11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2954 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

321. mál, vaxtalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir er tvímælalaust framför frá þeirri óreiðu sem hingað til hefur ríkt varðandi vexti hér á landi. Ég hef þó ekki haft tök á að fara svo náið ofan í þetta frv. að ég geti úttalað mig um það á þessu stigi málsins hvort á því kynnu að vera einhverjir vankantar en vænti þess að mikil áhersla verði lögð á það í nefnd þeirri sem fjallar um frv. að til þess verði vandað svo að ekki hljótist nú verri óhöpp af en þegar hafa orðið. En allt þetta mál og margumræddur hæstaréttardómur er auðvitað fullkomið pólitískt hneyksli svo að leita verður langt aftur í þingsöguna til að finna annað eins.

Hæstv. ráðh. hefur vitaskuld viðurkennt það, svo og hæstv. forsrh. sem orðaði það svo hér við síðustu umræðu að hér hefðu orðið alvarleg mistök og hér hefði orðið hneyksli. Það er svo sem gott og blessað að viðurkenna það. En alvarlegra er auðvitað að fólkið í landinu borgar þetta hneyksli.

Hæstv. viðskrh. sagði hér rétt áðan að hæstaréttardómurinn hefði komið honum mjög á óvart. Það hefði dómurinn ekki þurft að gera vegna þess að 20. júní 1985 var svarað fsp. á hinu háa Alþingi sem ég hafði borið fram og hún hljóðaði svo:

„1. Geta bankar og sparisjóðir krafið viðskiptamenn um mismunandi vexti af veðskuldabréfum sem til innheimtu eru?

2. Hefur ágreiningi milli Seðlabanka Íslands og annarra banka um útreikning vaxta af veðskuldabréfum verið skotið til dómstóla?"

Af hverju skyldi þessi fsp. hafa verið borin fram? Vegna þess að það var ljóst að hæstu lögleyfðir vextir voru ekki ákveðnir. Og hverju svarar svo hæstv. ráðh.? Hann svarar auðvitað með bréfi Seðlabankans sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa kafla úr svo að ég geti sannfært hv. þingheim um að Seðlabankinn sagði ráðherra sínum einfaldlega ósatt. Þetta er kafli úr umræddu svari sem var lagt fram skriflega hér í þinginu:

„Vextir þessir giltu þar til Seðlabankinn breytti þeim með auglýsingu, dags. 14. ágúst 1984, með gildistöku frá og með 20. sama mánaðar og urðu þeir 6% á ári annars vegar og 7% á ári hins vegar af verðtryggðum lánum skv. 5 hér að framan og 23% á ári skv. 4 hér að framan. Vöxtum af lánum skv. 5 hér að framan var síðan breytt með auglýsingu frá Seðlabankanum, dags. 26. okt. 1984, með gildistöku hinn 7. nóv. s.l. og urðu þeir 7% á ári annars vegar og 8% á ári hins vegar. Breyting þessi varð sú síðasta á árinu 1984 er þessa vexti varðar.

Frá og með 1. jan. 1985 hefur Seðlabankinn ákveðið vexti af lánum með verðtryggingu miðað við lánskjaravísitölu 4% á ári annars vegar og 5% á ári hins vegar og eru þeir óbreyttir enn og gilda skv. auglýsingum Seðlabankans bæði um ný og eldri skuldabréf sem eru verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu.

Frá og með 1. jan. 1985 hafa gilt ákvæði auglýsinga Seðlabankans um meðaltal vaxta nýrra almennra skuldabréfa hjá bönkum og sparisjóðum, í hverjum mánuði um vexti skuldabréfa óverðtryggðra sem gefin hafa verið út fyrir 11. ágúst 1984 með ákvæðum um breytanlega vexti.“ Síðan hleyp ég hér yfir kafla svo að þessi langi lestur taki nú enda, en svar Seðlabankans endar svona:

„Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið, svo og að framangreindar auglýstar ákvarðanir um vexti gilda bæði utan og innan innlánsstofnana, en um þessi atriði hefur vart verið ágreiningur, verður að telja að bankar og sparisjóðir geti ekki krafið viðskiptamenn um önnur og þyngri vaxtakjör í þessu efni en Seðlabankinn hefur auglýst frá einum tíma til annars.“

Þetta segir seðlabankastjóri ráðherra sínum fyrir nákvæmlega ári síðan eða tæpu þó.

