12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. fjallar um undirbúning þess að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður. Um þetta mál hefur raunar verið rætt áður - og svipuð mál þessu - og leyfi ég mér af því tilefni að vitna til umræðna sem urðu í Sþ. strax í marsmánuði árið 1978. Þá var hér til umræðu þáltill. um sparnað í fjármálakerfinu, hét málið víst, sem við hv. þm. Pétur Sigurðsson fluttum. Þar var mjög rætt um bankamálin og útþenslu bankanna og stungið upp á því að bankar yrðu sameinaðir, þeim yrði breytt, stjórnum þeirra, og að Alþingi tæki í taumana og stöðvaði þá útþenslu sem öllum er nú nærri því einum áratug síðar ljóst að full þörf var á.

Bankamálin ein sér hafa verið rædd svo mikið að ástæðulaust er að ég eyði mjög mörgum orðum að því að ræða þau nú. En tækifærið vil ég þó nota, með leyfi forseta, til að lesa örlítið upp úr framsögu með þessari till. frá árinu 1978 í marsmánuði eða fyrir níu árum. Þar segir m.a.:

„Þá skal vikið nokkrum orðum að fjárfestingarlánasjóðum. Bankamálanefndin telur að þeir séu nú 17 talsins, en gjarnan megi fækka þeim niður í 9. Nefndin leggur raunar til að um verði að ræða 62% fækkun fjármálastofnana og 27% fækkun afgreiðslustöðva innlánsstofnana, en leggur áherslu á að alls ekki sé gert ráð fyrir að minnka þjónustuna í hinum dreifðu byggðum, heldur telur hún athuganir sýna að þrátt fyrir fækkun afgreiðslustöðva yrði tryggð þjónusta viðskiptabanka og sparisjóða í öllum byggðarlögum sem nú njóta slíkrar þjónustu.“

Þá er lauslega vikið að þeim tvíverknaði sem víða er á sviði fjármálastofnana, t.d. að því er varðar Seðlabankann annars vegar og Framkvæmdastofnun ríkisins hins vegar. Þar hygg ég raunar að um sé að ræða eitt mesta vandamálið. Leyfi ég mér í því sambandi að benda til grg. þáltill. þar sem segir:

„Sjóðakerfið og hagstjórnarbáknið í heild þarf líka að taka til gagngerðrar endurskoðunar, enda enginn efi á því, að þann frumskóg má grisja, engum til meins, en öllum til góðs. Þessi aðgerð þyrfti að spanna allt sviðið frá Þjóðhagsstofnun til minnsta sjóðsins.

Í álitsgerð bankamálanefndarinnar er talað um tvíverknað. Ég held að í mörgum tilfellum væri réttara að nefna þetta verkleysu. Því miður er staðreynd að margt af því, sem verið er að puða við, er gagnslaust og ekki nóg með það, heldur flækir það oft mál og torveldar lausn þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið óheillaskref er Framkvæmdastofnun ríkisins var sett á stofn, hana ber að leggja niður og samræma aðgerðir á sviði fjármálakerfisins betur en nú er gert. Bæði yrði þá komið við miklum sparnaði, en það sem meira er um vert að mínu mati: kerfið yrði einfaldara og ekki jafnvonlitið og nú er fyrir alþýðu að brjótast gegnum frumskóginn. Samt lesum við í blöðum um það hneyksli að Framkvæmdastofnunin hyggi á stórfelldar byggingarframkvæmdir í trássi víð Alþingi og ríkisstjórn. En það mun verða stöðvað. Nú er mælirinn fullur.“

Þetta var sagt úr þessum ræðustól í marsmánuði 1978. Því miður tókst ekki að stöðva þessar stórfelldu framkvæmdir Framkvæmdastofnunarinnar og þá óheillaþróun sem í því fyrirtæki varð og hefur orðið. Að vísu hefur stofnunin að nafninu til verið lögð niður, en það er enn eftir að ræða um fyrirkomulag allra þessara fjármálastofnana og nú gefst til þess gott tækifæri.

