28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

44. mál, húsnæðismál

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem kom fram í svari hæstv. félmrh. Hann hefur greint frá því sem er að gerast í þessari milliþinganefnd. Ég er formaður þessarar nefndar og taldi þess vegna rétt að gera grein fyrir því frá mínum bæjardyrum séð.

Ég get vissulega tekið á mig og á auðvitað minn þátt í því að þetta starf hefur gengið hægar en æskilegt hefði verið, en við höfum þó, eins og hefur komið fram í svari hæstv. ráðherra, haldið allmarga fundi í sumar. Það er oft erfitt að ná mönnum saman til fundahalda yfir sumartímann. Í þessari nefnd eru þm. og aðrir fulltrúar sem gegna ýmsum störfum og erfitt að ná þeim öllum saman. En við höfum haft undirnefnd í þessari nefnd einnig sem hefur mætt alloft á fundinn og haldið átta bókaða fundi, eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra, og auk þess höfum við haldið óformlega fundi þess á milli. Við erum nú að vinna að lokaskýrslunni vona ég og leyfi mér að fullyrða að það þurfi ekki að dragast marga daga.

Ég vil aðeins, herra forseti, að lokum segja vegna fsp. frá hv. 3. þm. Reykv. um húsnæðisafsláttinn að það fellur ekki undir skilgreiningu félmn. Nd. Alþingis frá því í vor, er ekki á þeim lista sem beint var til þeirrar nefndar sem ég veitti forstöðu. Varðandi það sem hann sagði um tengsl verkamannabústaðakerfisins við hið nýja húsnæðislánakerfi vil ég aðeins segja að á undirnefndarfundunum, sem við höfum haldið í sumar og fengið þá til viðtals við okkur fulltrúa frá aðilum vinnumarkaðarins og öðrum þeim sem tóku þátt í undirbúningi málsins í vor, hafa menn almennt talið, að vísu ítrekað að það sé þeirra persónulega skoðun, að þetta nýja húsnæðislánakerfi þurfi að sanna gildi sitt og það þurfi nokkurn tíma til að átta sig á því hvernig þessi tvö kerfi kunni að vinna saman í framtíðinni.