12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

313. mál, stjórnstöð vegna leitar og björgunar

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stjórnstöð vegna leitar og björgunar á sjó, landi og í lofti. Meðflm. eru sjö aðrir þm. Sjálfstfl. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hafist verði nú þegar handa um stofnun stjórnstöðvar sem opin sé allan sólarhringinn til leitar og björgunar á sjó, landi og í lofti.

Stjórnstöðin skal vera í tengslum við aðalstöðvar Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli eða flugmálastjórnar og skal lúta framkvæmdastjórn fulltrúa frá eftirtöldum aðilum: Slysavarnafélagi Íslands, Landhelgisgæslunni, flugmálastjórn, Landssambandi hjálparsveita skáta og Landssambandi flugbjörgunarsveita.

Jafnframt skal hafa skipulegt samráð og samstarf við aðrar björgunarsveitir og opinberar stofnanir sem sinna öryggismálum.

Fulltrúar allra þeirra, sem björgunarmálum sinna, tilnefni menn í björgunarráð sem verði ráðgefandi og stefnumarkandi fyrir framkvæmdastjórn og hittist eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, svo og ávallt eftir miklar björgunaraðgerðir, til þess að bera saman bækur. Björgunarráð skal jafnframt samræma æfingar þeirra sem starfa að björgunarmálum.

Þeir fulltrúar, sem sæti eiga í framkvæmdastjórn, skulu hafa aðstöðu í stjórnstöð.

Rekstur stjórnstöðvar greiðist úr ríkissjóði og skal samgönguráðherra skipa formann framkvæmdastjórnar og varaformann.“

Þarna er miðað við að ná á einn stað þeirri miklu þekkingu og reynslu sem er hjá allmörgum aðilum sem sinna björgunarmálum í landinu, að á einni og sömu stundu sé hægt að grípa til allra þátta sem mögulegt er að nýtist þegar neyð kemur upp. Um er að ræða stjórnstöð sem á ekki í sjálfu sér að raska eða hafa mikil áhrif á daglegt starf og skipulag hinna ýmsu björgunaraðila, hjálparsveita og opinberra stofnana, heldur að á neyðarstundu sé vakt sem grípur til allra þátta.

Þegar talað er um í tillgr. t.d. að fulltrúar í björgunarráði eigi að samræma æfingar þeirra sem starfa að björgunarmálum, þá er þar í rauninni verið að tala um samræmingaræfingar beinlínis í tengslum við notkun á möguleikum stjórnstöðvarinnar, ekki að verið sé að tala um skipulag eða æfingar hjá hinum ýmsu aðilum eins og þeir gera þó út af fyrir sig.

Um langt árabil hefur borið á misklíð milli þeirra sem sinna því mikilvæga hlutverki að bregðast við þegar hættu ber að höndum, ýmist á sjó, landi eða í lofti og ósjaldan, því miður, hafa björgunarmenn borið hverjir aðra þungum sökum þegar ágreiningsefni hafa komið upp og því miður hefur orðið misbrestur á því að aðilar bæru saman bækur sínar í einlægni og samræmdu aðgerðir á neyðarstundum. Það er ljóst að þetta hefur yfirleitt komið upp í tímaþröng og menn eru að gera eins vel og hægt er, en ef hægt er að gera betur þá er ástæða til þess að reyna að hnýta það upp.

Í raun er það einnig svo að Íslendingar eru vart hlutgengir í samstarfi við aðrar þjóðir í þessum efnum vegna þess að hérlendis er engin viðunandi stjórnstöð. Það mál hefur verið til umræðu að undanförnu en hefur ekki tekist að afgreiða og taka af skarið þar um. Við höfum hins vegar alla möguleika á því hér á landi að setja upp og skipuleggja stjórnstöð sem getur verið fyrirmynd annarra þjóða um leit og björgun. Þetta er einfaldlega sagt í ljósi þess að hér eru aðilar, Slysavarnafélag Íslands og fleiri, sem hafa sinnt þessu starfi svo ríkulega og vel og safnað svo mikilli reynslu og náð svo góðum árangri þegar á heildina er litið að það er hægt að fullyrða þetta. Hér er í rauninni betra skipulag í þessum málum en víðast þekkist í öðrum löndum og það er jafnframt mikilvægt að ná þarna sama takti hjá öllum aðilum og leysa ákveðna vankanta sem hafa komið upp af og til.

