12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þm. Kvennalistans guma mjög af því að þær séu í allt öðrum flokki og allt annars eðlis en annað fólk sem situr á Alþingi. Það gerði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir áðan.

Ég vona hins vegar að við hinir, sem tilheyrum þessum gömlu flokkum sem hún talar um, berum gæfu til að tileinka okkur ekki þau vinnubrögð sem þm. Kvennalistans hafa tileinkað sér t.d. í blaðaskrifum í Morgunblaðinu um að ljúga beinlínis til um gang mála á Alþingi og hvernig staðið er að málum og tillöguflutningi hér. Ég vona að við berum gæfu til þess. (KH: Vill þm. nefna það?) Vill þm. ekki lesa grein hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 5. febr.? Þá getur hún gengið úr skugga um þetta. Mjög einfalt mál.

Það var talað um að við hefðum gagnrýnt að þessi till. væri stutt. Í sjálfu sér er það ekki gagnrýni vert að tillögur séu stuttar. En ef þær eru jafnframt svo stuttaralegar að þeim fylgir enginn rökstuðningur eða skýringar er það auðvitað gagnrýni vert. Ég tek undir að það er af hinu góða að tillögur séu ekki mjög langar, en þær verða að vera þannig orðaðar og þannig samdar að þeim verða að fylgja einhver rök. Þessari tillögu fylgja ekki rök. Ég kalla það ekki rök sem er meginpunktur tillögunnar í 2. mgr.: „Nú vill svo til að forstjóri Þjóðhagsstofnunar er að láta af störfum vegna stjórnmálaafskipta og er þá kjörið tækifæri til að afnema stofnun hans.“ Þetta er hinn raunverulegi rökstuðningur fyrir þessari till. Auðvitað er þetta öðrum þræði feiknarleg traustsyfirlýsing. En ég hef hins vegar efasemdir um hvort það sé sæmandi að láta svona þskj. frá sér fara.

Hv. þm. Gunnar G. Schram fór hamförum í ræðustól og talaði um vofur kerfisins og viðhafði ýmislegt annað álíka smekklegt orðbragð. Hann um það. Það er hans mál. Hann gumaði mjög af þeim sparnaði sem þessi till. á að hafa í för með sér. Það er engin grein gerð fyrir því í tillögunni hvaða sparnað hún hefur í för með sér. Þessi till. hefði verið ólíkt betur grunduð ef leidd hefðu verið rök að því að það mætti spara með þessu. Þau rök eru ekki hér. Því miður, fyrir þá sem skrifuðu upp á þessa till. M.ö.o.: ef á að leggja þessa stofnun niður og spara mjög verulega, þýðir það þá að það eigi að hætta að sinna þeim verkefnum sem hún hefur sinnt? Eru hv. þm. að leggja það til? Það segir ekki hér. Á að fela öðrum verkefnin? Á að stofna sérstaka hagdeild við hvert ráðuneyti? Það er ekki sagt hér. Það liggur ekkert fyrir um að þessi tillaga leiði til sparnaðar. Ég tek undir það að allar svona stofnanir eigi að vera endurskoðun og breytingum háðar, en þegar menn koma hér og leggja til að stofnanir verði umyrðalaust lagðar niður án þess að færa fyrir því rök, án þess að styðja rökum að að því verði sparnaður er ekki hægt að bera mikla virðingu fyrir slíkum málflutningi.

Við þm. Alþfl. höfum bent á ýmsar breytingar sem gera mætti í ríkiskerfinu, margvíslegar og á mörgum stofnunum. Auðvitað er þessi stofnun ekkert undanþegin. En þegar rökin eru þau að þegar einn einstaklingur er að láta af störfum til að hefja stjórnmálaafskipti skuli gera hitt og gera þetta eru í rauninni takmörk fyrir því hvað er miklum tíma eyðandi í slíkt. Því læt ég nú máli mínu lokið, herra forseti.