12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég verð að játa að ég er ekki alveg viss í minni sök hvort eigi að taka þessa tillögu alvarlega. (EKJ: Svo sannarlega.) En grg. sem er upp á tíu línur og framsöguræðan sem við heyrðum áðan, sem var frá árinu 1978, og upplestur úr viðtali við settan forstöðumann Þjóðhagsstofnunar bendir nú ekki til þess að það hafi verið lögð of mikil vinna eða hugsun í þessa tillögu. Ef það er hins vegar svo, sem ég vil nú ekki endilega væna þá heiðursmenn um sem hafa skrifað nafnið sitt hér undir, að þetta sé meint í pólitísku árásarskyni á forstöðumann Þjóðhagsstofnunar í því tilefni að hann hefur nú (Gripið fram í: Síður en svo.) gefið kost á sér til stjórnmálastarfa . . . Síður en svo, gott að heyra það. En vilji svo til að það hafi verið meiningin þá snúast nú vopnin heldur betur í höndum manna. Flm. tala um stofnun hans. Hverjir ætli beri ábyrgð á þessari stofnun? Er þetta stofnun þess manns sem hefur verið valinn til þess að veita henni forstöðu? Er þetta stofnun Jóns Sigurðssonar? Er þetta ekki efnahagsleg ráðgjafarstofnun, raunveruleg hagdeild ráðuneyta sem hefur verið sett á laggirnar undir ýmsum nöfnum og starfrækt og á sér reyndar sögulega séð nokkuð góða nauta þar sem eru landsfeður á tímabili frægrar viðreisnarstjórnar? Þegar komist er þannig að orði að nú sé tækifærið, ber þá að skilja það svo að það sé fyrst nú, þegar stjórnunar og hæfileika Jóns Sigurðssonar nýtur ekki lengur við, að flm. telji tímabært að leggja þessa stofnun niður? Það er ágætt að heyra það af vörum flm. að þetta er ekki svo ómerkilegt mál að það snúist um pólitískt árásarefni á einn einstakling, sem reyndar nýtur viðurkenningar sem einhver fremsti hagfræðingur þjóðarinnar og embættismaður, heldur vaki eitthvað annað fyrir þeim.

En þá er spurningin: Hversu mikla vinnu hafa þeir lagt í þetta, hversu skynsamlega er hér að málum staðið, hver er rökstuðningurinn fyrir því? Af framsöguræðu 1. flm., sem aðallega var frá árinu 1978 og ekki verri fyrir það, segir hann, má ráða að fyrir honum vaki sparnaður í ríkisrekstri. Hann nefnir til að í þessari álitsgerð bankamálanefndar frá umræddu ári hafi verið talað um að sameina banka. Hv. flm., ríkisstjórnin sem nú situr hefur aldeilis haft tækifæri til þess að sameina banka, fækka ríkisbönkum, koma á hagræðingu í ríkisbankakerfinu, gera breytingar á stjórnkerfi í ríkisbönkunum, draga úr hinni pólitísku miðstýringu. Þörf ábending frá 1978 sýnir hvað lítið hefur áunnist í tíð hæstv. ríkisstjórnar. En það er stórt mál, sameining bankanna, eins og öllum er kunnugt um, fækkun ríkisstofnana. Tvíverknaðurinn sem þarna er unninn, einföldun á kerfi. Hann jafnvel minnti á Framkvæmdastofnun ríkisins og hina nýju höll sem þar var reist. Hverjir báru ábyrgð á því? Eru þetta einhver rök fyrir nýskipan hagrannsókna á Íslandi og efnahagsráðgjöf, og snertir þetta Þjóðhagsstofnun? Því miður, herra forseti, þá er það nú raunverulega ekki svo.