Það hefur skapast ákveðin verkefnaskipting í stórum dráttum hjá þeim aðilum sem sinna björgunarmálum í landinu. Hjálparsveitir skáta, flugbjörgunarsveitir og björgunarsveitir Slysavarnafélags Íslands hafa í meginþáttum sinnt björgunarstörfum inni á landinu. Slysavarnafélag Íslands hefur sinnt langumfangsmestu starfi á strandlengjunni allri, Landhelgisgæslan og flugmálastjórn á úthafinu og flugmálastjórn yfir landinu. Með sameiginlegri stjórnstöð helstu aðila, sem flm. telja rétt að lúti sérstakri framkvæmdastjórn sem sé skipuð til fjögurra ára í senn, ætti að vera unnt að ná mun markvissari stjórn og árangursríkari við björgunaraðgerðir. Þá færi ekkert á milli mála að allir væru með um leið og kall kemur og unnt væri að miða aðgerðir við bestu kosti án tafar.

Nú er neyðarþjónusta í höndum allmargra og svo hlýtur að verða áfram en í stjórnstöð má nýta í neyðartilvikum allt það besta sem tengst hefur starfi fyrrgreindra aðila við sjóslys, flugslys eða slys á mönnum fjarri byggðum. Það er í raun sama hver hefur yfirstjórn eða ábyrgð vegna þess að í okkar landi er alltaf verið að nota sömu tækin og sama mannaflann.

Það er ugglaust hægt að spyrja: Eiga ekki Almannavarnir t.d. að koma inn í svona stjórnstöð meira en gert er ráð fyrir í tillgr.? En þess er að geta að almannavarnaráð hefur í raun allt annað verksvið en fjallað er um í þessari till. Hér er fjallað um slys og hluti sem eru því miður að gerast frá degi til dags á þeim vettvangi sem um ræðir, en almannavarnaráð hefur allt aðra skipulagningu og allt annað starfssvið og á í rauninni við um aðra þætti en þeir aðilar hafa sinnt mest sem hér um ræðir.

Það má einnig spyrja: Á lögreglustjóri t.d. í Reykjavík að koma inn í svona stjórnstöð sem einn af aðalaðilum? Það er mat flm. að það sé þá kannske alveg eins eðlilegt að inn komi lögreglustjórar víðar að af landinu. Þá fer þetta að verða flókið í framkvæmdastjórn og þess vegna er stungið upp á þeim möguleika að björgunarráð sé til staðar þar sem þessir opinberu aðilar geta komið inn í dæmið, aðilar sem ekki eru hér nefndir, svo sem Póstur og sími og fleiri aðilar sem sinna mjög mikilvægum þáttum í fjarskiptum og öðru þegar neyð er uppi.

Þeir aðilar sem hafa vakt allan sólarhringinn, eru með þessa þjónustu þannig til staðar, eru Slysavarnafélag Íslands, flugmálastjórn, slökkviliðið í Reykjavík og slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli, lögreglan, Landhelgisgæslan og Almannavarnir. Flestir hafa vakt með beinu sambandi en aðrir með símsvara. Í sameiginlegri stjórnstöð væri unnt að beina þessu inn á einn vettvang. Hægt væri að koma á skipulagi þar sem stöðugt væri hlustað á neyðarbylgju, þar sem haft væri eftirlit með skipa- og flugferðum, þar sem menn væru á vakt þar að lútandi og auðvelt væri að hafa beint samband við Flugmálastjórn um ferðir flugvéla, beint samband við Tilkynningarskylduna, sem Slysavarnafélagið sér um, um ferðir skipa, og beint samband við alla þá sem hugsanlega þyrfti að leita til í sambandi við skyndilega leit og björgun. Má þar nefna m.a. samskipti við erlendar björgunar- og stjórnstöðvar.

Það hefur vissulega um langt árabil átt sér stað samkeppni milli þeirra aðila sem sinna björgunarmálum. Ekki samkeppni að mínu mati til þess að leysa verkefni af höndum, heldur samkeppni til þess að byggja upp aðstöðu og vera tilbúnir með sem best tæki með sem stystum fyrirvara og það er af hinu góða á meðan samkeppni á milli björgunaraðila er ekki á kostnað öryggis. En þó hefur vissulega oft komið upp gagnrýni og við því má búast þegar menn sinna verkefnum sem þeir verða að taka afstöðu til í skyndi og við erfiðar aðstæður. Ef maður veltir því t.d. fyrir sér hvort er erfiðara fyrir Landhelgisgæslu Íslands að fá á sig gagnrýni eða t.d. Slysavarnafélag Íslands, þá hlýtur það í rauninni að koma sér verr fyrir Slysavarnafélagið með tilliti til þess að það sækir fjármagn beint til fólksins í landinu og þess vegna skiptir miklu máli að það hafi á sér gott orð. Að öðrum kosti er hætta á að dragi úr stuðningi fólks við það mikilvæga starf sem Slysavarnafélagið hefur unnið um árabil. Það er einfaldlega þannig að stærstur hluti af rekstri Slysavarnafélagsins er háður frjálsum framlögum almennings en ríkisstofnunin fær sitt fé á fjárlögum, hvort sem menn eru svo ásáttir um að það sé nóg eða ekki. Það er jafnljóst að starfsemi sjálfstæðu hjálpar- og björgunarsveitanna er ómetanleg landsmönnum öllum og það sterka kerfi, sem Slysavarnafélag Íslands og aðrar björgunarsveitir og björgunaraðilar hafa byggt upp, er margfalt meira virði en margur hyggur og augljóst að ríkisvaldið gæti ekki staðið undir öllum þeim kostnaði sem til félli, ef öll vinna þúsunda sjálfboðaliða og fjárfesting þeirra væri reiknuð inn í dæmið.