Eins og ég las upp var þegar 1978 um það rætt að athuga um skipulagsbreytingar allt frá smæsta sjóðnum til Þjóðhagsstofnunar. Það mál er jafnknýjandi nú og þá var. Og af því að nú er sérstaklega rætt um Þjóðhagsstofnun er sjálfsagt að huga líka að fyrirkomulagi í öðrum stofnunum, enda er í grg. getið um að aðrar stofnanir geti sinnt hlutverkum þeim sem nú eru á vegum Þjóðhagsstofnunar, sérstaklega að því er varðar t.d. þjóðhagsreikninga. Þeir eru auðvitað miklu betur komnir í Hagstofunni og eiga þar heima en í einhverri stofnun sem búin hefur verið til á síðari áratugum. Þetta hefur allt verið að þróast. Ég hygg að að mörgu leyti hafi þar verið um óheillavænlega þróun að ræða, en þá er að breyta til og bæta úr.

En ég er ekki einn um þessa skoðun. Einmitt daginn áður en þessi þáltill. var flutt birtist hið merkasta viðtal í Morgunblaðinu við þann mann sem nú veitir Þjóðhagsstofnun forustu um sinn, Þórð Friðjónsson, sem settur var til að gegna þar störfum um hálfs árs skeið í fríi skipaðs forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Mig langar nú, með leyfi forseta, að gera grein fyrir sjónarmiðum Þórðar og hans hugleiðingum um hvað gera megi til að bæta um í þessu efni. Viðtalið er ekki það langt að ég hygg að ég geti lesið meginþorra þess.

Fyrst er að því vikið af blaðamannsins hálfu að samkvæmt lögum um Þjóðhagsstofnun, sem eru frá árinu 1974, eigi hún að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum. Í lögunum eru verkefni hennar síðan nánar skilgreind. Þórður sagði að þau væru einkum af þrennu tagi:

1. Efnahagsráðgjöf og sú vinna sem hún byggist á og tengist.

2. Hagsýslugerð, þ.e. þjóðhagsreikningar og atvinnuvegaskýrslur og ýmis önnur skýrslugerð.

3. Hagrannsóknir. Hann sagði að þessi verkefni sköruðust að nokkru við verkefni Hagstofu Íslands og Seðlabankans, en minna við starfsemi annarra stofnana.

Starfsmenn Þjóðhagsstofnunar eru nú 22 að tölu, flestir hagfræðingar. Rekstur stofnunarinnar kostaði á síðasta ári um 35 millj. kr. og greiða ríkissjóður og Seðlabankinn í sameiningu kostnað af starfseminni. - Síðan segir Þórður:

„Það má segja að í aldarfjórðung hafi skipulag hagsýslugerðar og efnahagsráðgjafar á vegum hins opinbera verið að mestu í sama farvegi. Áður en Þjóðhagsstofnun kom til sögunnar árið 1974 störfuðu hér áþekkar stofnanir, Efnahagsstofnunin og síðar Framkvæmdastofnunin. Eina breytingin er að sérstakt embætti efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar var sett á laggirnar fyrir sex árum, en þar er aðeins um starf eins manns að ræða og getur það því ekki talist róttæk umskipti.

Þó ekki væri nema af þessari ástæðu“, hélt hann áfram, „er ljóst að tími er kominn til að taka þessa starfsemi til endurmats og e.t.v. stokka hana upp. Sú breyting sem orðið hefur á yfirstjórn Þjóðhagsstofnunar er svo önnur ástæða sem gefur tilefni til þess að skoða þessi mál nánar.“

Síðar í viðtalinu segir Þórður: „Að sjálfsögðu er eðlilegt að sníða þessa starfsemi að þörfum hvers tíma. Höfuðmarkmið slíkra breytinga er að mínu mati að tryggja sem árangursríkasta efnahagsráðgjöf og efla fagleg vinnubrögð.“

Síðan eru greindar þær breytingar sem hugsanlegar eru:

1. Tilfærsla á verkefnum milli þriggja stofnana, Þjóðhagsstofnunar, Hagstofu og Seðlabanka. Í þessu sambandi hefur oftast verið nefnt að flytja mætti þjóðhagsreikninga og atvinnuvegaskýrslur frá Þjóðhagsstofnun til Hagstofu. Enn fremur hefur verið bent á að flytja mætti uppgjör greiðslujafnaðar frá Seðlabanka til Hagstofu.

