12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er vegna tveggja atriða sem hafa komið fram í þessum umræðum að ég tek til máls nú. Það er ekki vegna þess að ég sé að blanda mér í kosningabaráttu þeirra hv. þm. sem hafa verið að tala að undanförnu heldur vil ég sem væntanlegur stuðningsmaður þessarar till. taka skýrt fram að það er ekki vegna neinna persónulegra árása á fyrrv. forstjóra þessarar stofnunar, Jón Sigurðsson, að ég mun greiða till. atkvæði og þá enn síður vegna árása á þann sem gegnir þessu starfi nú. Þessir menn eru báðir með virtustu embættismönnum þjóðarinnar og það kemur ekki til mála og ég veit að það er enginn sem stefnir að því þótt till. þessi verði samþykkt að þessir menn verði settir út á kaldan klaka jafnvel þótt hv. væntanlegur þm. Jón Sigurðsson muni ekki ná kosningu í Reykjavík. Auðvitað mun hann þó geta gegnt opinberu embætti áfram og ég trúi því ekki að nokkur sjálfstæðismaður muni leggja stein í götu þess, ekki síst þegar upplýst er að fyrrv. formaður Sjálfstfl. mun hafa útvegað honum þetta embætti.

En það var vitnað í till. sem ég var meðflm. að á sínum tíma með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni í sambandi við fækkun í starfsmannaliði bankanna. Það vill svo til að ég hef í tvö ár reynt að fylgjast með þessu og vinna að því. Það er að sjálfsögðu afskaplega erfitt þegar þjónusta þessara stofnana eykst stöðugt á öllum sviðum og enn þá eru t.d. ríkisbankarnir í hreinni samkeppni sín á milli um alla starfsemi útibúa. Það hefur þó komið fram nú í því sem hefur verið ákveðið með Útvegsbankann, það er sérákvæði sem hæstv. viðskrh. hefur fengið samþykkt í stjórnarflokkunum, að það verði nú tekin upp markviss aðgerð til að spara á þessu sviði. Þetta var í eina tíð reynt að gera, fyrir nokkrum árum þegar Landsbanki Íslands tók við erfiðleikasvæði af Útvegsbanka Íslands, Austfjörðum, og hefur þjónað þeim síðan. Þar sem liggur fyrir að Búnaðarbanki Íslands mun vera reiðubúinn að borga 200-300 millj. í lausnargjald til að losna við Útvegsbankann mætti hugsa sér að hann tæki þá að sér að sjá um Suðurnesin sem er mjög erfitt svæði fyrir Útvegsbankann. Þetta mundi spara gífurlega mikla peninga og þá gætu hinir ríkisbankarnir komið sér saman um að sameina og leggja niður útibú á þeim stöðum þar sem þeir eru allir þrír jafnvel með útibú.

Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Birgi Ísleifi að Jón Baldvin Hannibalsson talar tungum tveim. Hann talar opinberlega á fundum úti um land þar sem hann fer geyst um og vill brjóta niður múrana, en engu er líkara en hann sé að lemja höfðinu við stein í hvert sinn þegar að því kemur að ræða skynsamlegar tillögur um að spara í hinu opinbera kerfi ef þannig vill til að krati eigi þar í hlut.

En það er ekki það sem ég á við. Mér er sama hvað maðurinn heitir eða hvar í pólitík hann er. Ef hægt er að gera þetta skynsamlega er það auðvitað öllum til góðs, ekki aðeins stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum heldur þjóðinni í heild. Ég held að það sé sá hluti tillögunnar, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er 1. flm. að, sem við eigum að hugsa um og athuga, ekki hvort ályktunartillagan hefur fleiri orð eða færri að geyma. Það þurfa t.d. ekki að vera mörg orð í till. sem lögð er fram sem vantraust á eina ríkisstjórn. Þau geta verið örfá.