðu. Það frv. varð ekki útrætt. Ég bendi líka á það að Alþingi hefur lögfest bæði ný lög um viðskiptabanka, sem tóku gildi 1. janúar 1984, og lög um Seðlabanka, sem tók gildi 1. maí 1986. Þessi lög eru mjög merkur þáttur í bankamálum og margvíslegt sem hefur skeð, einnig með setningu margra fleiri laga, t.d. á síðasta þingi, sem ég ætla ekki að fara að telja frekar hér upp.

Ef við lítum á þróun vaxtamála og hvaða áhrif þau hafa haft á undanförnum áratugum til þess að kynda undir verðbólgu, þá hljótum við öll að verða sammála um það að fyrir löngu hefði átt að vera búið að taka upp líka stefnu og nú hefur verið í gildi á undanförnum árum. Áður var það viðtekin regla að halda svo niðri innlánsvöxtum að fólk fór frekar með peninga sína eiginlega í allt annað en í innlánsstofnanir. Það fé sem fólk var svo óhamingjusamt að leggja inn í innlánsstofnanir brann upp í verðbólgubáli þeirra ára eða áratuga.

Hverjir voru það sem áttu þetta fé? Það var fyrst og fremst almenningur í landinu, fólk sem var að spara fjármuni til að geyma til efri ára þegar heilsan bilar og fólk hættir að geta unnið úti. Þessir fjármunir urðu að engu, ekki á nokkurra ára bili heldur áratugum saman. Með þessu léku stjórnendur þjóðfélagsins þetta fólk mjög grátt, allan þennan tíma. En hverjir nutu góðs af? Voru það þeir sem ekkert áttu? Voru það þeir sem unnu fyrir daglaunum þeirra tíma? Nei, það voru þeir sem fóru í að kaupa og braska, eins og við gjarnan köllum það, þeir nutu góðs af niðurgreiddum útlánum. Ekki, eins og ég segi, í nokkur ár, heldur nokkra áratugi. En hvað er að gerast núna? Nú verða menn að borga fyrir fjármagnið sem fá það að láni og hinir sem eiga þetta fjármagn fá núna meira fyrir það en áður gerðist. Þetta tel ég vera heilbrigða stefnu sem enginn okkar á að neita að viðurkenna.

Einn ræðumanna sagði hérna á mánudaginn að gefist hefði verið upp í uppstokkun bankakerfisins. Ég tel að uppstokkun í bankakerfinu hafi átt sér stað mjög víða, eins og ég sagði áðan, með setningu nýrra laga, svo margra. Þó að sú niðurstaða hafi orðið sem kunnugt er, og væntanlega kemur fram hér fljótlega frv. um, að stofna nýjan banka upp úr Útvegsbankanum, hlutafélagsbanka, þá hefur engan veginn verið horfið frá því, því að á sama fundi og sú ákvörðun var tekin í ríkisstjórninni að minni tillögu var ein tillaga samþykkt til viðbótar, um það að viðskrh. skipi fimm manna nefnd sem í eiga sæti einn fulltrúi Seðlabanka Íslands, einn fulltrúi frá hvorum ríkisviðskiptabankanna, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, og tveir tilnefndir af viðskrh. Þessari nefnd er ætlað að gera tillögur um endurbætur á skipulagi og starfsháttum ríkisbankanna tveggja sem hafi það markmið að auka hagræðingu, bæta þjónustu bankanna við viðskiptavini sína og treysta fjárhagslega uppbyggingu þeirra með hliðsjón af þróun bankakerfisins í heild. Nefndinni verður ætlað að gera rækilega athugun á starfsháttum og uppbyggingu tveggja ríkisbankanna með það fyrir augum að koma fram endurbótum í rekstri þeirra og gera þar tilteknar tillögur og fjalla um tiltekin atriði.

Í fyrsta lagi á að gera úttekt á útibúa- og afgreiðslukerfi þessara tveggja banka í því skyni að tryggja betri verkaskiptingu á milli þeirra, stuðla að því að útibú geti með fækkun og samruna náð hagkvæmri stærð án þess að dregið sé úr eðlilegri þjónustu við einstök byggðarlög og stefnt verði að því að veruleg fækkun geti orðið á afgreiðslustöðum og betri nýting mannafla og húsnæðis. Þá verður nefndinni ætlað að gera tillögur um leiðir til að ná meiri hagkvæmni í rekstri með því að þessir tveir bankar hafi samvinnu um ýmiss konar sérhæfða þjónustu og rekstur stoðdeilda, t.d. á sviði erlendra viðskipta, og enn fremur að kanna leiðir og gera tillögur um aðgerðir til þess að jafna betur viðskipti á milli þessara tveggja banka, bæði með tilliti til heildarútlánagetu og í því skyni að bæta dreifingu útlána með tilliti til atvinnuvega og áhættu. Í þessu skyni séu bæði athugaðir möguleikar á því að flytja viðskipti beint milli bankanna og koma á samvinnu þeirra um útlán og þjónustu við stóra viðskiptabanka. Loks verður þessari nefnd ætlað að gera tillögur um hvernig megi koma föstu skipulagi á samvinnu milli stjórna bankanna tveggja sem stefni að þeim markmiðum sem ég hef hér áður lýst.

Þá má segja að margvíslegar athuganir og margvíslegar upplýsingar liggi fyrir sem hafa komið fram í gegnum alla þessa umræðu og eiga að geta flýtt verulega fyrir þessum störfum og ákvarðanatöku. Því koma þessi störf sem búið er að vinna mjög til góða í þessu sambandi.

Ég vil svo, herra forseti, ljúka máli mínu með því að taka fram að þegar þetta mikilvæga mál kemur til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar er aðalhöfundur þessa frv., sem hefur unnið það á vegum viðskrn., prófessor Jónatan Þórmundsson, reiðubúinn að mæta á fundum nefndarinnar og gefa frekari skýringar og upplýsingar og sömuleiðis, ef um frekari gagnaöflun er að ræða, er viðskrn. reiðubúið að standa fyrir því að sú gagnaöflun liggi fyrir með sem greiðustum hætti.