11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það er óvenjulegt að menn þurfi að ræða mál á tímum þingflokksfunda og ég skal því stytta mál mitt. Ég hefði hins vegar vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram getað átt nokkurn orðastað við hv. þm. Hjörleif Guttormsson þar sem hann vék að mínu máli í umræðum fyrir nokkrum dögum.

Hann vék þá að byggðamálunum og einnig nú. Ég get sagt honum frá því að það er vissulega verið að vinna að byggðamálum í þessari ríkisstjórn. Í þeirri stofnun sem hann vék að áðan og heitir Byggðastofnun er nú unnið að gerð byggðaáætlana, m.a. að róttækri byggðaáætlun fyrir Vestfirði sem að er unnið eftir beiðni Vestfirðinga sjálfra og í samvinnu við þá. Það er unnið að byggðaáætlun fyrir Dali og það er einnig nýverið búið að ráða mann í kjördæmi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar til að vinna að byggðaáætlun í hans kjördæmi, svokölluðu Út-Héraði.

Einnig hefur Byggðastofnun gerst aðili að könnun á jarðgangagerð ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Vegagerð ríkisins til að reyna að finna leiðir til að bæta þar verulega úr í samgöngumálum sem ég tel að víða sé ein meginástæða þess hvernig horfir hjá okkur á landsbyggðinni.

Ég hef ekki mótmælt þeim tölum sem hv. þm. hefur verið með í sambandi við fólksfækkun á landsbyggðinni. Ég hef hins vegar sagt að menn verða að skoða þetta allt saman ef menn vilja fá eitthvert vit í hlutina til að varða þann veg sem við ætlum að ganga til að koma í veg fyrir byggðaröskun.

Hv. þm. sagði áðan að ég hefði verið að tala um aflaverðmætið og hvernig það hefði borist að landi og hverjir hefðu unnið að því að kaupa þau tæki sem þennan afla hafa sótt.

Það hefur verið gert meira, hv. þm. Ég minntist einnig á uppbyggingu skólanna af því að hv. þm. var að tala um þjónustuna. Ég nefndi uppbyggingu ákveðinna skóla í hverju einasta kjördæmi landsins. (HG: Hvenær var það gert á Egilsstöðum? Er það ekki úti á landi?) Ég var að nefna á hvaða árum það hefði verið gert, hv. þm. Það var gert á þeim áratug sem þú, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, varst að gagnrýna að Framsfl. hefði verið við völd og ekkert hefði verið að gert á þeim árum. Ég nefndi þá skóla og skal gera það aftur, af því að hv. þm. var fjarverandi umræðuna þá. Ég nefndi Fjölbrautaskólann á Akranesi, ég nefndi Menntaskólann á Ísafirði, ég nefndi Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki, Verkmenntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Egilsstöðum, Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og Fjölbrautaskólann í Keflavík.

Það væri út af fyrir sig fróðlegt, en það er ekki ástæða til þess nú eða tími, því miður, en við gætum seinna velt því fyrir okkur hvort þessi uppbygging í skólakerfinu hefur ekki tvímælalaust orðið til þess að fjölgun hefur orðið í Háskóla Íslands. Það er ljóst mál. Og það er öruggt mál að sú fjölgun hefur að stórum hluta orðið til vegna uppbyggingar þessara skóla úti á landsbyggðinni þar sem þeim er þar búa var séð fyrir betri aðstöðu til náms.

Ég hef hins vegar velt því fyrir mér hvort þessi uppbygging framhaldsskólanna eigi einhvern þátt í þeirri byggðaröskun sem orðið hefur. Hvernig kemur þetta inn í myndina? Þeir nemendur sem fara af landsbyggðinni núna í Háskóla Íslands, hvernig er búsetu þeirra háttað? Ég velti þessu fyrir mér og ég sagði um daginn í ræðu minni að það væri stórmál fyrir okkur sem úti á landi búum og viljum efla landsbyggðina að finna leiðir til að búa þessu fólki, sem leitar til náms við hina æðri skóla, starfsvettvang heima. Það er eitt meginmálið í mínum huga að búa þannig um og að því eigum við vissulega að vinna.

En herra forseti. Ég hefði getað sagt mikið meira um þessi mál, en ég ætla að láta staðar numið, enda er komið langt fram á tíma þingflokksfunda.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.