Seinni spurningunni, hvort ágreiningi milli Seðlabanka Íslands og annarra banka um útreikning vaxta hafi verið skotið til dómstóla, svarar Seðlabankinn, með leyfi forseta:

„Í bréfi Seðlabankans segir að af hans hálfu hafi engin málsókn verið hafin. Ekki sé vitað hvort skuldarar hafi farið í mál við kröfuhafa út af ágreiningsefni af þessu tagi.“

Þegar þetta svar hafði borist hingað inn á hið háa Alþingi fór ég í fjóra viðskiptabanka og spurði hvort þeir teldu um réttar upplýsingar að ræða og hvort þeir væru þeim samþykkir. Aldeilis ekki. Viðskiptabankarnir eða starfsmenn þar sögðu einfaldlega: Þetta er dauðans bull í þeim seðlabankamönnum.

Önnur hlið málsins sneri hins vegar að virðulegum alþm. þjóðarinnar sem vogaði sér að leita upplýsinga í ríkisbönkum og Seðlabanka: Framkoman, valdhrokinn og fyrirlitningin, sem ég mætti í þessum stofnunum, var svo yfirgengileg að það væri önnur hneykslissaga. Mér var vísað milli deilda í Seðlabanka Íslands með lítilsvirðingarathugasemdum og þótti nú ekki líklegt að ekki stærri kvenmaður hefði vit á öðrum eins göldrum eins og útreikningur vaxta virðist vera í þessum stofnunum. Málið liggur einfaldlega þannig fyrir að það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. hefur sagt. Þetta mál er pólitískt hneyksli og þetta er embættislegt hneyksli.

Þegar ég síðan skrifaði blaðagreinar um þetta mál og þennan ágreining sem var milli viðskiptabanka og Seðlabanka urðu viðbrögð svo sem ekki mikil. Ekki veit ég hvort hæstv. viðskrh. nennti að lesa þær greinar. En þá hefði hann heldur ekki þurft að verða svona hissa þegar hæstaréttardómurinn féll.

Þegar hæstaréttardómurinn var fallinn var viðtal við seðlabankastjóra í fjölmiðlum. Hvað segir hann þá? Hann segir að enginn viðskiptabankanna hafi hækkað vexti eða ákveðið vexti nema að fengnu leyfi Seðlabankans. Það segir hann sjö mánuðum eftir að hann sagði að bankar og sparisjóðir geti ekki krafið viðskiptamenn um önnur og þyngri vaxtakjör í þessum efnum en Seðlabankinn hefur auglýst frá einum tíma til annars. Viðskiptabankarnir gerðu hins vegar allt annað og margir hverjir kröfðust miklu hærri vaxta og nú segir Seðlabankinn: Það var með mínu leyfi.

Er hægt að bjóða hinu háa Alþingi annað eins og þetta? Og svo standa menn eins og þvörur og þykjast ekki bera ábyrgð á einu eða neinu. Hvert er hlutverk Seðlabanka Íslands? Ég held að það væri ekki úr vegi að upplýsa hv. þingheim og hæstv. ráðh. um það. Meginhlutverk Seðlabanka Íslands er „að hafa stjórn á peningamagni í umferð og að framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt“, eins og segir í 3. gr. laga nr. 36/1986. Seðlabanki á jafnframt að varðveita og efla gjaldeyrisvarasjóð er nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Hann á að fara með gengismál, annast gjaldeyriskaup og gjaldeyrissölu og vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um gjaldeyris- og peningamál. Loks er hann banki innlánsstofnana, en jafnframt skal hann einnig skv. núgildandi lögum hafa eftirlit með viðskiptum þeirra. Seðlabankastjórar og stjórn Seðlabankans eru ráðgefandi fyrir ríkisstjórnina í peningamálum. Ég hlýt að spyrja hvort ríkisstjórnin treystir þeirri ráðgjöf eftir það sem á undan er gengið.