Hvað er Þjóðhagsstofnun? Þjóðhagsstofnun er núna raunverulega hagdeild stjórnarráðsins, þ.e. margra ráðuneyta. Fyrir flm. vakir sparnaður, hagræðing, fækkun starfsmanna. Halda menn, ef þessari starfsemi yrði dreift, t.d. á ráðuneytin velflest, að það mundi leiða til fækkunar starfsmanna? Í máli flm. kom fram að hjá Þjóðhagsstofnun starfa 22 einstaklingar. Þeir sem til þekkja í ríkiskerfi vita að þetta er vinnustofnun, þarna vinna hæfir menn, þeir eru tiltölulega mjög fáir, hún hefur ekki þanist út. Hún er ekki stóra dæmið um Pétursprinsipp eða Parkinsonslögmál. Þeir menn sem, eins og hv. frsm., hefðu hug á að taka kerfinu tak og stöðva útþenslu þess hafa haft til þess ærin tækifæri og ættu að bera annars staðar niður ef þeir raunverulega vilja láta taka mark á tillöguflutningi sínum. Ég nefni sem dæmi: Í Framkvæmdastofnun ríkisins, lánadeild ekki með talin, starfa 27 menn að rannsókna- og áætlanagerð. Í Seðlabanka Íslands, sem hv. flm. hefur nú stundum haft á orði að þyrfti kannske svolítið að taka tak og setja við skorður, starfa 24 menn bara í hagdeild, þ.e. fleiri heldur en hjá Þjóðhagsstofnun. Fróðlegt væri að fá upplýst hvað stöðugildin og mannahaldið hjá Seðlabankanum er í heild. Hjá Fiskifélagi Íslands starfa 25 manns, hjá Búnaðarfélagi Íslands starfa 5, á reiknistofu, hjá Fasteignamati ríkisins 25. Og ef taldir væru þeir aðilar aðrir í stjórnkerfinu sem fást við hagsýslumálefni, upplýsingasöfnun, úrvinnslu upplýsinga, ráðgjöf af ýmsu tagi 22, alls 127. Í Þjóðhagsstofnun 22, segi ég, og það er viðurkennt ósköp einfaldlega sem staðreynd að þeir menn sem þar starfa eru ekki dæmið sem rétt er að taka, það gæti nefnilega valdið miklum misskilningi, um bruðl, sólund, stjórnleysi eða léleg vinnuafköst.

Þá er spurningin um það: Er hér um að ræða raunverulega hagræðingu? Færi vel á því að eitthvað af þessum verkefnum væri t.d. hjá Hagstofu? Um það hafa menn fjallað á öllum tímum og það væri fróðlegt að vísa hv. flm. til greinargerðar frá viðreisnarárum og rökstuðnings viðreisnarráðherra í því máli. Við verðum m.ö.o. að gera greinarmun á hreinni skýrslusöfnum, bara gagnasöfnum, ég tala nú ekki um frá liðinni tíð, það eru sígild verkefni Hagstofu. Ef við hins vegar erum að ræða um úrvinnslu hagrænna upplýsinga ei það raunverulega önnur hlið af sama máli sem heitir efnahagsleg ráðgjöf. Þeir menn sem ekki vinna úr upplýsingum gefa ekki öðrum ráð í efnahagsmálum. Gott dæmi um þetta er spurningin um þjóðhagsspár og þjóðhagsreikninga. Núverandi tilhögun er sú að sérfræðingar Þjóðhagsstofnunar vinna jöfnum höndum að gerð þjóðhagsspár og þjóðhagsreikninga. Þetta er hagkvæmt m.a. vegna þess að með þessu móti nýtist sérfræðikunnátta starfsmanna á báðum þessum sviðum, þessi tengsl eru nauðsynleg og aðgreining þessara tveggja þátta, t.d. með breyttri verkaskiptingu á milli Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu, mundi óhjákvæmilega valda umtalsverðum viðbótarkostnaði vegna fjölgunar starfsmanna á Hagstofu. Ég tók eftir því að flm. sagði: „Einn helsti gallinn í þessu flókna kerfi sem við höfum er tvíverknaður.“ Tillagan sem hér er flutt, sem væri t.d. um það að skipta þessum verkefnum á milli Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar, er tillaga um tvíverknað. Þannig að í fljótu bragði virðist tillagan fela í sér raunverulega, í fyrsta lagi, skakka mynd, að draga hér upp skakka mynd af Þjóðhagsstofnun sem slíkri, að taka hana sem dæmi um stofnun sem illa vinnur eða þar sem starfsmannafjöldi hefur vaxið óhóflega, í annan stað um að koma í veg fyrir tvíverknað, því er þveröfugt farið, þetta mundi auka tvíverknað. Í þriðja lagi, vegna þess að auðvitað er sjálfsagt að ræða hluti, hvort þeim megi betur fyrir koma, Þjóðhagsstofnun er hagdeild margra ráðuneyta. Hvernig hugsa flm. sér að því verði fyrir komið? Hugsa þeir sér að hagdeildir verði starfandi í hverju ráðuneyti? Halda menn að það leiði til sparnaðar eða fækkunar? Eða eru menn raunverulega að flytja tillögu um hina upphaflegu skipan frá viðreisnartíð, að Þjóðhagsstofnun sinni ráðuneytisstarfi, verði raunverulega efnahagsráðuneyti og beri þá það nafn sem því svarar? Það er ekki ljóst af máli flm.