Þess er vert að geta að auðvitað eru ýmsir aðilar í opinbera kerfinu sem einnig sinna þessu starfi af hugsjón og áhuga, t.d. starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sem sinna starfi í flugi, þeir sinna þarna áhugamennsku, sem ekki eru greidd laun fyrir, með því að vera á vakt allan sólarhringinn þó að ekki sé greiddur nema hluti af þeirra tíma á launaseðlinum.

Það er höfuðatriði að sú björgunarstarfsemi, sem byggð hefur verið upp af áhugamönnum um land allt, fái að njóta sín sem sjálfstæðar einingar. Þegar á heildina er litið er ljóst að Slysavarnafélag Íslands hefur verið hryggurinn í þessu starfi um land allt. En með því að beina kröftum að einu marki þegar neyð steðjar að og aðgerðir þola enga bið, og tengja saman í eina aðalstjórnstöð þá þræði sem ráða úrslitum um árangur við leit eða björgun, væri stigið mikið framfaraspor sem mundi í senn auðvelda leitar- og björgunarstarf og auka öryggi þeirra sem hjálpar þurfa að njóta á neyðarstund.

Leitar- og björgunarskipulag er að sjálfsögðu fyrst og fremst í þágu þeirra sem bjarga á, en jafnframt í þágu þeirra sem bjarga. Starf björgunarmanna er göfug hugsjón, en leitar- og björgunarstörf eru ekki eingöngu hugsjón þegar til alvörunnar kemur, heldur leggst þar á eitt faglegt mat, sérhæfð skipulagning, fjölþætt tækni og mannleg þekking til úrlausnar á verkefninu. Og það er einmitt hugsunin á bak við það að setja upp sameiginlega stjórnstöð.

Eins og ég hef getið um áður skiptir í rauninni ekki máli hver hefur stjórnina með höndum. En þarna eru settir saman í framkvæmdastjórn þeir aðilar sem helst koma við sögu og hafa komið við sögu um árabil í því starfi sem stjórnstöðinni er ætlað að sinna. Það má segja að það gæti verið eðlilegt t.d. að Slysavarnafélag Íslands gegndi formennsku í slíkri framkvæmdastjórn, en þó er ekki höfuðatriðið að binda það við ákveðið félag. Það getur verið eðlilegt að formennskan sé færð á milli aðila og auðvitað er tekið tillit til slíks því þetta er mál sem er hafið yfir það að vera deiluatriði. Þetta er mál sem varðar einn viðkvæmasta öryggisþátt landsmanna allra og ekki hægt að búast við öðru en því að þeir sem þurfa að taka ákvarðanir í þeim efnum, að velja menn og aðila, taki fullt tillit til þess að reynslan og þekkingin fái að njóta sín.

Það mætti nefna mörg rök fyrir því að ástæða er til að byggja upp stjórnstöð. Ég ætla að nefna þrjú dæmi. Þegar flugslys varð fyrir skömmu á Vestfjörðum fékk Landhelgisgæslan vitneskju af því slysi u.þ.b. 20 mínútum eftir að það var skeð. Þegar slasaður grænlenskur sjómaður var sóttur á haf út fyrir skömmu fékk Slysavarnafélag Íslands vitneskju um það þó nokkru eftir að beðið var um aðstoð. Þegar Suðurlandið fórst í hafi um jólin fékk Landhelgisgæslan tilkynningu um það u.þ.b. einni klukkustundu eftir að útkall kom.

Í sameiginlegri stjórnstöð hefði ekkert af þessu gerst. Þá hefði verið fyrir hendi sú aðstaða, sem að er miðað í þessari till., að menn stæðu frammi fyrir því að nota alla möguleika og vera í beinu sambandi um leið og kallið kæmi. Það er ljóst að stjórnstöð af þessu tagi þarf a.m.k. 100-150 m2 húsnæði. Það þarf að vera vaktsalur, það þarf að vera aðstaða fyrir stjórnendur í leitar- eða björgunarstarfi og það þarf einnig að vera aðstaða fyrir þá aðila sem sinna framkvæmdastjórn eins og fram kemur í tillgr. Þarna væri sem sagt einfaldlega hægt að taka af skarið í þeim efnum að ná sem mestum árangri á sem stystum tíma með sem bestum tækjum og mestum möguleikum og það er einmitt um það sem málið snýst.