12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

302. mál, umhverfismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar till. sem er til umræðu minni ég á að fyrir þinginu liggja tvö þingmál sem snerta sama efni, að vísu sumpart víðtækari. Það er þskj. 90, 90. mál Sþ., till. til þál. um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd, mál sem við fimm þm. Alþb. fluttum hér inn í þingið, ég held í þriðja sinn, þar sem 1. liður varðandi þessa till. er orðaður svo, með leyfi forseta:

„Í tengslum við endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands verði yfirstjórn helstu málaflokka á sviði umhverfisverndar sameinuð í einu ráðuneyti ekki síðar en í árslok 1987. Þess verði jafnframt gætt að fela heimaaðilum sem flest verkefni á sviði umhverfis- og skipulagsmála.“

Þetta er 1. tölul. þessarar till. sem er í tíu tölusettum liðum þar sem vikið er að helstu þáttunum þar sem átaks er þörf á sviði umhverfismála.

Síðan liggur fyrir þinginu till. til þál. um stefnumótun í umhverfismálum, 1. flm. Gunnar G. Schram og með honum nokkrir þm. Sjálfstfl. Það urðu talsverðar umræður af tilefni þeirrar þáltill. þegar mælt var fyrir henni og þá upplýsti m.a. hæstv. félmrh. stöðu þessara mála hvernig það hefði gengið fyrir sig, ef ég man rétt. Það hefur komið fram við umræðu um þetta mál. Þar var það rakið hvernig þetta hefur rekið alveg í strand á milli stjórnarflokkanna og, eins og ráðherrann tjáði þingheimi, þá væru það ráðherrar Sjálfstfl. sem í heild sinni legðust gegn stofnun ráðuneytis eða sameiningu helstu málaflokka í einu ráðuneyti. Samt koma hér nokkrir áhugamenn um þetta efni úr þingflokki Sjálfstfl. og flytja umrædda till. og skal ég síst lasta það, en sú till. gengur afar skammt, þar sem aðeins er talað um áætlun um stefnumótun í umhverfismálum og að koma á skipulegri yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands og samstarfi aðila. Það er ekki ákvæði um ráðuneyti, en þó er þessi till. út af fyrir sig góðra gjalda verð svo langt sem hún nær. Og nú kemur hv. þm. Páll Pétursson ásamt drjúgum hluta af þingflokki framsóknarmanna og flytur till. til þál. um samræmda heildarstjórn umhverfismála. Þannig liggja málin hér fyrir Sþ.

Hér er vissulega á ferðinni eitt af allmörgum strandmálum ríkisstjórnarinnar, stórum málum og þýðingarmiklum þar sem stjórnarflokkarnir ætluðu sér að gera stóra hluti samkvæmt ákvæðum í stjórnarsáttmála og yfirlýsingum sem síðar komu. Þau eru fleiri mál sem hægt væri að minna á í því sambandi en ég ætla ekki að þreyta menn á langri upptalningu. Ég nefni þó húsnæðismálin sem við reiknuðum með að yrði helsta umræðuefni dagsins hér í Sþ. en hæstv. félmrh. er fjarverandi þannig að svo varð ekki. Þar er sem kunnugt er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar þar sem ekki hefur verið staðið við gefin fyrirheit varðandi félagslegt íbúðarhúsnæði. Um það verður væntanlega rætt þegar þar að kemur og hæstv. ráðherra félagsmála gefur sína skýrslu um þá stöðu mála.

Annað mál sem er eitt af þessum ágreiningsefnum eða sem hefur rekið upp á sker hjá ríkisstjórninni og tengist þessu máli, skipulagningu og fyrirkomulagi umhverfismálanna, er frv. til laga um Stjórnarráð Íslands, þar sem lagt var upp með talsverðum fyrirgangi á fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar og stofnaðar nefndir til þess að semja frv. um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég held að það hafi verið strax 15. nóv. 1983 sem nefnd, sem ríkisstjórnin setti á laggirnar í þessu sambandi, skilaði áliti, fyrsta áliti sínu. Frv. sáum við að mig minnir á síðasta þingi en það komst aldrei lengra en til nefndar, og var bættur baginn, því að þetta frv. hafði nánast ekkert inni að halda sem máli skipti eða horfði til sérstakra umbóta í þessum efnum.

