12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

313. mál, stjórnstöð vegna leitar og björgunar

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi till. er fram komin og þarf litlu að bæta við það sem áður hefur komið fram, m.a. í ræðu hv. 1. flm. till., að það er nauðsyn á sameiginlegri stjórnstöð og betri samvinnu aðila sem hlut eiga að máli. Það hafa verið uppi viðræður á milli þeirra tveggja ráðuneyta sem aðallega fara með þessi mál, samgrn. og dómsmrn., um tillögugerð að sameiginlegri stjórnstöð eins og þessi till. fjallar um og ég sé ekki ástæðu til annars en að þær sameiginlegu viðræður fari fram til þess að ná þar samkomulagi á milli ráðuneyta. Landhelgisgæslan og lögreglan heyra undir dómsmrn. og það er vissulega stór þáttur í þessari starfsemi allri. Hins vegar held ég að segja megi að allt annað heyri undir samgrn. og þá kemur inn í það dæmi fleira en hér er nefnt eins og frsm. nefndi, t.d. Póstur og sími í sambandi við fjarskiptamálin.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér efnislega meira um þessi mál. Þau eru viðkvæm og erfið og við verðum eins og fyrri daginn að ná sáttum og reyna að skilja sjónarmið hvers annars. Við getum sagt það að við metum mikils mjög mikla starfsemi Slysavarnafélags Íslands og allt það lið sem það hefur lagt björgunarmálum og fræðslu á því sviði allt frá stofnun þess til þessa dags. Við verðum einnig að hafa í huga mikilvægt starf sem Landhelgisgæslan hefur unnið á liðnum árum bæði hvað snertir skipin og sömuleiðis flugið.

Flugmálastjórn hefur líka komið inn á þessi mál í vaxandi mæli og björgunarsveitirnar. Það tengjast þessu ýmsar framfarir og framkvæmdir á sviði fjarskiptamála. Ég hygg að tilkoma farsímans sé mjög mikilvæg bæði fyrir allar samgöngur og ferðalög á landi sem og á sjó. Ég vona að þm. sameinist um afgreiðslu á þessari till. og jafnframt að við í þessum tveimur ráðuneytum berum gæfu til að taka sameiginlega ákvörðun sem allir geti við unað.