12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3008 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

302. mál, umhverfismál

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið vingjarnlega undir þessa till. okkar og lýsi ánægju minni með það. Mér urðu það hins vegar nokkur vonbrigði að heyra efasemdarraddir. Það sýnir að vísu glögglega hvers vegna þetta mál hefur ekki náð fram að ganga í þessu stjórnarsamstarfi, að innan Sjálfstfl. eru menn sem eru á móti þeirri skipan sem hér er lögð til.

Út af orðum hæstv. samgrh. langar mig til að segja að við erum ekki að leggja til að stofna neitt bákn. Við erum að leggja til að stofnuð verði skrifstofa innan félmrn. og umhverfismálum þar með gefin bætt aðstaða og aukinn þungi. Af hverju félmrn.? Það er vel hægt að hugsa sér að vista þetta í öðru ráðuneyti en félmrn. Þó er ýmislegt sem mælir með því að það sé fremur vistað þar en í öðrum ráðuneytum. Með hinum ýmsu nágrannaþjóðum er þessu margvíslega farið. Svíar t.d. vista umhverfismál í iðnrn. og svona mætti lengi telja. Við leggjum til félmrn. vegna þess að fyrir því liggur ríkisstjórnarsamþykkt sem gerð var 1978 og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að breyta henni. Ég held að það sé meginatriði að vista þetta á einum stað til þess að koma á bættu skipulagi og samhæfa tiltæka krafta.

Ég er ekki að gera lítið úr ágætu starfi sem margar stofnanir hafa unnið að náttúruvernd og ég er ekki að leggja til að taka þær undan viðkomandi ráðuneytum. Ég sé t.d. ástæðu til þess að þakka fyrir ágæta skýrslu sem okkur hefur borist, greinargerð um kjarnorkuverið og endurvinnslustöðina í Dounreay á Skotlandi sem er samin af Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Siglingamálastofnun ásamt með Magnúsi Magnússyni prófessor, og ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir hans hlut að því máli. En ég held að það sé eðlilegt og það sé umhverfisvernd til framdráttar að gefa henni aukinn status í stjórnkerfinu og þess vegna er þessi till. flutt.

Varðandi hugmyndir hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um að taka þjóðminjavernd og landnýtingu undir þetta, þá eru í mínum huga miklar efasemdir um það.

En okkur er alveg full alvara með þessari till. og ég heyri og veit að fyrir henni er líka hljómgrunnur innan samstarfsflokksins þó að það sé ekki einróma. Fyrir okkur vakir að staðið verði við stjórnarsáttmálann og það ákvæði stjórnarsáttmálans sem að þessu lýtur.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.