Ég held að þau rök sem hv. flm. hefur flutt, þau út af fyrir sig, standist ekki og þess vegna læðist að mér sá grunur að þessi till. sé sýndarmennska og því miður að það hafi ekki verið lögð nein vinna í að undirbúa málið. Ef menn hefðu lagt þá vinnu á sig hefðu þeir að sjálfsögðu ekki bara nefnt Þjóðhagsstofnun og ekki bara nefnt að nú sé tilefni til vegna þess að núverandi forstöðumaður hennar hefur horfið til annarra starfa eða kannske í þann veginn. Þá hefðu menn litið á efnahagsráðgjöfina í heild, þá hefðu menn litið á allar þær ríkisstofnanir sem sinna þessum málum, þá hefðu menn leitt rök að því í grg. hvernig þeir hygðust leysa vandann með því að nefna stofnanirnar allar saman.

Herra forseti, ég skal ljúka máli mínu. Ég er ekki að halda því fram að ekki komi til álita að breyta núverandi skipan mála, fjarri því. Ég er bara að vekja athygli á því að þessi till. er ekki framlag til þeirrar umræðu, og margt í henni, jafnvel þessari stuttu grg., fremur ósmekklegt og jafnvel villandi að því er varðar upplýsingar. Það kann vel að vera að breytinga sé þörf, en þá held ég að sú viðleitni ætti að beinast fyrst og fremst að því að gera heildarúttekt á öllum þeim fjölmörgu stofnunum með 200 manna starfsliði sínu sem að þessum málum vinna og koma þá með tillögur um hvernig raunverulega mætti koma fram sparnaði, bættri nýtingu, en þó taka tillit til þeirrar eðlilegu verkaskiptingar að það er sitt hvað gagnaöflunin sjálf og svo hins vegar það sem ekki verður aðskilið, úrvinnsla efnahagslegra upplýsinga og efnahagsleg ráðgjöf. Auðvitað kæmi vel til greina að því yrði fyrir komið í efnahagsmálaráðuneyti sem væri eitt ráðuneytið í stjórnarráðinu, en það var einmitt sú skipan sem við byrjuðum með á sjöunda áratugnum.

Það er ekki tími til þess að rekja þetta mál frekar. Ég geri sem sagt ekki ráð fyrir því að þetta teljist til þeirra stóru mála sem ættu að hafa forgang hér á Alþingi Íslendinga. Það hlýtur hins vegar réttilega að vera verkefni nýrrar ríkisstjórnar, ekki af þessu tilefni heldur vegna þess að það er tímabært, að líta þá fyrst og fremst til þeirra stofnana, og það hefur hv. flm. nú oft gert, þar sem raunverulega er ástæða til að líta á starfsmannafjölgun og huga að tillögum um bætta nýtingu og ráðdeild.