Síðan víkur hann að öðrum möguleikum, ég skal ekki fara að lesa það allt saman upp, en segir síðan: „Færa má rök fyrir þessum leiðum öllum og líka fyrir óbreyttri skipan mála. Óbreytt skipan hefur þann kost að líklega þarf ekki að auka fjárveitingar til þessara verkefna og nýta má áfram starfskrafta Þjóðhagsstofnunar við ólík verkefni. Þótt stofnunin starfi formlega í tveimur deildum er það svo í reynd að menn ganga þar á milli og vinna bæði við það að afla gagna um fortíðina og leggja dóm á þau og spá um framvindu mála. Þetta er hins vegar nokkur ókostur því að stofnuninni er þannig ætlað ákveðið eftirlitshlutverk með sjálfri sér. Því er e.t.v. fýsilegt að flytja „fortíðina“, ef svo má komast að orði, til Hagstofunnar og greina á milli spár og ráðgjafar annars vegar og hins vegar uppgjörs og mats á því hvernig þróunin varð.“

Þetta hygg ég að sé svo augljóst mál að ekki þurfi um það að fara fleiri orðum, að það sé ekki eðlilegt að sama stofnunin geri áætlanir og reikni síðan út hvort þær áætlanir hafi staðist eða ekki. Það er nærri því yfirmannlegt held ég að sömu aðilar geri það algjörlega hlutlaust. Ég held að þessi athugasemd sé þess vegna á rökum reist.

Niðurlagsorð í þessu viðtali við Þórð eru svohljóðandi: „Þórður Friðjónsson kvaðst hafa velt því talsvert fyrir sér hvaða leið heppilegast væri að fara í þessum efnum, en hann væri ekki kominn að einhlítri niðurstöðu, enda væri hann ráðgjafi í þessu efni en ekki sá aðili sem tæki ákvörðun um skipulag þessarar starfsemi. Einu vildi hann þó mæla sérstaklega með á þessu stigi, og það var nauðsyn þess að yfirmaður efnahagsráðgjafar væri ekki æviráðinn embættismaður, heldur ráðinn til ákveðins árafjölda, t.d. fjögurra ára eða fylgdi jafnvel ríkisstjórnum, „Ef gerðar verða skipulagsbreytingar mun ég hins vegar leggja áherslu á það að þær verði gerðar í samráði við starfsfólk stofnunarinnar. Ég á eftir að ræða þessi mál betur við starfsmennina hér á Þjóðhagsstofnun og mun gera ríkisstjórninni grein fyrir þeim viðhorfum þegar þetta mál verður tekið til umfjöllunar á þeim vettvangi, sagði hann.“ Þetta voru niðurlagsorðin.

Till. til þál. fjallar einmitt um það að slík athugun sem þessi fari fram og hún hefjist strax. Auðvitað er það mjög æskilegt að gera það nú þar sem sá maður sem vill endurskoða þessa starfsemi er einmitt forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar um þessar mundir. Enginn veit hve lengi það verður að vísu, því að núverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur tekið sér frí að mig minnir til 1. júní eða 1. júlí, hvort sem hann hyggst koma þar til starfa aftur eða sitja á þingi.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég hygg að allir hv. alþm. geri sér grein fyrir því að þarna má gjarnan stokka upp eða í öllu falli gera þá athugun sem tillagan hljóðar um, og ég vænti þess þess vegna að þessi þáltill. hljóti hér mikið og yfirgnæfandi fylgi og verði afgreidd á þessu þingi.