Ég held að það gleymist stundum í þessari umræðu hverjir okruðu. Það er alltaf talað um einhverja óhamingjusama menn sem höfðu fé af samborgurum sínum á kannske óvenjulega grófan hátt. En það voru ekki bara þeir sem okruðu. Það voru viðskiptabankarnir sjálfir. Jafnvel lífeyrissjóðirnir. Í þessari vaxtaóreiðu okruðu allir. Fólk sem greiðir neyslu sína með greiðslukortum greiðir dráttarvexti í heilan mánuð þó að það greiði mánaðarskuld sína einum degi seinna en gjalddaginn segir til um. Hver ákvað það? Og hver ákvað hve mikla dráttarvexti þetta fólk greiðir? Það ákveða þeir aðilar sem eru í forustu fyrir fyrirtækjunum sem að greiðslukortunum standa.

Ég hef margsinnis bent á þetta en það hefur enginn hér inni hlustað á það né gert tilraun til að ná einhverri stjórn á þessum óskapnaði. Auðvitað liggur ábyrgðin á okkur öllum sem erum hér inni, á ríkisstjórninni sem ákvað svokallað vaxtafrelsi sem ekkert hefur auðvitað reynst annað en frelsi til að hafa fé af fólki, Seðlabankanum sem ekki leysti ráðgjafarhlutverk sitt betur af hendi en dæmin sanna og okkur hér sem sátum eins og sofandi sauðir og létum þetta viðgangast. Við skulum þá öll axla þá ábyrgð.

Það sem er hins vegar alvarlegt í málinu er að þetta hefur kostað fjölda fólks eignir sínar. Hér hefur farið fram stórfelld eignaupptaka í landinu. Fólk, sem átti kannske íbúð, skipti um íbúð og hélt að það ætti verulegan hluta kaupverðsins í fyrri fasteigninni, það er farið að skulda tvær fasteignir. Og hver ber ábyrgð á því? Við berum ábyrgð á því, hæstv. ríkisstjórn fyrst og fremst og ráðgjafarnir, Seðlabanki Íslands. Það mætti kannske spyrja í framhaldi af þessu: Eitt er nú að segja: Þetta voru mistök og hneyksli, og biðja guð að fyrirgefa sér. En hefur engum dottið í hug að reyna að leiðrétta þetta við fólkið í landinu? Hefur engum dottið í hug að reyna að bæta þessu fólki þessi mistök, því að það er það fólk sem situr uppi með afleiðingarnar af þessu öllu saman.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt meira. Ég hef gert mitt besta hér á hinu háa Alþingi til að fá menn til að vakna af þessum Þyrnirósarsvefni. Ég þurfti sjálfan Hæstarétt til að koma mér til hjálpar og betur en ekki. Ég mun að sjálfsögðu eins og aðrir hv. þm. kanna vel þetta frv. til vaxtalaga og leita mér ráðgjafar sem ég vænti að sé betri en ráðgjöf Seðlabankans til þess að hér verði ekki aftur mistök. Hins vegar vil ég áður en ég lýk máli mínu vekja athygli á að fyrir þinginu liggur frv. sem ég hef lagt fram ásamt fleiri hv. þm. Alþb. sem litla afgreiðslu hefur hlotið enn og hlýtur sennilega ekki. Það heitir frumvarp til laga um Bankaeftirlit ríkisins. Það hefndi sín illa þegar þessi mál stóðu yfir hversu veikburða bankaeftirlitið er, enda undir stjórn Seðlabankans. Frv. okkar gerir hins vegar ráð fyrir því að Bankaeftirlit ríkisins verði sjálfstæð stofnun sem virkilega geti sinnt eftirliti með peningamálum og vaxtamálum. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að greiðslukortaþjónustan falli undir bankaeftirlitið á sama hátt og verðbréfaviðskipti og önnur viðskipti við innlánsstofnanir.

Ég vil biðja menn að þessu gefna tilefni að reyna að lesa nú þetta frv. og kanna hug sinn um hvort ekki sé talið rétt að styrkja bankaeftirlit ríkisins og gera það að sjálfstæðri stofnun svo að það geti sinnt þeim verkefnum sem því eru falin í lögum um Seðlabanka en það hefur engin tök á að sinna.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að halda svo sem eins og einn fund um hvort verjandi sé að gera ekki minnstu tilraun til þess að bæta þeim sem liðu fyrir mistökin og hneykslið í beinhörðum peningum, vegna þess að það fólk borgaði mistökin og hneykslið.