12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mér entist ekki tími til áðan að svara öllu sem fram hefur komið, t.d. ekki þeirri staðhæfingu að Bjarni heitinn Benediktsson hafi verið sérstakur hvatamaður að Efnahagsstofnuninni. Ég veit ósköp vel að Efnahagsstofnun var komið á í hans ráðherratíð og auðvitað vildu menn eitthvað hafa af þessum útreikningum, en að sá stjórnmálamaður hafi verið sérstakur aðdáandi allra þessara efnahagsreikninga og spádóma held ég að ég viti betur um en hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hve mikið traust hann lagði á það. Hann lagði meira traust á fólkið sjálft í landinu og atvinnuvegina og leit á það sem sína skyldu en ekki einhverra annarra að meta það mál. Við skulum láta útrætt um það. Mér finnst það heldur ósmekklegt að vera að draga hans nafn inn í umræðurnar með þessum hætti.

Af hverju var ekki 1. þm. Vesturl. boðið að vera meðflm.? Af þeirri einföldu ástæðu að hann var ekki við þegar þetta var samþykkt á þingflokksfundi. Að vísu var farið að líða á fundinn. Ég hygg nú að hann hafi ekki verið neitt á þeim fundi. Þeir sem vildu skrifa á þetta gerðu það. Það var svo einfalt.

Það var nýjasta hugmyndin, hún er sú frumlegasta sem ég hef heyrt, að það kæmu hagdeildir í öll ráðuneyti landsins og það þurfi að gera það ef uppstokkun verði og Þjóðhagsstofnun lögð niður. Ég hef aldrei heyrt annað eins hugmyndaflug. Það mætti hafa einhverja hagfræðinga og það má gjarnan styrkja fjmrn. og eftirlitsstörf þar. Ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því. Það eru tuttugu og eitthvað hagfræðingar í Seðlabanka. Þeir ættu líklega að geta sinnt einhverjum verkefnum sem ekki færu til Hagstofunnar. Auðvitað er svarið við öllu þessu, hvar á að sinna þessum verkum, Hagstofan, þessi gamla, gróna og góða stofnun. Þar á þetta heima. Þetta verður allt saman athugað nánar.

En hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Þú byrjaðir á að heita því áðan að ætla ekki að drótta því að okkur að við værum með ódrengskap í þessu máli. Hver voru lokaorð þín hér? Þau voru svona: Þetta er sýndartillaga sem er pólitísk árás úr launsátri. Hvert er þetta launsátur? Að flytja till. í Alþingi Íslendinga? Er það launsátur? Hann getur auðvitað ekki svarað.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.