Ég ætla þá að víkja að till. sem hér liggur fyrir. Ég tel að hún sé góðra gjalda verð og ég get tekið efnislega undir þá meginhugmynd sem þar kemur fram, enda endurspeglar hún það sem við höfum margoft lagt til af hálfu Alþb., að taka á þessum málum, að sameina meginþætti umhverfismála a.m.k. undir einu og sama ráðuneytinu, og við höfum gengið það langt að vilja stofna sérstakt umhverfisráðuneyti og værum reiðubúnir til þess eins og fram kemur í till. á þskj. 90. En við erum einnig reiðubúnir að taka á því með því að sameina þetta undir einhverju þeirra ráðuneyta sem fyrir eru, ef það gæti orðið til málamiðlunar. Og við höfum tekið undir, án þess að það sé um það nokkur samþykkt hjá okkur, menn hafa a.m.k. rætt um það að félmrn. gæti vel komið þar til greina, eins og fyrirhugað var af ríkisstjórn 1978.

Ég tel að þeir málaflokkar sem taldir eru upp hér sem þungamiðja í slíku ráðuneyti séu alveg réttmætir, mengunarmálin, friðunarmálin, sem þarna eru upptalin, og skipulagsmálin. Og það eru nú kannske skipulagsmálin sem valda því að menn horfa til tengingar við félmrn. sem hefur skipulagsmálin með höndum svo og málefni sveitarstjórnanna. Ég held út af fyrir sig að ef menn vilja ekki stíga skrefið til fulls og stofna sjálfstætt ráðuneyti, sem full efni væru til málsins vegna, komi það mjög til álita einmitt að tengja þetta félagsmálaráðuneytinu eins og hér er um rætt og oft hefur verið um rætt.

Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með einn þátt sem tekinn er inn í þetta hugmyndasafn umhverfismálanna. Það er undir friðunarmál, lög um landgræðslu. Ég lýsi sérstakri ánægju yfir því að það skuli hér kominn stuðningur við þá hugmynd frá þm. Framsfl. að taka lögin um landgræðslu undir umhverfismálaráðuneyti eða ráðuneytisdeild sem færi með umhverfismál. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að í landi þar sem landeyðing, jarðvegseyðing, er eitt stærsta umhverfismálið væri það sjálfsagt og eðlilegt að taka þennan þátt einmitt undir umhverfisráðuneyti. Ég vil einnig benda á til viðbótar við það sem hér kemur fram, og vísa þá um leið til fylgiskjals sem er með þskj. 90 sem varðar þá málaflokka sem ég teldi eðlilegt að horfa til í sambandi við umhverfisráðuneyti, málaflokka og stofnanir, ég vil nefna þar auðlindamálin að því er varðar rannsóknir, öflun upplýsinga og tillögugerð um stjórnun auðlinda, meðferð auðlinda lands og sjávar. Ég teldi eðlilegt að innan umhverfisráðuneytis væri fjallað um meginstefnumörkun varðandi meðferð auðlinda landsins, innan íslenskrar lögsögu.

Ég nefni einnig landnýtinguna, en það má kannske teljast nokkuð sjálfsagt að hún falli þarna með skipulagsmálunum, því að það er skipulagslegt atriði, og ég vænti þess að hv. flm. geti tekið undir það að skipulag landnýtingar geti átt heima í þessari upptalningu. Ég nefni einnig mál sem er vissulega álitamál og það er þjóðminjaverndin. Það er vissulega álitamál hvort ástæða er til að færa þjóðminjaverndina undir umhverfisráðuneyti, en ég teldi það koma mjög til greina þar sem hún tengist að talsverðu leyti landi og landvernd og vildi koma þeirri ábendingu á framfæri.

Ég tek sem sagt undir meginefni þessarar till. sem er hliðstætt áherslu sem við höfum oft flutt hér inn í þingið af hálfu Alþb. Ég er ekki sammála hæstv. samgrh. um það að vísa beri frá hugmyndinni um sérstakt ráðuneyti umhverfismála vegna þess að verið sé að stofna eitthvert nýtt bákn og það sé hægt að leysa þessi mál með því að samræma störf stofnana og ráðuneyta. Vissulega hefur í einstaka tilvikum þokkalega til tekist í þeim efnum. En hin dæmin eru þó miklu fleiri þar sem ekki hefur verið tekið á málum vegna hindrunar í kerfinu og vegna þess að það vantar þann þunga í stjórn þessara mála sem aðeins fæst í gegnum það að einn ráðherra fari með meginmálaflokkana sem séu sameinaðir undir einu ráðuneyti.

Ég minni á hvernig Danir tóku á þessum málum, líklega 1973, þegar þeir stofnuðu sitt umhverfisráðuneyti. Það væri fróðlegt fyrir menn að fara yfir það. Þar tóku menn út einstaka þætti úr einstökum lagabálkum og felldu undir umhverfismálaráðuneyti. Öll nágrannalönd okkar, líklega flest Vestur-Evrópuríki, hafa þegar, og flest fyrir löngu, stofnað slíkt ráðuneyti umhverfismála.