12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

313. mál, stjórnstöð vegna leitar og björgunar

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við efni þessarar till. sem ég tel að sé hið ágætasta mál og hef reyndar fulla ástæðu til að styðja hana vegna þess að þetta efni kom mjög til umræðu í öryggismálanefnd sjómanna, þar sem þm. áttu sæti. Sú nefnd var skipuð þann 30. mars 1984 af hæstv. samgrh. Matthíasi Bjarnasyni og í nefndina voru skipuð Árni Johnsen, Valdimar Indriðason, Stefán Guðmundsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Svavar Gestsson, Karvel Pálmason, Kolbrún Jónsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Pétur Sigurðsson. Þrír af þeim sem áttu sæti í öryggismálanefnd sjómanna eru einmitt fim. þessarar till.

Ég hef ekkert við efni till. að athuga, mér finnst hún hin ágætasta og tel að þetta fyrirkomulag sé í raun mjög æskilegt. Þegar þessi mál komu til umræðu í nefndinni hafði ég einmitt mjög sterkar skoðanir á því að þannig fyrirkomulag yrði að komast á og studdi það eindregið inni í nefndinni að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp. Hins vegar varð það úr í tillögum nefndarinnar, en hún gerði tillögur í okt. 1984 til samgrh. og síðan við lok starfa sinna í okt. 1986, að nefndarmenn urðu ásáttir um að hrófla ekki við því forræði til leitar og björgunar sem Slysavarnafélag Íslands hefur með höndum. Mig langar að lesa hér upp 15. atriði í þessum tillögum, með leyfi forseta, en ég les það upp úr skýrslu samgrh. um störf öryggismálanefndar sjómanna sem er þskj. 156. Þar segir:

„Forræði leitar og björgunar. Ekki er ástæða til að hrófla við forræði Slysavarnafélags Íslands til leitar og björgunar við og á sjó, enda áratuga hefð fyrir því. Þau ráðuneyti sem fara með einstaka þætti björgunarmála við og á sjó beiti sér fyrir hliðstæðum samningi og þegar hefur verið gerður um björgunarstörf á landi.“

Það hefur verið vikið að því í framsögu þeirra tveggja ræðumanna sem á undan mér hafa talað að það hefði einmitt verið talsverður ágreiningur um það hver ætti að hafa þetta forræði. Ég tel það mjög til bóta einmitt að sett verði á laggirnar stjórnstöð þar sem sameinaðir verði kraftar allra þeirra sem að málinu koma, bæði á sjó, landi og í lofti. Hins vegar hef ég það við tillöguna að athuga, það er að vísu aðeins formleg athugasemd en mig langar samt að koma henni á framfæri, að mér hefði þótt bæði eðlilegra og kurteislegra ef að þessum tillöguflutningi hefðu staðið þeir sem mikið hafa rætt þessi mál á undanförnum tveimur árum í öryggismálanefnd sjómanna. Ég hafði sjálf mjög sterkar skoðanir um þessi mál og hefði fegin viljað standa að flutningi hennar. Ég hef samt ekki tækifæri til þess vegna þess að þm. úr einum flokki hafa tekið að sér að flytja málið. Þó er þetta allsendis ópólitískt mál.

Hins vegar langar mig aðeins að varpa fram spurningu um það hvort till. stangist á við þessa tillögugerð sem áður hafði verið gerð af öryggismálanefnd sjómanna. Að öðru leyti hef ég ekki annað um málið að segja og mun beita mér fyrir því eins og í mínu valdi stendur að þessi till. fái brautargengi í gegnum þingið.